27.4.2020 | 07:17
Aldrei misdægurt öll sumrin í sveit.
Síðuhafi var sendur í sveit til útivistar í níu sumur á aldrinum frá fimm til fjórtán ára.
Sex ára varð hann mjög veikur í margar vikur um miðjan veturinn í Reykjavík af sótt, sem erfitt var fyrir læknana að greina, en gat verið afbrigði af mænusótt, sem þá stakk sér niður og kostaði nokkur mannslíf.
Læknirinn taldi hins vegar að miklu hefði ráðið um það, hve vel var sloppið frá þessum alverlegu veikindum, að í sveit að Hólmaseli í Flóa sumarið áður hefði mikil útvist eflt heilsu og hreysti borgardrengsins til muna og hann komið sérlega "útitekinn" og og sprækur til baka.
Aðstæður voru frumstæðar í sveitinni hluta af sumrinu og sofið í tjöldum í hlöðunni á meðan stóð á byggingu nýs íbúðarhúss.
Aðstæður voru líka frumstæðar í Kaldárseli, þar sem unað var úti allt sumarið og aðeins borðaður hollur matur en kökur, sætindi og gosdrykkir víðs fjarri nema daginn áður en farið var til byggða.
Í Hvmmi í Langadal var fjósið í kjallara íbúðarhússins og engin aðstaða á þeim tima til baða þau sumur. Sambúðin við skít og náttúru var náin við störf og leik, þar sem sumarstörfin og heyannirnar með notkun hesta og handafls urðu æ fyrirferðarmeiri eftir því sem líkamlegt þrek óx í uppvextinum.
Ekki var kynt upp á sumrin, heldur sköffuðu kýrnar í kjallaranum undir eldhúsinu þann litla yl, sem notast var við. Á þeim tíma voru hlutir eins og sími, kæliskápu, rafmagnseldavél og rafknúin tæki í eldhúsi ekki þarna, enda aðeins lítið rafmagn að fá úr örlítilli heimarafstöð í litlum, tilbúnum bæjarlæk, sem leiddur var í handgröfnum skurði á ská niður fjallshlíðina utan úr fjallinu fyrir ofan bæinn.
Ekki þurfti nema að kýr eða hestur stigi í þennan litla skurð, sem var aðeins númt fet á breidd til þess að vatnið færi út úr honum, og var því algengt að byrja daginn á að fara með skóflu upp í fjall til að laga skemmdirnar.
Til þess að mjaltavélin fengi næga orku varð að deyfa og slökkva öll ljós á bænum þegar fór að skyggja á kvöldin síðsumars.
Á þessum árum urðu börn að hlíta því að verða veik af mislingum, hettusótt, rauðum hundum og öðrum umgangspestum og farsóttum, en aldrei rekur mig minni til að mér hafi orðið misdægurt eða fengið kvef öll þessi sumur, sem sambýlið við náttúruna var náið í sveitinni.
Í borginni var útivera mun snarari þáttúr í tilverunni en nú er. Ekkert sjónvarp, tölvur eða snjallsímar til að glepja fyrir og útvarp aðeins í gangi á kvöldin.
Íslendingarnir sem skara fram úr í útivist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.