Blettatígurinn er fljótasta landdýr jarðar, en hraði hans er þó minna en þriðjungur af hraða fálkans, sem er fljótastur allra, þegar hann nær um 400 kílómetra hraða í steypiflugi.
Enginn fugl á norðurhvelinu hefur þó viðlíka áhrif á áhorfandann návígi og örninn, konungur íslenskra fugla.
Þegar síðuhafi upplifði óvænt flug þess fugls skammt yfir höfði hans við Breiðafjörð fyrir 81 ári, voru áhrifin þau að maður missti andann, það var eins og að hjartað stoppaði.
Aftur vaknaði sama tilfinning fyrir 15 árum, þegar örn hóf sig óvænt til flugs við Teigsskóg til að kanna göngu óboðins gests við Teigsskóg.
Hann sveif svo undurhægt í hring á fáránlega stórum vængjum sínum og hvarf síðann til baka, fullviss um að allt væri í lagi og að "friður ríkti í fjalladalnum" eins og segir í ljóðinu um Hamraborgina.
Örninn flýgur ekki fugla hæst í heimi eins og segir í ljóðinu, heldur er það kondórinn í Suður-Ameríku.
Örninn og fálkinn eru með ólíka vængi. Hinir firnastóru vængir arnarins eru svipaðrar gerðar og vængir á burðarmiklum og hægfleygum flugvélum, sem eru breiðir og með mikið flatamál og lyftikraft.
Örninn getur því lyft miklu stærri bráð en nokkur annar ránfugl. Vængir hans líkjast stórum og breiðum vængjum hægfleygra og burðarmikilla skammbrautarflugvéla á borð við Helio Courier eða hina þýsku Fieseler Storck.
Á ljósmynd á mbl.is vekja gulir fletir neðan á erninum athygli. Það eru hinar stórar og sterku klær hans, sem eru svo mikilvægar þegar klófesta þarf og lyfta stórri bráð.
"Klógulir ernir yfir veiði hlakka..." orti Jónas Hallgrímsson í ljóðinu Gunnarshólma, einhverju magnaðasta risamálverki í orðum, sem gert hefur verið.
Fálkinn er hins vegar með vænglag, sem miðast við það að ná sem mestum hraða, þegar hann gerir loftárásir á aðra fugla á flugi.
Þess vegna sendi Hermann Göring flugmarskálkur, næstæðsti maður Þýskalands, sveit manna til Íslands 1937 með leyfi íslenskra stjórnvalda, til þess að klófesta nokkra fálka til þess að hafa á búgarði sínum í Þýskalandi.
Þar vonaðist hann til að geta, sem yfirmaður öflugasta hernaðarflugflota heims, að þessum undrafuglum frá Íslandi.
Sama ár var tímamótaárásin á Guernica á Spáni gerð sem liður í þróun árásarflugvéla, sem fólu í sér mesta hernaðarhrylling þess tíma, Junkers Ju-87 Stuka, sem steypti sér nær lóðrétt á 600 kílómetra hraða niður á skotmark sitt og lét sprengjur falla þráðbeint niður á bráðina og fór síðan yfir í sjálfstýringu upp úr dýfunni, vegna þess að flugmaðurinn missti oft meðvitund í henni örstutta stund, af því að hún var svo kröpp, að þeir fengu það sem kallað er "black-out".
Þetta var fyrir tíma kjarnorkusprengjunnar, sem síðar varð að mesta hryllingsvopni, terror, hernaðarsögunnar.
Ernirnir eru tilkomumiklir á flugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær færsla Ómar.
Hermann Göring sendi Hermanni Jónassyni postulínsstyttu af einhverju, SS manni eða fálka, held ég, með áletrun til Hermanns frá Hermanni.
Ætli það hafi tengst þessu fálkaævintýri. En Hermann vildi fá flugvelli á Íslandi hjá Hermanni sem ekki lét laust sem betur fór í ljósi sögunnar.
Þessi stytta hlýtur að vera til einhversstaðar, kannski hjá Guðmundi Steingrímssyni?
Halldór Jónsson, 6.8.2020 kl. 12:47
Takk, Halldór. Maðurinn, sem réði úrslitum um það að Hermann hafnaði beiðni Hitlers um flugvelli á Íslandi var hinn kornungi flugmálaráðunautur Hermanns, Agnar-Koefoed Hansen í ársbyrjun 1939.
Agnar hafði yfirburðaþekkingu á heimsmælikvarða á flugmálum, hafði lært flug í Danmörku, og flogið fyrir norskt flugféla og um alla Evrópu fyrir Lufthansa í Þýskalandi.
Hann þekkti persónulega ráðamenn Þýskalands og vorið 1939 sendi Hermann hann til Þýskalands til að læra að verða lögreglustjóri í Reykjavík hjá Gestapo undir verndarvæng Heinrich Himmlers.
Þegar Bretar stigu á land í Reykjavík 10. maí, bæ Gestapo-lærða lögreglustjórans, hreyfðu þeir ekki hár á höfði hans.
Eðlilega, Agnar var maðurinn sem bjargaði Bretum og Ísendingum frá því að verða fyrst hernumdir af Þjóðverjum!
Svo innundir var Agnar hjá nasistum, að ætlunin var að í einu af teitum þeirra myndi hann heyja einvígi við sjálfan Heydrich í skammbyssuskotfimi!
Af því varð þó ekki, því að Heydrich komst ekki í teitið.
Stytta Görings er líklega ekki til, en risastór öskubakki með tákni SS-sveita Himmlers, hauskúpu og krosslögðum leggjum, sem Baldur Ásgeirsson gaf pabba mínum eftir nám sitt í leirkerasmíði í sérstöku boði Himmlers í Dachau, - ég endurtek, Dachau 1938, er í vörslu hjá mér.
Ómar Ragnarsson, 6.8.2020 kl. 15:36
Af hverju þessi aðdáun Ómars á Koefoed Hansen? Var kallinn ekki nasisti?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.8.2020 kl. 19:40
Sælir. Það var ekki Göring, heldur Himmler, sem sendi Hermanni Jónassyni styttuna. Þór Whitehead fjallar um þetta í bók sinni Íslandsævintýri Himmlers og birtir þar mynd af styttunni, og annarri styttu sem Guðbrandur Jónsson fékk frá H.H. fyrir njósnir í þágu Þýskalands. Það fréttist af þessari styttu hjá Steingrími+Eddu. Guðmundur sonur þeirra hlýtur að vita hvar hún er núna.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 7.8.2020 kl. 12:20
Ég kynntist Agnari Koefoed-Hansen það vel sem flugmálastjóra og hef lesið endurminningar hans til að verða þeirrar skoðunar, að hann hafi verið afburða maður á marga lund og þjónað landi sínu af einstökum heiðarleika.
Kreppan var einna dýpst hjá okkur 1938-1940 og eftir að það lá beinast við hjá Agnari, sem var danskur í aðra ættina, að læra flug í Danmörku, einnig fullkomlega eðlilegt að hann leitaði til tveggja næstu nágrannalanda Danmerkur um að fullnuma sig í öllu, sem viðkom flugi.
Þessi ungi og glæsilegi maður á þrítugsaldri varð helsta driffjöðrin í því að koma flugi á laggirnar á Íslandi þessi dýpstu kreppuár, og þegar Þjóðverjar léðu Íslendingum flugvél til að Agnar gæti farið um landið og kannað stæði fyrir flugvelli framtíðarinnar, og þýskir aðstoðuðu einnig við að byggja upp svifflugið og flugkunnáttuna hér á landi, var það alveg eðlilegt, að slík aðstoð yrði þegin, án nokkurra skuldbindinga.
Höfnun Íslendinga á beiðni Hitlers 1939, sem Agnar stóð fyrir, vakti athygli víða erlendis, því að hún kom á sama tíma sem allar þjóðir voru lafhræddar við Þjóðverja og stunduðu friðþægingarstefnu.
Ég fór sem fréttamaður með Agnari um Noreg þar sem hann kynnti sér norska flugvelli og kom þar á fundi, sem hann var á og heillaði alla upp úr skónum með sinni miklu útgeislun og glæsileika.
Honum tókst að útvega Íslendingum langstærsta flugstjórnarsvæðið á Norður-Atlantshafi, sem skilar mörgum milljörðum í þjóðarbúi árlega.
Agnar Koefoed-Hansen var áreiðanlega einn af bestu sonum Íslands.
Ómar Ragnarsson, 7.8.2020 kl. 18:06
https://kvennabladid.is/2018/09/17/flottamenn-i-evropu-og-nasistar-a-islandi/
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.8.2020 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.