6.2.2021 | 16:17
"Hnjúkurinn gnæfir..." Svo einfalt er það.
Öræfajökull er langhæsta fjall Íslands, ef aðeins er miðað við hæðarmuninn frá fjallsrótum upp á topp.
Síðuhafi fór bæði fljúgandi á skíðaflugvél, akandi og gangandi á hnjúkinn í bland á þeim árum, sem algert frelsi gilti um ferðir þangað upp.
Síðar náðist um það samkomulag sem vert er að íhuga, að leyfa aðeins gangandi umferð á þessu stóra fjalli. Sem flugmaður og 4x4 maður var ég og er sammála því fyrirkomulagi.
Jeppaslóðakerfið, merktar og samþykktar leiðir á Íslandi er meira en 2000 kílómetra lang, og nokkur hundruð kílómetra hluti þess kerfis er inna við eitt prósent af því.
Í vikulöngu ferðalagi á hnjúkinn í maí 1991 þurfti að fara tvívegis til Reykjavíkur og upp eftir aftur vegna skemmtana í Reykjavík og myndatökur af leiðangrinum. Fætur, skíði, vélsleðar, jeppar og ein flugvél voru notaðar í þessu mikla ferðabasli á meðan aftakaveður ríkti í nokkra daga.
Á leiðinni yfir Skeiðarársand eftir að óveðrinu slotaði og stórbrotin fegurð þessa lanssvæðis blasti við í allri sinni hrikalegu dýrð varð varð til lagið "Hnjúkurinn gnæfir" sem leitast við að svara því, af hverju fólk er að öllu þessu basli, "armæðu og striti".
Það varð titillag samnefnds þáttar, sungið af Pálma Gunnarssyni við útsetningu, hljóðfæraleik og hljóðblöndun Péturs Hjaltested.
Lagið er á Spotify í hópi 74 annarra laga af safndiskinum "Hjarta landsins." En svona er textinn:
HNJÚKURINN GNÆFIR.
Hnjúkurinn gnæfir; til himins sig teygir,
hamrahlið þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís, hann, ögrandi þegir,
Inn í þig seytlar hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann,
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann;
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna´að klífa´hann?
Hvers vegna´að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví ertu góði að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
:,: Af því hann rís þarna, bara af því:,:
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir.
Hríslast um makka hans óveðursky.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður; áfram við ögra.
Á þá hann skorar, sem líta hans mynd.
Þolraunin bíður þeirra, sem skjögra
þreyttir á Íslands hæsta tind.
Hvers vegna´að klifra´hann?
Hvers vegna´að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og áfram það sama:
:, Af því hann er þarna; bara af því :,:
Öræfajökull á vordögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.