Er Elon Musk okkar tíma Henry Ford "to make America great again"?

Fyrir hundrað árum var meira en helmingur allra seldra bíla í heiminum af gerðinni Ford T.

Sá bíll sló sölumet, sem entist í meira en hálfa öld, og er talinn hafa haft meiri áhrif en nokkur annar í bílasögu 20. aldar 

Henry Ford var einn af þeim brautryðjendum í Bandaríkjunum sem höfðu gríðarleg áhrif um allan heim, blanda af uppfinningamanni á tæknisviði og viðskiptaliprum athafnamanni, sem þá var ómótstæðileg blanda. 

Allir þekkja nöfn eins og Thomas Álfa Edison og bræðranna Orwille og Vilbur Wright, manna nýsköpunar og uppfinninga, sem gerðu Bandaríkin mikilfengleg og mótuðu stór spor í heimssögunni. 

Ford skóp veldi sitt á grunni þeirrar hugmyndar að smíða bíl, sem alþýðan gæti haft efni á að eignast og reka. 

Hluti af því fólst að lækka svo mjög verðið á Ford T jafnframt því að hækka kaup launafólks, að það hefði efni á bíleign.  

Elon Musk fór aðra leið, stóð að framleiðslu á dýrum rafbíl, en forysta í gerð slíkra bíla reyndist lykillinn að því að ná fótfestu og gera það, sem varð að gera, að framleiða rafbíl, sem væri eigulegur fyrir fjömenna millistétt, Tesla 3. 

Í vetur gerðist síðan það sem enginn hefði getað spáð fyrir, að í samanburði við sambærilega bíla frá Benz, BMW og Audi í þýska bílablaðinu Auto Zeitung, varð Tesla 3 áberandi stigahæstur, en hinir þrír slógust um annað sætið. 

Síðuhafi minnist þess akki að í hálfa öld hafi þrír þýskir bílar orðið að lúta þannig í gras á heimavelli hjá þýskum bílablaðamönnum. 

Minnist þess heldur ekki að amerískur bíll hafi náð toppsæti hér í sölu nýrra bíla í meira en hálfa öld. 

Menn hafa hamast við það að spá Tesla fyrirtækinu gjaldþroti, en enn heldur Elon Musk velli á grundvelli einstæðs eldmóðs, bæði síns eigin og einnig þeirra sem hanna bílana. 

Þeir eru gott dæmi um þá möguleika, sem best kunna að duga "to make America great again" svo notað sé slagorð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. 

Rétta leiðin hlýtur að vera að stuðla að forystu í menntun, vísindum, tækni og þjóðfélagmálum. 

Hætt er við að þveröfug stefna Trumps, að koma á tollmúrum og hindrunum til að verja bandarískan iðnað "to make America great again" auk dálætis hans á olíuframleiðslu og andúðar á umhverfismálum muni ekki reynast líkleg til að gera gagn. 

Þegar Henry Ford komst á efri ár, sluppu hinar mikilfenglegu verksmiðjur hans naumlega við gjaldþrot í stríðslok 1945 vegna þeirra miklu íhaldssemi og þröngsýni sem helltust yfir hann. 

Hann las viðskiptaumhverfi bílaiðnaðarins kolrangt síðustu árin, sem Ford T. var eina gerðin sem seldist, að hann varð að stöðva framleiðslu verksmiðjanna alveg í nokkra mánuði 1927 til þess að koma með arftaka, Ford A. 

Hann stóð til dæmis í vegi fyrir því í fimm ár að taka upp vökvahemla og í 14 ár gegn því að leggja af hinar arfagömlu þverfjaðrir. 

Sú hætta er ávallt fyrir hendi, að frumkvöðlar og brautryðjendur lendi í því að lesa stöðuna ekki rétt á einhverjum tímapunkti. 

Í kringum 1970 voru Volkwagen verksmiðjurnar við dyr gjaldþrots vegna svipaðs vanda og Henry Fort lenti í 1927 vegna Ford T, að hanga of lengi á hliðstæðum bíl hvað einfaldleika og vinsældir snert, Bjöllunni, og afleiddum bílum með loftkældar boxaravélar að aftan og afturdrif. 

Í aldarlok settu bílasérfræðingar heims Citroen DS og Mini í 2. og 3. sæti á lista yfir merkustu bíla aldarinnar. 

Bjallan lenti þar fyrir aftan. Ástæðan var einföld. Yfir 80 prósent allra fólksbíla heims eru með framdrif og vatnskælda vél frammi og það voru bílar af því tagi, sem ruddu Bjöllunni úr vegi í byrjun áttunda áratugarins. 

 

 

 

 

 


mbl.is Tesla mest selda bílategundin á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hugsun Elon Must er ákaflega lík hugsun John Boyd, sem var maðurinn sem átti hvað mestan þátt í að móta strategíska hugsun á tuttugustu öld. Boyd var á sínum tíma langfærasti orrustuflugmaður bandaríska flughersins. Hann lærði síðan verkfræði og mótaði kenninguna um hvernig flugvél á flugi virkar (energy maneuverability theory). Að því loknu fór hann að hugsa um herfræði og kenningar hans urðu grunnurinn að nútíma hernaðartaktík. Lokaverkefnið sem hann tók sér fyrir hendur var að byggja kenningu um stjórnun fyrirtækja og stofnana á grundvelli herfræðinnar.

Þessi hugsun snýst um að byrja frá grunni og hugsa líkt og vísindamaður í stað þess að endurtaka það sem áður hefur verið gert. Spyrja grundvallarspurninga. Til dæmis hvers vegna eldflaug þurfi endilega að vera einnota.

Bernard Sadow, sem fann upp ferðatöskur með hjólum, nálgaðist viðfangsefnið ekki út frá því markmiði að búa til betri ferðatösku, eins og allir aðrir gerðu. Nálgunin var að finna betri leið til að færa farangur milli staða. Áherslan ekki á hlutinn sem slíkan, heldur á verkefnið sjálft.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.3.2020 kl. 23:01

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Höfundur PayPal, Tesla og nú Space-X geimferðir fyrir alla. Þessi maður er ekki síður merkilegur en Ford. Frumkvöðull og spámaður.

Halldór Jónsson, 1.4.2020 kl. 03:01

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orðið vandamál er gott orð í eðli sínu; vandasamt verkefni eða mál, sem ætlunin er að klára og leysa. 

Albert Einstein sagði: "Við getum ekki leyst vandamálin með sömu hugsun og við notuðum við að búa þau til."

Ómar Ragnarsson, 1.4.2020 kl. 08:48

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst alltaf svolitil þversögn í bila oog flugdellu þinni að þú viljir losna við olíubrennslu og útblástur og ekki síður að þér sé kappsmál að rafvæða allt en vera á móti virkjunum.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.4.2020 kl. 10:38

5 identicon

Elon er hálfsturlaður, bílarnir jú þokkalegir. Þessi Mars árátta hans er stóreinkennileg, hann eyðir stórfé í skýjaborgir um nýlendu á Mars. Nokkuð sem aldrei verður a veruleika. 

Spassi (IP-tala skráð) 1.4.2020 kl. 10:58

6 identicon

Eru ekki Tesla bílarnir nær einvörðungu framleiddir í Kína? 

Hvernig má það þá gagnast MAGA?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.4.2020 kl. 12:30

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Vera á móti virkjunum." Ekki stendur á alhæfingunni. Hér á landi voru gerðar tæplega 30 stórvirkjanir áður en stórbrotin hernaður á hendur einstæðri íslenskri náttúru hófst með þeim árangri að aðeins 17 prósent orkuframleiðslu okkar fer til íslenskra fyrirtækja og heimila en 83 prósent til virkjana í eigu erlendra stóriðjufyrirtækja. Ákvæði í samningunum við Alcoa tryggja að stórgróði Alcoa vegna Kárahnjúkavirkjunar er undanþeginn tekjuskatti í 40 ár.  

Ómar Ragnarsson, 1.4.2020 kl. 13:48

8 identicon

Tesla opnaði verksmiðju í Kína núna rétt fyrir áramótin, og framleiðir sú einungis fyrir Asíumarkað. Allar þessar milljón Teslur í Ameríku og Evrópu eru frammleiddar í Bandaríkjunum.

Atli Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.4.2020 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband