20.5.2021 | 15:45
Rússar: Aldrei aftur 22. júní 1941.
Fyrir réttum 80 árum stóð yfir styrjöld milli Þjóðverja og Breta og voru Þjóðverjar enn að ráðast á breskar borgir og á fullu í hernaðarátökum við Breta á Balkanskaga og í Norður-Afríku.
Að vísu voru Þjóðverjar að koma sér fyrir í Ungverjalandi, Rúertmeníu og Búlgaríu, en það var ekkert óeðlilegra en þegar Sovétmenn brutu Finna til hlýðni í vetrarstríðinu 1939-40 og innlimuðu Eystrasaltslöndin í júní 1940 í samræmi við griðasáttmála Molotovs og Ribbentrops 23. ágúst 1939.
Stalín hélt þá og sagði frá því síðar, að hann hefði talið það bersýnilegt að Hitler ætlaði sér að knýja Breta fyrst til friðarsamninga á árinu 1941 og gæti ekki verið svo heimskur að svo mikið sem að íhuga innrás í Sovétríkin fyrr en í fyrsta lagi 1942.
Þegar Churchill sendi Stalín persónuleg bréf með upplýsingum um greinilegan undirbúning Hitlers fyrir innrás í Sovétríkin mistúlkaði Stalín þessi bréf herfilega á þann veg að Churchill væri að reyna að egna Rússa og Þjóðverjar til ófriðar þar sem Bretar gætu setið hjá og horft á Rússa og Þjóðverja berast á banaspjótum.
Svo gersamlega var Stalín úti að aka í þessu efni, að laugardagskvöldið fyrir innrásina þá um nóttina voru allir helstu yfirmenn Rauða hersins í leikhúsum og á samkomum, sem stóðu fram á innrásarnóttina.
Lærdómurinn sem Stalín og Rússar drógu af þessu og öðru af svipuðu tagi var skýr og verða menn að hafa hann í huga þegar metnar eru allar aðgerðir Rússa allt til okkar daga:
Aldrei aftur 22.júní 1941.
Þegar ljóst var að ætlun Vesturveldanna var að koma Úkraínu með sinn firna mikilvæga Krímskaga bæði inn í NATO og ESB 2014 bættist annar lærdómur við frá miðri 19. öld þegar Rússar fórnuðu meira en 50 þúsund ungum hermönnum í Krímstríðinu.
Krústjoff hafði í barnaskap gefið Krímskagann frá Rússum til Úkraínumanna eftir að hann hafði verið hluti af Rússlandi fram að því.
Pútín treysti Vesturveldunum í engu hvað snerti Úkraínu. Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Helmuth Kohl höfðu fengið Gorbatsjof til að leyfa Sovétríkjunum og kommúnismanum í Austur-Evrópu að sigla sinn sjó gegn loforði um að NATO seildist ekki til áhrifa upp að landamærum Rússlands.
Pútín sárnaði hvernig þetta var svikið að hans dómi.
Engin leið er að koma samskiptum Rússlands við NATO og ESB í nýtt og betra horf nema að reyna að skilja, hvað ræður gerðum þessa valdsherra Rússlands.
Hvers kyns samstarf og samskipti á borð við Norðurslóðaráðið og aðrar alþjóðastofnanir eru eina leiðin til að tryggja frið og öryggi í Evrópu.
Rússar vilja endurvekja hernaðarsamráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hér kemur fram meiri þekking og skarpskyggni en ég hafði vænst. Bandaríkin ætluðu sér Sevastopol á Krímskaga sem flotastöð. Það er meginskýring upphlaupsins sem varð þegar Krímverjar sáu sér leik á borði að sameinast aftur Rússlandi með atkvæðagreiðslu þar um. Tek fram að ég telst vera íhaldsmaður á íslenskan mælikbarða en hef hins vegar miklar persónulegar tengingar við Úkraínu.
Gunnlaugur Ólafsson (IP-tala skráð) 20.5.2021 kl. 18:43
Megin ástæðan fyrir innrás Þjóðverja í Sovétríkin var sú að þeir töldu sig hafa komist á snoðir um að Stalín væri á fullu að undirbúa innrás inní Þýskaland áður en stríðninu á milli Þjóðverja og Breta lyki.
Eftir fall Sovétríkjanna og opnun leyniskjala þeirra kom í ljós að þetta hafði við sterk ef ekki full rök að styðjast.
Daníel Sigurðsson, 20.5.2021 kl. 19:05
mælikvarða átti þetta að vera
Gunnlaugur Ólafsson (IP-tala skráð) 20.5.2021 kl. 19:27
Til hvers hefðu Bandaríkjamenn átt að hafa flotahöfn í Sevastopol? Það hefði ekki verið mjög skynsamleg ákvörðun hjá þeim, enda hefðu þeir verið algjölega háðir Tyrkjum með siglingar þangað.
Haustið 1939 gerði Stalín innrás í Finnland. Enda þótt Finnar yrðu að lokum að semja frið, þá veittu Finnar rússneska hernum mjög harða mótspyrnu.
Ekki hef ég lesið "Mein Kampf" Hitlers, en mér skilst að þar komi fram yfirlýst stefna hans um að sækja "Lebensraum" í "Austurveg".
Hörður Þormar, 20.5.2021 kl. 21:10
Ástæða þess að Bandaríkin vildu hafa flotastöð í Sevastopol er augljós. Hvað Tyrki varðar þá eru þeir í Nató.
Gunnlaugur Ólafsson (IP-tala skráð) 20.5.2021 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.