And the winner is: To step aside.

Hægt og bítandi birtast ensk orð og orðtök í íslensku máli með því að troða sér inn í málið í hrárri þýðingu, sem aldrei hefur verið notuð áður, og útrýma fjölda góðra íslenskra orða og orðtaka.  

Eitt dæmið, tekið hrátt upp, beint úr ensku, er þegar fólk fer ekki lengur afsíðis, dregur sig í hlé, segir af sér, víkur úr starfi, er vikið úr starfi, breytir til, hættir einhverju eða tekur sér frí eða hlé. 

Nei, það er gömul og gróin íslenska, og það virðist talin úrelt og hallærislegt að nota þessi orð, heldur skulu ensku orðin "step aside" allsráðandi hér eftir. 

Með því færist málnotkunin á nýtt stig, - afsakið - verður á nýju leveli af því að hin enska hugsun skín í gegn með hinni nýju og hráu þýðingu. 

Sigurvegarinn er því ný málnotkun og ný hugsun upp á ensku, - afsakið - the winner is: step aside í lélegu dulargervi. 


mbl.is Reynir að stíga til hliðar á þinginu til að sjá leikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sammála þér þarna Ómar.

En samt held ég að þetta lagist Ómar. Hef þá skoðun, eða þá von, að þetta sé tískudilla sem komin er á síðasta séns, og að það styttist í að þetta þyki hallæris- og plebbalegt. Og að það fólk sem talar og skrifar ekki góða íslensku sé að læsa sig úti frá stórum hluta vinnumarkaðarins.

Plebba-enska er þetta, því að kunna hrognamál í ensku er ekki það sama og að kunna að tala og skrifa góða og ekta breska eða ameríska ensku.

Einu sinni slettu menn dönsku til að upphefja sig, en þar varð nú heldur betur snarbrött breyting á.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 25.3.2021 kl. 18:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vonandi rétt hjá þér, en ef aldrei er bent á þetta og það rætt, er það í raun alger uppgjöf. 

Ómar Ragnarsson, 25.3.2021 kl. 21:11

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Mikið rétt!

Gunnar Rögnvaldsson, 25.3.2021 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband