9.9.2020 | 07:25
Hvers vegna ekki ríkisflugvellir eins og önnur samgöngumannvirki?
Agnar Koefoed-Hansen var flugmálaráðunautur íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir stríð og ráðlagði Hermanni Jónassyni forsætisráðherra snemma árs 1939 á grundvelli einstæðrar þekkingar sinnar á framförum í hernaðarflugi að hafna beiðni Hitlers um aðstöðu fyrir Þjóðverja á Íslandi fyrir þýskar flugvélar, sem flygju yfir Atlantshafið.
Þó hafði Agnar fengið litla þýska, tveggja manna flugvél til umráða frá Þjóðverjum sumarið 1938 til þess að leita að hentugum stöðum fyrir flugvelli á Íslandi, allt frá ströndum landsins inn á miðhálendið.
Neitun Íslandinga vakti athygli á þeim tíma, sem þjóðir heims voru uppteknar í því að friðþægja hinum ágenga Hitler.
Agnar varð flugmálastjóri eftir stríðið og gekkst fyrir því að byggja upp net flugvalla á vegum ríkisins á þeim tíma, sem mjög skorti á almennilega vegi.
Hann gekk líka einstaklega ötullega fram í því að fá milljarða tekjur árlega inn í landið með því að Íslendingar tækju að sér stærsta flugstjórnarsvið í okkar heimshluta.
Á síðustu áratugum hefur ríkisvaldið hins vegar reynt að koma eðlilegum og sjálfsögðum rekstri flugvalla af sér, og flugvöllum frá dögum Agnars Koefoed-Hansen hefur fækkað um marga tugi og aðrir látnir drabbast niður, eins og til dæmis kom vel í ljós í fjöldaslysi í aðeins tíu kílómetra fjarlægð frá Blönduósflugvelli.
Helstu flugleiðir í áætlunarflugi innanlands liggja yfir miðhálendið, en aðeins einn skráður og alþjóðlega viðurkenndur flugvöllur er á miðhálendinu. Að vísu með malarbrautum, en samt nothæfur sem neyðarflugvöllur fyrir allar vélar, sem fljúga innanlands,
Hann er fimm brauta flugvöllur á stærð við Reykjavíkurflugvöll og hefur verið þungur baggi fyrir síðuhafa sem umráðamanns að viðhalda, af því að hann er einn af þeim flugvöllum, sem ríkið hefur frá upphafi komið af sér á herðar einkaaðilum.
Hann sannaði gildi sitt í Holuhraunsgosinu 2014-2015, enda aðeins í korters flugfjarlægð frá gosstöðvunum.
Nú er það dragbítur á öryggismálum í flugi og sjúkraþjónustu, að enginn brúklegur sjúkraflugvöllur er á svæðinu milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.
Er það eitt af mörgum dæmum um það, hvernig andi frumherjanna í flugvallarmálum hefur fjarlægst hin síðari ár.
Vilja ekki taka yfir rekstur flugvallarins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ríkið er ekki lausnin, heldur vandamálið.
Ásgrímur Hartmannsson, 9.9.2020 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.