21.1.2021 | 12:48
Hliðstæð orkuskipti og í húshitun á síðustu öld.
Þegar Winston Churchill kom í snögga ferð til Íslands 1941 fékk hann að sjá byrjunarframkvæmdir Hitaveitu Reykjavíkur í Mosfellsdal.
Churchill hreifst svo mjög af því sem hann sá að hann minntist á þetta í endurminningum sínum og mátti skilja orð hans svo að hugmyndin að hitaveitunni hefði verið hans.
Það var reyndar svolítill misskilningur, en hitt reyndist rétt að þarna tók Churchill vel í beiðni Íslendinga um fyrirgreiðslu varðandi nauðsynlega hluti í veituna, sem erfitt var að fá í stríðástandinu sem þá ríkti.
Síðuhafi er nógu gamall til að muna þá tíð þegar hús voru yfirleitt hituð upp með kolum og bæði kolakyndingarklefi og kolageymsla voru ómissandi hluti af nýjum húsum um svipað leyti og svonefnd olíukreppa reið yfir heimsbyggðina í kringum 1980.
Það kostaði að vísu mikil útgjöld og skuldasöfnun að koma hitaveitunum á til fullnustu á höfuðborgarsvæðinu og einnig á þeim svæðum úti á landi þar sem hægt var að finna heitt vatn í jörðu, en eftir á var það skoðun þorra fólks að þetta mikla átak hefði verið tímabært.
Þess vegna er það athyglisvert hve mikil andstaða hefur verið látin í ljósi varðandi hliðstæð orkuskipti í samgöngumálum og rafbílum fundið flest til foráttu.
Þó eru þessi orkuskipti hliðstæð orkuskiptunum miklu á síðustu öld hvað snertir algera sérstöðu Íslendinga í hópi þjóða heims varðandi innlenda orkugjafa, sem geta bæði verið hreinir og endurnýjanlegir ef ákveðnum forsendum þeirra hugtaka er fylgt.
Nú, eins og á 20. öldinni, felast orkuskiptin í því að við losum okkur við það að eyða dýrmætum gjaldeyri í að kaupa mengandi orkugjafa og tökum upp innlenda og mengunarlausa orkugjafa í staðinn.
Slíkt átak í húshituninni skilaði svo miklu að þegar úrtölurnar á sínum tíma eru skoðaðar, virka þær hjákátlegar.
Rétt eins og að bygging allra hitaveitnanna á sínum tíma kostaði mikið fé sem síðar fékkst ríkulega til baka og vel það, kosta orkuskiptin í samgöngunum að vísu mikið fé núna í útskiptum á innviðum og farartækjum, en ávinningurinn til framtíðar verður mun meiri en nemur kostnaðinum við orkuskiptin.
En ávinningurinn verður miklu meiri þegar til framtíðar er litið.
Sannkallað ár orkuskipta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú eru nýorkubilar dýrari í innkaupum, tölverð mengun við frammleiðslu rafhlaðna,tölverð mengum í gufuaflsvirkjunum.
Spurning með mengunarhlutfall, sérstaklega þegar ný útfærsla á tvígengis vél er að komast í framleiðslu, sem gæti með 10 gira skiptingu, eytt 30% minna en bílar gera i dag.
Svona vélar eru nú þegar í boði fyrir litlar flugvélar, Gemimi 100
https://www.google.com/url?sa=t&source=web&rct=j&url=https://en.wikipedia.org/wiki/Opposed-piston_engine&ved=2ahUKEwju1s2Qjq3uAhUNPOwKHQCTD78QFjASegQIDxAI&usg=AOvVaw1C8v7h3cpnwkl0JiHD1SJ6
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.1.2021 kl. 13:32
Í flestum þeirra tilfalla þegar menn setja kolefnissporið við framleiðslu rafhlaðna og rafbíla og förgun þeirra sem viðbót í reiknininginn vantar sams konar útreikning á því kolefnisspori sem felst í olíuleit, olíuborunum, dælingu og flutning olíunnnar yfir í olíuhreinsistöðvar, olíuhreinsuninni sjálfri, flutningi olíuunnar yfir í olíugeyma í landi, dælingu yfir á olíuflutningabíla, akstur ólíunnar út í dreifikerfið og dælingunni þar.
Ómar Ragnarsson, 21.1.2021 kl. 13:46
En kolefnissporið við rafmagnið... rannsoknir,virkjanaframmkvæmdir,efnið i virkjunar mannvirkin, byggingu dreifikerfis, efni dreifikerfis, mengun úr gufuaflinu og sv. frammvegis,það er ekki nokkur leið að ákvarða kolefnisspor pr lítra eldneytis eða kw stundar, það er ekki vitað magnið sem kemur úr olíulindinni eða virkjuninni á endingar tíma.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.1.2021 kl. 16:48
Síðan er tóm tjara að tala um orkuskipti á heimsvísu í samgöngum, meðan ekki er búið að skipta mengandi raforkuframleiðslu jarðarbúa út fyrir Thorium orkuver.
Lang mesta mengunin í samgöngum er í sjóflutningunum, þar getur Thorium leyst af mjög mengandi svartolíu/tjöru brennslu.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.1.2021 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.