Það, sem allt snýst um: Tveir metrarnir og sprittunin.

Tveggja metra "mannhelgin" eins og Víðir kallaði hana svo réttilega, samanber orðið landhelgi, er nokkurn veginn, ásamt sprittuninni meginatriði alls þjóðlífsins um þessar mundir. 

Það eru þessir lífsnauðsynlegu tveir metrar sem hafa stöðvað hálft atvinnulífið og skapað djúpa kreppu, en voru óhjákvæmileg regla, eins og óvæntar hópsýkingar hafa bent til auk þess árangurs að koma í veg fyrir hrun heilbrigðiskerfisins og mikið mannfall. 

Á myndum af útilífinu á hinum góða degi í gær mátti sjá, að eftirsóknarlegt frelsi í blíðviðrinu skóp margfalt brot á tveggja metra reglunni þar sem samt hefði verið átt að vera tiltölulega auðvelt með góðum vilja, að fara eftir henni. 

Þetta var slæmt að því leyti, að það er hastarlegt fyrir burðarfyrirtæki á borð við Icelandair, svo að nærtækt dæmi sé tekið, að ekki sé talað um ferðaþjónustuna eins og hún leggur sig; áður með veltu upp á hundruð milljarða og störf í tugþúsundatali; -  að þurfa að sæta afleiðingum hinnar hörðu tveggja metra reglu á sama tíma og sjá má í sjónvarpi fjöldabrot á henni við aðstæður, sem ekki þurfa að koma í veg fyrir að hún sé virt. 

Fram að þessu hefur þjóðin í meginatriðum sýnt samvinnu og samstöðu, og þrátt fyrir vangaveltur um tilslakanir framundan, er mikilsvert að viðhalda sem mestri einingu um það sem gert er. 


mbl.is „Óþarfi að kóróna það með svona aðgerðum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mannfallið verður miklu meira vegna aðgerðanna en vegna pestarinnar. Nú þegar stefnir í að níu milljón manns farist úr hungri vegna þeirra.

En það er öllum sama um það. Svo djúpstæður er siðferðisbresturinn.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.4.2020 kl. 11:22

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er útaf fyrir sig rétt, Þórsteinn. Í áratugi hefur íbúum Vesturlanda látið sér fátt um finnast, þótt hálf milljón manna farist árlega af völdum malaríu og að í sunnanverðri Afríku hafi mannfall af völdum eyðni verið komist upp í milljónir. 

En þegar menn virðast einstaka sinnum vera ástæða til þess að nefna þetta nú gildir kannski um það orðalagið "að svo má böl bæta að benda á annað verra."

Ómar Ragnarsson, 26.4.2020 kl. 12:37

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Við stöndum frammi fyrir grafalvarlegu siðferðilegu vali Ómar. Það hverfur ekki þótt þú reynir að afneita því og bregðast við með útúrsnúningum.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.4.2020 kl. 17:44

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar ég var starfandi fréttamaður á RUV gerði ég margar fréttir um neyð, skort og hungur meðal hinna fátæku þjóða, sem eru alveg á skjön við þá fullyrðingu að um afneitun sé að ræða, hvað það varðar. 

Ég fór tvær ferðir til Eþíópíu, 2003 og 2006, og í seinni ferðinni fór ég með syrgjandi foreldrum að gröfum barna þeirra, sem höfðu látist eftir að ég heimsótti þetta fólk í El-kere í fyrra skiptið. 

Ég flutti fleiri fréttir af fátæktinni þar og síðar fréttaröð í Mósambík, þar sem ég reyndi að nota áhrifamikla grafík til að sýna hið skelfilega mannfall hjá kornungu fólki í því landi vegna eyðni. 

Ómar Ragnarsson, 26.4.2020 kl. 21:48

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að þú misskiljir þetta algerlega Ómar. Málið snýst ekki um það hvort hungur sé til staðar í heiminum. Og ég efast ekkert um að afleiðingar þess renni þér til rifja eins og öðru fólki.

Málið snýst um það að vegna aðgerða gegn kórónaveirunni um allan heim spá SÞ því að fjöldi þeirra sem lifa undir hungurmörkum muni tvöfaldast. Og þar með má reikna með að fjöldi þeirra sem deyja úr hungri tvöfaldist líka. Siðferðilega spurningin er sú hvort aðgerðirnar, sem ætlað er að bjarga einhverjum hundruðum þúsunda frá veirunni, séu réttlætanlegar verði þær til þess að níu milljón manns farist úr hungri.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.4.2020 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband