Þarf að sinna EFTA- og EES-málum vel.

Það er að mörgu leyti erfiðara fyrir litlar þjóðir en stórar að sinna öllum þeim mörgu málum, sem koma óhjákvæmilega inn á borð í smáu og stóru varðandi alþjóða skuldbindingar, sem gilda í smáu og stóru.  

Gildir þá  einu hverju þessar skuldbindingar tengjast eða hvaðan þær koma. 

Um alla samninga gilda yfirleitt ákvæði um það, hvernig skuli bera sig að varðandi beiðnir um undantekningar, einkum vegna sérstakra aðstæðna. 

Það er misskilningur að slík frávik séu óæskileg eða að það þurfi að vera merki um þrákelkni og ósamvinnuþýða hegðun að taka slík mál til meðferðar.  

Síðuhafi þekkir til nokkurra dæma varðandi vélknúin hjól og flugvélar, þar sem aðrar þjóðir hafa fengið framgengt að hafa fráviki í reglum, einfaldlega með því að fara rétta leið við að fá þau viðurkennt. 

Hins vegar hafa þeir sem taka við þessum reglum hér á landi í of mörgum tilfellum annað hvort ekki haft tíma til þess að sinna hagsmunum okkar eða látið það undir höfuð leggjast. 

Slíkt er slæmt fyrir orðspor samvinnu þjóða. 


mbl.is Ísland fær lokaviðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem gerir þetta tiltekna mál frábrugðið mörgum öðrum EES-málum er að hér er um að ræða ákvæði sem er hluti af upphaflega EES-samningnum, en ekki síðar til komna tilskipun eða reglugerð sem hefur bæst við hann.

Meginreglan um forgang EES-reglna fram yfir ósamrýmanleg ákvæði innlendra laga er ein af grundvallarreglum Evrópuréttar.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa í viðtölum sem hafa verið að birtast í morgun reynt að mála þetta þannig upp að ESA sé að krefjast þess að "erlend lög" gildi framar íslenskum lögum. Það er hins vegar bara Trumpískur útsúrsnúningur eins og svipaður spuni í Landsréttarmálinu.

Hið rétta er að bókun 35 mælir fyrir um að íslensk lög sem hafa verið sett til að innleiða EES-reglur, eigi að gilda framar öðrum íslenskum lögum sem hugsanlega kunna að stangast á við þau. Með öðrum orðum snýst þetta um innbyrðist forgang íslenskra lagaákvæða.

Eftir sem áður gildir að "erlend lög", ef menn vilja kalla EES-gerðir því nafni, hafa engin bein lagaáhrif hér á landi. Þær þarf alltaf að innleiða í íslensk lög til að öðlast lagagildi innan íslenskrar lögsögu.

Fullveldissinnar geta því alveg sofið rólegir yfir þessu. Ekki er um að ræða neitt framsal löggjafarvalds, heldur einfaldlega loforð sem Ísland gaf fyrir aldarfjórðung um hvernig það myndi beita löggjafarvaldi sínu. Það loforð er alltaf afturkræft en gildir þó á meðan við erum í EES.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.10.2020 kl. 09:27

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Guðmundur, röksemdafærsla þín er dæmigerð fyrir lagatæknina, sem verið er að kenna í háskólunum okkar. Þegar búið er að greina kjarnann í lagatækninni þá stendur eftir að ESB lög og tilskipanir skulu gilda hér ef þau fara í bága við íslenzk lög. Við innleiðinguna þá er það staðfest af löggjafanum að svo sé.  Hvernig geturðu kallað það trumpískan útúrsnúning?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.10.2020 kl. 11:10

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jóhannes.

Þetta er misskilningur hjá þér. Það er einmitt munurinn á ESB og EES að í ESB hafa gerðir Evrópusambandsins beint lagagildi, en ekki í EES. Ef Ísland væri í ESB (sem það er ekki) þá væri hægt að segja að "erlend" (ESB) lög giltu á Íslandi, en í EES-samningnum felst einmitt að svo er ekki.

Samkvæmt EES-samningnum hafa aðildarríkin sem eru utan ESB (þar á meðal Ísland) lofað því að innleiða gerðir ESB sem falla undir gildissvið samningsins inn í sín eigin innlendu lög.

Til að uppfylla þá samningsskyldu þarf Ísland að setja íslensk lög til að innleiða hverja og eina tilskipun eða reglugerð ESB sem það á við um. Þá fyrst öðlast þær reglur gildi, enda eru þær þá orðnar íslensk lög.

Við hljótum að vera sammála um að íslensk lög gildi á Íslandi. Það þýðir ekki að nein erlend lög gildi á Íslandi, þvert á móti.

Svo er annað sem margir gleyma í þessu sambandi, en það er sú staðreynd að EES-samningurinn er ekki bara "einhver viðskiptasamningur" eins og stundum er haldið fram, heldur er hann beinlínis hluti af íslenskum lögum, þar sem hann var lögfestur árið 1993.

EES-samningurinn = íslensk lög.

Lög sett af Alþingi sem innleiða EES-reglur = íslensk lög.

Einu lögin sem gilda á Íslandi eru þau sem Alþingi setur.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.10.2020 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband