18.1.2021 | 22:47
Útvatnaður og bitlaus lagatexti er stundum verri en enginn.
Hægt er að nefna ótal dæmi um það hvernig svokallaðir "lagatæknar" eru oft útsmognir í því að gera lagagreinar máttlausar eða gagnslausar með næsta sakleysislegum breytingum, sem taka allt gagn eða not af greinunum.
Stundum er um að ræða heila lagabálka eins og Árósasamninginn, sem tók gildi í flestum ríkjum Evrópu á tíunda áratug síðustu aldar.
Sáttmálinn tryggir rétt almennra samtaka til framkvæmda sem hafa mikil umhverfisáhrif, svonefnda lögaðild að slíkum málum.
Meira að segja þau lönd Evrópu, þar sem umhverfismál voru í algerum ólestri eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu, komst þessi sáttmáli á.
En á Íslandi drógu menn lappirnar í hartnær tuttugu ár, og loksins þegar tókst að dratta margþvældum textanum gegnum þingið höfðu lagatæknar andstæðinga sáttmálans það af að gelda hann svo mjög og draga úr honum mátt, að hörmung var.
Stjórnarskrárnefndin sem var hér við lýði fyrir nokkrum árum sendi frá sér texta í auðlinda- og náttúruverndarmálum, sem var svo illa lemstraður, að hann var nánast hvorki fugl né fiskur.
Mikilvægasta hugtak 21. aldarinnar á heimsvísu er "sjálfbær þróun" ( "sustainable developement") um að meðferð umhverfsinsins og nýting auðlinda hennar sá á þann hátt að krafan um sjálfbæra þróun sé í fullu gildi.
Stjórnarskrárnefndinni tókst að fjarlægja þetta hugtak alveg úr greininni þar sem hún átti heima um meðferð auðlindanna.
Með því að skjóta inn á völdum stöðum orðum eins og "að jafnaði" var hægt að útvatna textann enn frekar.
Fróðlegt verður að sjá hvað nú verður gert í tillögum Katrínar Jakobsdóttur.
Sem dæmi um reynsluna af því hvernig eitt orð getur eyðilegt lagaákvæði, má nefna að hér um árið var uppi viðleitni til að gera notkun stefnuljósa að skyldu, en á því var mikill misbrestur og er enn eins og allir vita.
Lagatækni einum, sem var andvígur skyldunotkun, tókst að lauma aðeins einu örlitlu orði inn á einum stað, þar sem talið var upp hvar skyldi vera skylda að nota stefnuljós.
Þetta eina litla orð var orðið "einkum".
Upphaflega hljóðaði greinin nokkurn veginn svona: "Ökumaður skal gefa stefnuljós þegar hann ætlar að beygja á gatnamótum, skipta um akrein þar sem þær eru fleiri en ein, taka beygju út úr hringtorgi... o. s. frv."
Eftir þessa sakleysilegu breytingu hljóðaði upphaf greinarinnar svona: "Ökumaður skal gefa stefnuljós, einkum þegar hann ætlar að beygja á gatnamótum, skipta um akrein...o.s.frv.
Niðurstaða þessarar örlitlu breytinga varð sú að öll greinin varð gagnslaus og tilgangur hennar féll um sjálfan sig; krafa um að gefa stefnuljós stóðst ekki fyrir dómstólum.
Hverjum ökumanni var í raun í sjálfs vald sett hvort hann gæfi stefnuljós eða ekki, úr því að það var ekki algilt.
Nú verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður hjá Katrínu.
Bankasala og stjórnarskrá stórmál vorþingsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sumir nota líka "svo sem" til að þynna textann
Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar,
svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Grímur Kjartansson, 19.1.2021 kl. 06:19
Orðin "svo sem" geta gegnt mikilvægu hlutverki þegar um upptalningu er að ræða og það helgast af reynslunni allt frá því er jafnréttisákvæðið var sett í bandarísku stjórnarskrána. Sú reynsla var þannig, að fyrstu átta áraruginu komumst menn upp með að brjóta jafnréttisákvæðið með því að sjá í gegnum fingur sér varðandi þrælahald.
Þar með varð það nauðsynlegt að bann við þrælahaldi yrði nefnt sérstaklega sem ófrávíkjanleg krafa, hvað sem öðru liði.
Í mannréttindakafla stjórnarskrár á okkar tímum er svipað í gangi, að um nokkur meginatriði verður að ríkja ófrávíkjanleg krafa, svo sem kyn, kynþætti, trúarbrögð o.s.frv. Auðvitað getur slík upptalning ekki orðið tæmandi og þess vegna eru orðin "svo sem" sett á undan til þess að hægt sé að beita svonefndri lögjöfnun um einstök atriði jafnréttiskröfunnar og meðalhóf.
Ómar Ragnarsson, 19.1.2021 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.