2.7.2020 | 12:34
Mörg þúsund ára gömul heimsmynd gengin aftur?
Í heimsmynd mannkynssögunnar í þúsundir ára voru greyptar drepsóttir, sem sífellt herjuðu á jarðarbúa. Listinn yfir sjúkdómana var langur, bólusótt, svartidauði, berklar, barnsfarsóttir, mislingar, mænuveiki, inflúensa o. s. frv.
Drepsóttirnar, sem voru svo stór þáttur í lífi kynslóðanna, komu stundum hver á eftir annarri, jafnvel nýjar af nálinni.
Með eflingu hvers kyns vísinda, ekki síst læknavísinda á síðustu tveimur öldum, vannst smám saman sigur á skæðustu sjúkdómunum, svo að á síðari hluta 20. aldar virtist hin gamla heimsmynd að mestu horfin.
En á níunda áratugnum barst ótrúleg frétt um heiminn, algerlega ný farsótt í Bandaríkjunum með tilvist HIV-veira, sem reyndust upprunnar í öpum í Vestur-Afríku og einkum leggjast á homma.
Þótt fundist hafi lyfjameðferð til að glíma við þennan vágest, fellir hann enn tugþúsundir fólks í fátækjum ríkjum, svo sem í Suður-Afríku.
Um sinn virtist ekki hætta á að fleiri nýir sjúkdómar birtist, en 21. öldin var vart gengin í garð þegar nýjar tegundur af veirum komu fram á ógnandi hátt, svo sem ebóluveiran, svínaflensuveiran og SARS- kórónuveiran.
Þótt í bili tækist að koma í veg fyrir að þessar veirur yrðu að heimsfaraldri vakti sá árangur falskar vonir og það átti heldur betur eftir að hefna sín á óvæntan og afdrifaríkan hátt.
Nú geysar um heiminn skæðasta drepsótt í hundrað ár, COVID-19, og það berast fregnir af því að ný tegund svínaflensu sé komin fram.
Spurningin er, hvort mannkynið standi nú frammi fyrir afturgenginni heimsmynd nýrra og nýrra skæðra farsótta.
Margir fræðimenn á sviði heilsufars, læknavísinda og lífsstíls telja, að ástæða nýs ástands varðandi drepsóttir séu rangir lífshættir nútímafólks, sem hafi valdið sprengingu í hópum fólks með svonefnda undirliggjandi sjúkdóma á borð við offitu, sykursýki og lungnasjúkdóma.
Sé svo, er óvíst nema að hinn nýi veruleiki afturhvarfs til fornaldar verði til frambúðar og þar með þörf fyrir ný viðhorf og ný viðbrögð þar sem öflug vísindi og innviðir nútíma þjóðfélaga verði nýtt til gagnsóknar.
Breytt heimsmynd á hálfu ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.