27.4.2020 | 17:41
"Góð viðbót við "jeppa"flóruna? P.S. Af svipaðri stærð og Vitara.
Í heimsmeistarakeppninni í ralli hefur Toyota gengið vel í fyrstu þremur röllunum. Hér um árið notuðu verksmiðjurnar Toyota Celica, sem var sportbíll í millistærð, til að blanda sér í toppbaráttuna, en nú er notaður næst minnsti bíllinn, Yaris.
Í ralli reynir mjög á sömu atriðin og við torfæruakstur; styrkleika, öryggi og reynslu.
Með því að sækja fram í heimsmeistarkeppninni ræktar Toyota og nýtir sér reynsluna af framleiðslu traustra jeppa og þátttöku í bílaíþróttum.
Fróðlegt verður að kynna sér sókn Toyota niður á við í stærð, sem ætti að geta skilað áreiðanlegum bíl fyrir jeppaslóðir á viðráðanlegu verði.
Veghæð og mikið hraðasvið í drifbúnaði skipta máli alveg eins og það að hafa fjórhjóladrif.
Auglýst er að bíllinn verði boðinn með drifi á aðeins tveimur hjólum. Ef það verður gert, er það gert til að geta boðið hann á miklu lægra verði en fjórhjóladrifsbílinn.
Það var byrjað að gera þetta í miklum mæli þegar 21. öldin gekk í garð og það svínvirkaði svo mjög, að margir svonefndir sport"jeppar" og "jepp"lingar eru ekki einu sinni í boði með afturhjóladrifi né þeirri veghæð, sem hæfir ósviknum jeppa.
En skoðanakannanir sýndu að yfir 90 prósenta kaupenda var drullusama.
Með því að útvatna svona jeppahugtakið var sinnt þeirri ríkjandi hugsun flestra kaupenda að "það halda allir að ég sé á jeppa."
Nýi Yaris "jeppinn" líkist þar að auki svo mjög RAV 4, að hugsanlega kunna einhverjir að bæta við "það halda allir að ég sé á RAV 4 jeppa"?
Of snemmt er að fella neina dóma um hinn nýja Yaris Cross, sem lítur við fyrstu fjarsýn út fyrir að vera með drjúga veghæð, en er, þegar það er kannað betur, aðeins þremur sentimetrum hærri undir lægsta punkt en venjulegur Yaris.
Þegar RAV 4 kom á markað sem ákveðinn tímamótabíll fyrir rúmum aldarfjórðungi, var hann álíka stór og þungur og hinn nýi Yaris Cross er núna, og hefur RAV 4 síðan vaxið og þyngst svo mjög, að hann er um 50 prósent þyngri en upprunalegi bíllinn og í allt öðrum verðflokki og stærðarflokki.
Með því hefur hann skilið eftir skarð í bílaflóru Toyota, sem ber að fagna, að nú eigi að fylla með hinum nýja bíl, sem verður, rétt eins og upprunalegi RAV 4, í svipuðum stærðarflokki og eini alvöru jeppinn, sem eftir er í minnsta stærðarflokknum, Suzuki Jimny.
Raunar sýnist Yarisinn vera talsvert stærri en Súkkan, svo að það verður að hinkra eftir því að hægt verði að kynna sér hann nánar.
Hugsanlega mun Yaris Cross keppa frekar við minnstu hliðstæðu gerðirnar hjá öðrum bílaframleiðendum, þar sem úrvalið er yfirdrifið í samræmi við þá rangnefndu "jeppa"dellu, sem hefur ríkt um allan heim.
P.S. Nýjustu upplýsingar eru þær, að þessi bíll verði nokkurn veginn upp á sentimetra jafn stór og Suzuki Vitara, og þar af leiðandi 60 sentimetrum lengri en Suzuki Jimny og í allt öðrum flokki bíla. Sem sagt: Ekki jeppi í sama skilningi og Jimny.
Minnsti jeppi frá Toyota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.