5.8.2020 | 18:57
Tekur bíllinn ekki plássið, sem hann tekur?
Í Morgunblaðinu sl. fimmtudag var birt af bíl, sem er lagt "5-7 sentimetra" út á gangstétt" fyrir utan bílastæðið.
Ekki er annað að skilja á greininni en að þetta sé jafn smávægilegt brot og þessir þverhandar sentimetrar, og mynd með greininni virðist eiga að sanna þetta, því að frá því sjónarhorni, sem hún er tekin, skagar bíllinn að öðru leyti alls ekkert út á gangstéttina, sem markast dökkum afar lágum kanti.
En raunin er önnur, því að afturendinn skagar ekki minna en 75 sentimetra út yfir gangstéttina.
Engum lifandi manni væri fært að fara með hjólastól eða ganga sjálfur alveg upp við markalínuna.
Skögun skögun svona bíla að aftan er yfirleitt ekki minni en um 70 sentimetrar.
En svo virðist sem stór hluti Íslendinga telji, að miða eigi stærð bíla við lengd þeirra á milli hjóla en ekki enda á millum.
Og að fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt sé að leggja þeim eins og sést á myndunum hér fyrir neðan.
Ef þetta væri raunin, vaknar spurningin um það, við hvað eigi að miða þegar bílarnir eru mjög langir og lágir.
Ekkert svar fæst við því og ekki hægt að vitna í neitt í umferðarlögunum um það bílar þurfi ekki að taka allt það pláss sem þeir taka og eigi við um lagningu í bílastæði.
Rökin eru að vísu sögð þau, að með því að láta bílana renna rólega að gangstéttarbrún og stöðvast á þeim sé komið í veg fyrir að afturendinn skagi of langt aftur!
Nú eru bílastæði yfirleitt 5 metra löng en afar fáir fólksbílar meira en 4,50, flestir aðeins styttri en það.
Og það er eins gott að eigandi húsbílsins á myndinni hér við hliðina á ekki heima á staðnum, þar sem Moggamyndin er tekin, því að hann gæti sennilega lagt afturendanum á sínum bíl þannig, að hann skagaði alveg yfir alla gangstétttina, en samt verið með hjólin réttu megin við strikið.
Umræðan um þetta er á afar sérstöku plani hjá mörgum hér á landi, sem halda því fram, að bílar þeirra taki ekki það pláss á götum og stæðum, sem þeir taka.
Og leggja unnvörpum i bílastæði eins og sést á neðstu myndunum.
Þegar þeim er bent á þetta, reyna sumir að afsaka sig, en aðrir verða jafnvel reiðir og hóta að kalla á lögreglu, til dæmis í aðstæðum eins og á neðstu myndinni. Margir í stöðu hvíta bílsins hafa afsakað sig með því að það hafi áður staðið bíll vinstra megin við bílinn, sem hafi kallað fram þessa tveggja stæða lagningu.
Samt sést oft að það hefði verið tæknilega ómögulegt að þetta væri raunin.
Sumir hafa haldið því fram að rauða bílnum hafi verið lagt ólöglega, af því að hann þrengi svo mjög að öörum bílum.
Samt sést, að rauði bíllinn er innan marka bílastæðisins en sá hvíti ekki, en þá koma bara lokarökin: "Ég kom fyrst."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.