"Lífið er núna!"

Ofangreind orð eru kjörorð hóps fólks, sem hefur aðstöðu í húsi Krabbameinsfélags Íslands og á það sameiginlegt að hafa orðið að fást við krabbamein og afleiðingar þess. 

Í góðu og mjög athyglisverðu viðtali við Svavar Pétur Eysteinsson sem þekktur er undir listanannsheitinu Prins Póló í Morgunblaðinu í dag er rætt við hann um krabbamein sem hann berst við og í þvi orðar hann þá hugsun þannig að hann hugsi bara um einn dag í einu og að rækta það, sem hann nefnir "núvitund". DSC09509

Tilviljun olli því að síðuhafi átti leið framhjá aðsetri þessa hóps í húsi Krabbameinsfélagsins fyrir þremur árum og rabbaði stuttlega við einn af skjólstæðingum hópsins, sem útskýrði hið mikilvæga gildi kjörorðsins "Lífið er núna" og hugtaksins "núvitund."

Hvort tveggja felur í sér hugsun sem hefur almennt gildi í lífinu og í framhaldinu kviknaði hugmynd að ljóði og lagi um þessa hugsun, sem Svavar Pétur lýsir í viðtalinu í dag.

Lagið og ljóðið hafa verið í rólegri vinnslu síðan 2018, enda er viðfangsefnið vandasamt, en í tilefni af viðtalinu og þökk til Svavars Péturs birtist textinn hér í núverandi mynd, með fyrirvara um frekari breytingar:    

 

LÍFIÐ ER NÚNA. (Með sínu lagi) 

 

Missum ekki´á hammingjuna trúna!

Munum, að lífið er núna!

 

Er andstreymi og áföll okkur þjaka

til úrræða og varna þarf að taka

og þá sést oft, að þetta´er ekki búið; 

þau eiga saman, hamingjan og núið. 

 

Og þótt hamingjan sé ekki alltaf gefin;

og óvissan sé rík og líka efinn

munum er við æviveginn stikum, 

að ævin, hún er safn af augnablikum. 

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver.  

Hvort margir góðir dagar koma´er óvíst enn. 

En fjársjóð geymir fortíðin, 

sem felur í sér vísdóminn: 

"Svo lifir lengi sem lifir" segja menn.  

 

Því sérhver dagur svo einstakur er; 

kemur ei aftur, við verðum hans að njóta; 

að gera gott úr öllu eigum við hér; 

í ást og kærleika framtíðina´að móta. 

 

Er hugrökk örkum að auðnu í lífi hér; 

æðruleysis og þolgæðis skal leita,

en reyna´að breyta því sem breytanlegt er 

í heitri bæn og trú, sem frið munu veita.  

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver. 

Missum ekki´á hamingjuna trúna, 

því fjársjóð geymir fortíðin, 

sem felur í sér vísdóminn: 

Með bæn í hvert sinn sköpum hamingjuna núna!

 

Missum ekki´á hamingjuna trúna!

Lífið er dásamleg gjöf

og lífið er núna!


mbl.is Hugsa um einn dag í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir þetta hugljúfa kvæði Ómar. Hlakka til að heyra lagið.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 24.4.2021 kl. 15:37

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Svei mér þá ef þetta er ekki fallegur skáldskapur Ómar. Virkilega þökk fyrir þessar fallegu línur.

Halldór Jónsson, 24.4.2021 kl. 17:27

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir það. Fólkið í þessum hópi sem lagið er tileinkað, er áðdáunarvert. 

Ómar Ragnarsson, 24.4.2021 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband