"Eldgos, hungur og drepsóttir", hið endalausa viðfangsefni jarðarbúa.

Nóbelskáldið Halldór Laxness nefndi þessi þrjú orð, eldgos, hungur og drepsóttir, í frægri eldmessu sinni í sjónvarpi yfir þremur öðrum skáldum, þegar hann lýsti því lífi sem fyrri kynslóðir hefðu búið við á Íslandi.  

Á framfaraskeiði lyfja og bólusetninga á nýjustu tímum voru jarðarbúar farnir að halda, að mannkynið gæti útrýmt tvennu hinu síðarnefnda, hungri og drepsóttum, og þó einkum drepsóttunum. 

Því var trúað, að inflúensa, svo sem spánska veikin, og þess utan, bólusótt, mænuveiki, mislingar, berklar, þétta væru allt fyrirbrigði sem vísindi og tækni gætu útrýmt. 

En þegar helstu atriði þess ástands, sem nú ríkir á tíma farsóttarinnar og drepsóttarinnar COVID-19, eru lögð saman, blasir við önnur mynd. 

Hagkerfi hinna fátækari þjóða heims ráða ekki við það verkefni að kveða þennan ófögnuð niður. 

Jafnvel þótt nothæf bóluefni finnist, verða efnahagslegu áhrifin af faraldrinum og tilveru veirunnar eftir hann svo mikil, að líklega verður aldrei sama þjóðfélagsástand og áður var, auk þess sem reikna verður með því að nýir sýklar, veirur og tegundir farsótta komi fram á sjónarsviðið.   

Sú sýn hefur skapast, að skipta megi mannkynssögunni í tvennt; annars vegar tugum þúsunda ára mannkynssögu með drepsóttir, skæða sýkla og veirur sem óhjákvæmilegum hluta tilverunnar; - og hins vegar - nýja tíma, þar sem þessir skaðvaldar hverfa að mestu úr lífi jarðarbúa. 

En langlíklegast virðist, að þetta hafi að miklu leyti verið tálsýn, og að árið 2020 verði í minnum haft sem árið, sem miðað verði við, líkt og þegar Skaftfellingar töluðu um tvö tímabil, fyrir og eftir eld, þ.e. Skaftáreldana 1783.   


mbl.is Of snemmt að fagna árangri aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og nú þarf fjöldi látinna vegna Covid bara að rúmlega þrefaldast til að jafnast á við dánartíðnina í Hong Kong flensunni, sem enginn man eftir, á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá voru einnig óeirðir í útlöndum og héðan fluttu margir til Kanada og Ástralíu vegna kreppu og atvinnuleysis.

Langlíklegast virðist að árið 2020 verði ekkert sérstaklega í minnum haft umfram önnur ár smávægilegra óþæginda, uppþota og erfiðleika. Og heimurinn breytist eins mikið og Lúkas breytti kommentakerfunum.

Vagn (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 20:51

2 identicon

Í flensunni miklu 1957-8 dóu 116000 bandaríkjamenn og í flensunni 1968 um 100000. Nú eru dauðir um 170000 bandaríkjamenn og sér ekki fyrir endann á pestinni.

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 21:31

3 Smámynd: Haukur Árnason

 Í Spænsku veikinni 1918 dóu um 650.000 í Bandaríkjunum. Indland fór þá verst út úr henni, það dóu um 4,9 miljónir. Vonandi ná þeir að lágmarka þetta núna.

Haukur Árnason, 4.8.2020 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband