15.7.2021 | 12:58
Endalausar "uppfærslur" og undanfærslur vegna bilana.
Eitt af þeim brögðum, sem virðast nýtast harðsnúnum framleiðendum og sölumönnum hvers kyns varnings, er nýjungagirni.
Sígilt dæmi um þetta er bílaframleiðslan. Það sést best á bókum um sögu bílaframleiðslu þar sem fróðleikurinn um bílana birtist meðal annars í auglýsingum hvers tíma. erð.
Þar úir og grúir af stóryrðum um nýjungar, þar sem jafnvel er um að ræða raðir af atriðum með upphrópuninni "new" aftur og aftur.
Fyrirbærið í bílaiðnaðinum er senn orðið aldargamalt, og það svínvirkar allan tímann að neytendur telji sig knúna til þess að tolla í tískunni og kaupa það nýjasta.
Á okkar dögum felst þessi útsmogna aðferð meðal annars í því að auglýsa gerbreyttar gerðir bíla, jafnvel með fullyrðingum um "nýja kynslóð" sem eru, þegar betur er að gætt, aðeins með þýðingarlitlar breytingar og útlitssnyrtingar.
Ágætt dæmi úr fortíðinni er Chvevrolet 1957, sem hinn þriðji í röð vel heppnaðra óbreyttra bíla af þessari gerð.
Á þeim tíma þótti óhjákvæmlegt að gerbreyta útliti bíla á minnst þriggja ára fresti, en 1957 komu bæði Ford og Plymouth með alveg gerbreytta bíla á markað eftir aðeins tveggja ára söluferil.
Svo alvarlegt þótti þetta fyrir General Motors, að einn af yfirmönnum GM gekk inn á skrifstofu hönnunardeildarinnar, kastaði bæklingi með kynningu á nýjasta Plymouth bílnum á skrifborð hans og hreytti út úr sér: Af hverju segirðu ekki upp?
Svo fór hins vegar að með snilldarlegri útlitsbreytingu á Chevrolet 1957 varð hann síðar viðurkenndur sem einhver flottasta árgerðin í sögu þessa mest selda bíls heims í áratugi.
1960 var svo komið að Ford framleiddi nýjan lítinn bíl, Ford Falcon, og seldist hann best af litlum bílum hinna "þriggja stóru".
Síðar kom í ljós, að bíllinn var sérstaklega hannaður á þann veg, að hann entist ekki nema í þrjú ár!
Þegar Japanir fóru að flytja ódýra litla bíla inn til Bandaríkjanna, sem voru með langtum lægri bilanatíðni og endingu en þeir bandarísku, hefndi skammsýni Kananna sín.
Nú á tímum virðast það helst vera framleiðendur rafeindatækja hvers konar sem virðast stunda þá stefnu að vera stanslaust í gangi með endursillingar og uppfærslur (updates) af hinu fjölbreyttasta tagi, að engu virðist stundum líkara að þetta sé eingöngu gert til að halda þúsundum starfsmanna við það eina hlutverk að pressa á notendur með sífelldum "nýjungum" og endurbótum.
Fyrir nokkrum árum keypti síðuhafi sér ódýrasta farsímann á markaðnum, sem var með alveg einstaklega góða endingu, til dæmis á rafhlöðu og sérstaklega auðvelt að nota hann.
Svo týndist síminn og var þá búið að hanna arftaka. Var skemmst frá því að segja, að búið var að gerbreyta öllu í notkun símans, þannig að það þurfti að læra allt upp á nýtt.
Langflestar breytingarnar, hvimleiðar mjög, virtust gerðar til þess að gera notkunina að óþörfu mun erfiðaari en áður var.
Eitt sinn bilaði rafhlaða í tölvu, og kom í ljós að ekki var hægt að skipta henni út.
Gleðin yfir því að bilunin varð skömmu áður en ábyrgðin rann út, var skammvinn, því að ef það átti að koma tölvunni aftur í not, varð að senda hana til Svíþjóðar til þess!
Það tók nokkrar vikur og kostnaðurinn var það mikill, að skárra hefði verið að kaupa nýja tölvu. Kerfi, sem virtist vera sérhannað til þess að viðhalda sífelldum tölvuútskiptum!
Barist fyrir lengri líftíma raftækja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.