30.8.2020 | 10:41
Bretland: 85 þúsund dauðsföll samsvara um 500 dánum hér.
Talan 85 þúsund látnir í Bretlandi í vetur samsvarar, miðað við fólksfjölda Bretlands og Íslands, um 500 dánum hér.
Hér hafa 10 látist fram að þessu, þannig að það verður bara að vona, að þessi ágiskunartala sé allt of há.
En hættan er samt á, að hún geti hugsanlega verið skuggalega há, og hafa ber í huga, að í mörgum tilfellum eru eftirköst og afleiðingar veikinnar langvarandi, þótt langflestir sleppi fyrir horn.
Í spönsku veikinni 1918 dóu um 500 manns hér á landi, sem samsvarar 1500 núna, af því að núna er þjóðin þrefalt fjölmennari en þá.
Skýrslu sem bendir til 85.000 dauðsfalla lekið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í hvað mörgum tilfellum eru eftirköst og afleiðingar veikinnar langvarandi? Hvað á það við um marga sem smitast af henni?
Ég spyr þig vegna þess að mér finnst það ákaflega hæpið að fullyrða að þetta sé svo "í mörgum tilfellum". Mér finnst það hæpið vegna þess að það eru engar rannsóknarniðurstöður til sem sýna fram á þetta. Það að einhver tilfelli séu til, og fái auðvitað mikla fjölmiðlaathygli, merkir ekki að tilfellin séu "mörg". Um það er einfaldlega ekkert vitað enn.
Þorsteinn Siglaugsson, 30.8.2020 kl. 12:02
Þótt ég hafi hvergi nærri verið eins mikið á ferli á COVID-19 tímanum og fyrir hann, eru þau tilfelli sem ég þekki persónulega og hef fregnað af undanfarnar vikur nógu mörg að mínu viti til þess að hægt sé að nota það orð.
Ómar Ragnarsson, 30.8.2020 kl. 13:38
Þriðjudagur 11. ágúst 2020 "Tugir manna hafa leitað sér aðstoðar á Reykjalundi vegna eftirkasta COVID-19 sjúkdómsins. Hópurinn á það sammerkt að starfsþrek og úthald er lítið. Sumir þurfa jafnvel hjálp við að klæða sig og setjast upp.
Þetta kom fram hjá Stefáni Yngvasyni, endurhæfingarlækni og lækningaforstjóra Reykjalundar, í Fréttaþættinum 21 á Hringbraut í gær.
Litlu virðist skipta hvort einkenni sjúkdómsins hafi verið mikil eða lítil. Afleiðingarnar birtast með margvíslegu móti. Þar á meðal er andnauð, svæsinn magaverkur, hárlos, doði í jafnvel stórum hluta líkamans, sjóntruflanir, suð fyrir eyrum og jafnvægistruflanir.
Karólína Helga Símonardóttir, sem fékk sjúkdóminn, segir að eftirköstin í hennar tilviki séu ólík frá degi til dags. Hún hafi glímt við lungnaverki, málstol og jafnvægisleysi. Hún greindist í marsbyrjun og kveðst vonast til að ná sér að fullu en eftir tæplega hálft ár viti hún ekkert hvort hún vakni upp við verki eða ekki. Hún sæki styrk í hóp á Facebook þar sem um 600 einstaklingar, sem berjast við afleiðingar af COVID-19, stappi stálinu hver í annan og finni fyrir vikið ekki til vonleysis." https://www.frettabladid.is/frettir/margir-glima-vi-fjolbreytt-eftirkost-covid-19/
Vagn (IP-tala skráð) 30.8.2020 kl. 14:28
Það væri áhugavert að vita hversu margir tugir hafa leitað eftir endurhæfingu. Það gæti verið vísbending. Ef það eru til dæmis fimmtíu manns og 5.500 hafa smitast eiga þessi alvarlegu eftirköst við um tæplega eitt prósent þeirra sem smitast. Ég myndi ekki kalla það marga. Séu hins vegar 500 manns að fá alvarleg eftirköst gæti gegnt öðru máli.
Þorsteinn Siglaugsson, 30.8.2020 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.