Gróft áætlað þýðir tveggja metra reglan að fimm sinnum færri megi vera í samkomusal en núverandi sætafjöldi segir til um. Kannski sjö sinnum færri.
Fimm sinnum færri þýðir rúmlega 150 manns í Háskólabíói, 60 í Salnum í Kópavogi og 300 í Eldborgarsal Hörpu, en vegna þess að um einn sal er að ræða þar, verður hámarkstalan þar aðeins 200.
Fimm sinnum færri er mjög vel sloppið, en þetta umhverfi skapar afar erfiðar aðstæður listamanna.
Síðan er ótalið hverni eigi að leysa nálægðarregluna í inngangi, á salernum og annars staðar í þessum húsum.
Eftir hrun á sölu geisladiska hafa tónleikar verið helsta tekjulind tónlistarfólks og fyrir bragðið hefur tónlistarlífið verið afar gjöfult og gefandi, því að til þess að standa undir því að gera tónleika eftirsótta og áhugaverða, hafa kröfurnar um gæði orðið meiri og útkoman glæsilegri.
Tónlistarfólk hefur sýnt mikla útsjónarsemi, dugnað og sköpunarkraft, og í góðærinu tókst því að finna nýjan farveg.
Hætt er við að ef viðhalda eigi gæðum og eftirspurn, muni fimmföld fækkun eða meiri, spenna viðunandi miðaverð svo mikið upp, að í raun verði framhald á því hruni, sem nú blasir við á þessu sviði þjóðlífsins.
Þótt allir slái af sínu, eigendur húsanna, tónleikahaldarar, tónlistarfólk og tónleikagestir virðist um óviðráðanlegan vanda að ræða, því miður.
En rétt eins og margir sáu svart framundan við hrun geisladiskasölunnar en fundu síðan nýjar leiðir, geta sköpunarkraftur og útsjónarsemi vonandi leyst hinn nýja og óvænta vanda.
200 mega koma saman 25. maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flestir tónleikagestir koma ekki einir og því er rangt reiknað. Par sem kemur saman þarf ekki tvo metra á milli sín. Fjölskylda þarf ekki að dreifa sér um salinn.
Vagn (IP-tala skráð) 13.5.2020 kl. 20:29
Ótal dæmi eru um það í faraldrinum núna, að annar aðili pars sé með smit en hinn ekki. Ef parið er í sambúð heima hjá sér er það upp á traust þeirra á millum og mat hve nálægðin er, en þannig er því ekki varið þar sem það er á ferð innan um annað fólk.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2020 kl. 21:25
Það hafa ekki það margir smitast að ótal dæmi séu um að annar aðili pars sé með smit en hinn ekki, jafnvel þó á heimsvísu sé. Og ég held að það hafi komið nokkuð oft fram að fólk í þeirri stöðu ætti ekki að vera að sækja tónleika eða á ferð innan um annað fólk.
Fólk kaupir sína miða miðað við hvaða fjarlægð það vill halda frá öðrum. Kjósi einhver að sitja tvo metra frá konu sinni og krökkum þá er ekkert því til fyrirstöðu, annað en heimilisfriðurinn. En það er einfaldlega röng reikniaðferð að reikna með því að allir vilji halda þeirri fjarlægð frá öðru heimilisfólki. Það er töluverður munur á því hvað hægt er að selja í rými þar sem allir hafa 2 metra í næsta mann eða hvort það eru tveggja, þriggja og fjögurra manna klasar með tvo metra í næsta klasa.
Vagn (IP-tala skráð) 13.5.2020 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.