18.9.2020 | 18:55
Alvotech, gott dæmi um "eitthvað annað."
21. öldin byrjaði á Íslandi með því að deilt var um í hverju væri best að fjárfesta.
Þá komu fram hugmyndir um að reisa sex risa álver og virkja alla virkjanlega orku á landinu fyrir þau.
Þegar bent var á það, að flestar þær þjóðir, sem lengst væru komnar í efnahagslegu og velferðarlegu tilliti, hefðu nýtt sér mannauð, hugvit, tækni, listir og menningu til þess að byggja upp öflugustu þjóðfélög okkar tíma.
Gott dæmi væru Danir þar sem nær enga orku væri að finna né verðmæt hráefni önnur er jarðargróður, en samt væri þar mikil og traust velmegun.
Við þessu fussuðu stóriðju- og áltrúarmenn og töluðu með fyrirlitningu um "eitthvað annað", og "fjallagrasatínslu."
Þegar á móti var bent á, að jafnvel þótt ofangreindri stóriðjustefnu yrði hrint í framkvæmd, myndu innan við 2 prósent vinnuaflsins verða í stóriðjunni, og varla meira en 4 prósent, ef tínd yrðu til öll svonefnd "afleidd störf."
Auðlindarentan yrði langt fyrir neðan allt velsæmi, og störfin, sem sköpuð yrðu, þau lang, lang dýrustu, sem hægt væri að skapa.
Risa álverin yrðu í erlendri eigu, og miðað við það að Alcoa hefur verið algerlega tekjuskattsfrítt, yrði framlegðin til þjóðarbúskaparins langtum minni og til minna að vinna fyrir fjárfestingu en í flestu öðru.
Fórnað yrði öðrum af tveimur þáttum, mesta verðmæti landsins, einstæðri náttúru þess, og láta hinn þáttinn, mannauðinn, vera sem afgangsstærð.
Nú má sjá í tengdri frétt dæmi um fjárfestingu í einu fyrirtæki án nokkurra slíkra fórna, sem eigi að skapa 5 prósent af vergri þjóðarframleiðslu.
Og auðlindin, sem að baki stendur, verður "eitthvað annað", íslenskur mannauður og hugvit.
Ætla að skapa 20% af gjaldeyristekjum Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hver er grnnurinn að velmegun og góðu gengi fyrirtækja eins og Alvogen? Rannsóknir, nýsköpun, hugvit? Ó-nei. Þessi fyrirtæki bíða eftir því að einkaleyfi annarra fyrirtækja renni út. Kaupa þá virku efnin frá Kína eða Indlandi fyrir skít á priki og selja sem lyf undir nýju nafni. Ekkert annað en "robbery."
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.9.2020 kl. 19:49
Flest fyrirtæki í heiminum gera nákvæmlega þetta. Þau framleiða vörur sem einhver annar hefur einhvern tíma fundið upp. Tuborg framleiðir bjór. En Tuborg fann ekki upp bjórinn. Bændur framleiða kjöt, mjólk og grænmeti. Og þar fram eftir götunum. Eru þá bjórframleiðendur og bændur þjófar og ræningjar? Vitanlega ekki. Ekkert frekar en fyrirtæki sem framleiða vöru eftir að einhver annar hefur grætt á einkaleyfinu. Ekkert frekar en sá sem gefur út Íslendingasögurnar eða aðrar bókmenntir þar sem enginn höfundarréttur er fyrir hendi, eða hann er runninn út.
Og að sjálfsögðu þarf hugvit, rannsóknir og nýsköpun til að byggja upp fyrirtæki á borð við Alvogen. Eða fyrirtæki eins og Tuborg. Eða stöndugt og vel rekið býli. Hugvit felst ekki bara í því að finna upp nýjar vörur.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.9.2020 kl. 20:10
Flest fyrirtæki í heiminum gera nákvæmlega þetta, segir Þorsteinn, sem er rangt. Sé umræðan, umfjöllunin, um efna- og lyfjafyrirtæli sem finna upp það sem við köllum "active compounds", virk efni. Annars margt skynsamlegt í kommenti Þorsteins. Spurningin er m.a. hvort lengja ætti tíma einkaleyfa, jafnvel að sá tími renni aldrei út. Að Bayer AG, Leverkusen, t.d. hefði enn einkaleyfi fyrir Aspirin.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.9.2020 kl. 21:08
Stjórnlausa bjartsýnin "Eitthvað annað" er einstaklega erfið í sölu, jafnvel með loforði um ofurgróða og blómlegt mannlíf af fjallagrasatínslu í kaupbæti.
1000 Alvotech á höfuðborgarsvæðinu hefðu ekki stöðvað fólksflóttann frá Austurlandi. Betri er fugl í hendi en tveir í skógi. Það er alltaf gott að geta komið mörgum árum eða áratugum seinna og sagt "þetta er þetta eitthvað annað sem ég var að meina". Eigum við þá ekki bara að hætta öllu nema strandveiðum á árabátum strax og bíða þolinmóð eftir einhverju öðru? Við getum lagt skipum, flugvélum og bílum, fyrr eða síðar kemur eitthvað annað.
Hvað starfa margir Íslendingar á Íslandi hjá Alvotech, hversu margir þeirra eru á Austurlandi? Hversu algengt er að spár um ævintýralegan vöxt, gróða og gengi eftir sjö ár standist? Hversu líklegt er að þetta fyrirtæki verði hér áfram en fari ekki úr landi eða í hendur erlendra aðila eins og önnur sambærileg fyrirtæki hafa gert? Og munu Austfirðingar taka eftir því þegar það skeður?
Vagn (IP-tala skráð) 18.9.2020 kl. 21:26
Allur arðurinn af striti Austfirðinganna fer beint í vasa auðhringsins. Þannig er nú það.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.9.2020 kl. 23:21
Flest fyrirtæki gera nákvæmlega þetta, Haukur, og þá er ekki einungis átt við lyfjaiðnaðinn. Þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í að þróa ný efni og öðlast á þeim einkaleyfi selja vörur sínar á háu verði til að ná til baka kostnaðinum við einkaleyfin. Að því loknu, þegar aðrir taka til við framleiðsluna, lækkar verðið. Það er neytendum til hagsbóta.
En meginatriðið er það að ríkisframkvæmdir í krafti pólitískrar spillingar eru ekki forsenda efnahagslífsins, heldur hitt að snjallt fólk finnur tækifæri og nýtir þau. Það er nýsköpun í hnotskurn. Þegar vilpan fyrir austan verður orðin full, og auðhringurinn farinn úr landi, hvað gera Austfirðingarnir þá? Koma þeir vælandi til ríkisvaldsins að nýju og heimta nýja virkjun og nýjan auðhring, í boði skattgreiðenda, eða finna þeir upp á einhverju sjálfir?
Þorsteinn Siglaugsson, 18.9.2020 kl. 23:26
Bara hjá Rio Tinto vinna um 400 manns. Svo eru tvö önnur álver og ef við gefum okkur að þar vinni sami fjöldi þá eru þetta 1200 manns. Svo afleidd störf og þá erum við með þetta um 3þúsnd manns. Skiptir þetta fólk ekki máli þá?
Óli (IP-tala skráð) 20.9.2020 kl. 22:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.