31.12.2020 | 14:05
Afdrifaríkar íslendingar í Demyansk 1942. Ferðast um ís á Íslandi.
Orðið Íslendingar getur þýtt tvennt: Annars vegar þjóðina Íslendinga en líka það fyrirbrigði að lenda á ísi. Því meðan ís er á Íslandi mun verða gengið á ísi hér á landi, ekið á ísi og flugvélum og flygildum lent á ísi.
Ýmsar aðstæður geta valdið því að ís, sem tilsýndar sýnist glerharður og sléttur reynist vera krap, sem er með svona slétt yfirborð.
Það getur til dæmis gerst ef þiðnað hefur og fryst á víxl á þann hátt að snjó hefur skafið yfir slétt krap í upphafi frostadaga og snjórinn einangrað krapið og haldið því við frostmark undir snjóþekjunni.
Síðan þegar þykknar upp með hlýjum vindi svo að snjóinn skefur ofan af krapinu, birtist það alveg slétt og tært og virðist vera þessi líka fíni, þykki ís en er í rauninni krapgildra.
Ísinn hefur að vísu oft reynst Íslendingum vel í vetrarferðum en ef á bjátar, getur verið alveg sérstaklega erfitt að losa sig, jafnvel úr festu, sem í fyrstu sýnist ekki ýkja erfið.
Þykkur og sterkur ís sem myndaðist í rússneska vetrinum 1941-42 á stóru vatni við bæinn Demyansk í Valdaihæðum miðja vegu við leiðina milli Moskvu og Leningrad, reyndist Þjóðverjum dýrmætur í stríðinu sem þá geysaði þarna.
Rúmlega 100 þúsund manna her varð þarna umkringdur og innlyksa frá febrúar og fram í maí og hefði öllum verið tortímt ef ekki hefði brugðist við með stærstu loftbrú flugsögunnar fram að því. Stóra vatnið var notað sem flugbraut og meira að segja notaðar fjögurra hreyfla flugvélar af gerðinni Focke-Wulf Fw200 "Condor" auk fjölda þriggja hreyfla Júnkers Ju-87 til flutninga á birgðum, mat, vopnum og hermönnum.
Alls voru 16 þúsund særðir hermenn fluttir burtu þessa mánuði og 16 þúsund flugmenn fluttir inn til að viðhalda heraflanum.
Um vorið tókst Þjóðverjum síðan að rjúfa umsátrið og bjarga þessum her.
Þetta afrek reyndist afdrifaríkt, því að þegar sjötti herinn lokaðist seinna á árinu inni í Stalingrad hélt Göring, yfirmaður Luftwaffe, ranglega að hægt væri að endurtaka leikinn frá Demyansk.
En þrennt kom í veg fyrir það: 1. Það var þrisvar sinnum meiri herafli. 2. Rússneski flugherinn var miklu öflugri en í upphafi árs. 3. Flugveður var slæmt. 4. Rússneski landherinn var líka miklu öflugri en við Demyansk og skaut flutningavélarnar miskunnarlaust niður.
Niðurstaðan varð sú heljarorrusta sem markaði tímamót í Heimsstyrjöldinni, eyðing 300 þúsund manna herafla með óheyrilegum mannfórnum, alls yfir milljón manns. Í þessari orrustu var flest tífalt stærra en í hinni mikilvægu orrustu við El Alamein.
2006 fór síðuhafi í hálfgerða pílagrímsför til Demyansk í febrúar þegar þar var allt snævi þakið. Þá var sú heppni með að geta tekið viðtal við konu um sjötugt sem var í Demyansk sem ung kona 1942.
Björguðu manni sem féll ofan í vök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.