Hvert er hlutverk opinberrar þjónustu?

Á þessari bloggsíðu hefur oft verið fjallað um hlutverk opinberrar þjónustu og nefnd einstök dæmi. 

Sum slíkra dæma vekja spurningar um það til hvers þjónustan sé. Er hún fyrir þá sem eiga að  njóta þjónustunnar eða fyrir eitthvað allt annað?

Nú hafa bílastæðagjöld verið margfölduð en greinilega ekkert hugað að aðstæðum bílaeigenda sem hafa lág laun og því ekki efni á því að kaupa sér rafbíl. Renault Twizy. 

Nú er bráðum áratugur síðan hér á síðunni var farið að fjalla um möguleika "litla mannsins" til þess að taka þátt í orkuskiptunum í umferðinni og ákveðið að gera samgönguþarfir síðuhafa að tilraunaverkefni.  

Í upphafi fólst þetta í leit að nógu litlum rafbil, sem væri nógu ódýr og einfaldur í rekstri. 

Mörg ljón reyndust í veginum og minnkun kolefnissporsins fólst því í fyrstu í notkun rafreiðhjóls og einstaklega sparneytnu léttbifhjóli sem næði þjóðvegahraða auðveldlega og kæmist um allt land jafnhratt og bíll fyrir brot af þeim kostnaði og kolefnisspori sem bílum fylgir.

Að lokum fannst tveggja manna rafbill í árslok 2017, sem kostaði tvær millur, var með 90 km drægni og náði mesta leyfilega þjóðvegahraða. Tazzari Zero, þessi litli rauði á myndinni hér fyrir neðan við hliðina á Nissan Leaf.  tazzari_og_nissan_leaf

En þá kom upp óvænt vandamál. Svona ódýrir rafbílar eru eru svo léttir og sparneytnir, að þeir eru ekki hannaðir fyrir hraðhleðslu og jafnvel þótt settur væri upp hleðslustaur við blokkina, sem síðuhafi býr í, byði sú lausn ekki upp á möguleika á staur með aðeins 1,7 kílóvattstunda hleðslustraumi, heldur eru svona bílar "litla mannsins" yfirleitt hlaðnir úr innstungu úr heimilisrafmagni og taka álíka straum og hraðsuðuketill. 

Nú sýndust góð ráð dýr en þá kom í ljós nánast ókeypis ráð, að setja þennan örbíl niður á lágan grjótpall upp við húsvegg, en þó innan við gangstétt. 

Á þennan litla pall, sem er jafnstór og bíllinn; 2,88 x 1,56 metrar, hafði enginn stigið fæti né farið um og því var sá litli ekki fyrir nokkrum manni og alveg inni á eignarlóð húsfélagsins. 

Stutta rafleiðslu var hægt að leggja á þann hátt frá bílnum niður með vegg á geymsluinngangi og í venjulega innstungu að það truflaði engan. 

Var svo einfalt að það kostaði engan krónu nema bíleigandann, eitt stykki rafsnúru. 

En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrir tæpu ár var skyndilega kominn miði á framrúðu bílsins frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar; 11 þúsund króna sekt! 

Frá talsmanni sjóðsins fékkst afgerandi svar: Nýbúið að setja ný umferðarlög sem gáfu færi á að gera nýja reglugerð, sem heimilaði Bílastæðasjóði að láta fjarlægja alla bíla í borginni, sem stæðu fyrir framan bílskúra hvenær, sem starfsmönnum sjóðsins dytti slíkt í hug! 

Algert bann væri við því fyrir húsfélagið að láta þennan örbíl standa þarna á eignarlóð þess, heldur yrði hann fjarlægður með lögregluvaldi og gerður upptækur samkvæmt nýju reglugerðinni! 

Nú vaknar spurningin: Fyrir hvern er þessi stofnun?  Fyrir fólkið sem hún á að þjóna? Eða eitthvað allt annað?  Greinilega ekki fyrir lausnamiðaða skynsemi og alls ekki fyrir "litla manninn". 


mbl.is Bílastæðakort hækka úr 8.000 í 30.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrir tæpu ár var skyndilega kominn miði á framrúðu bílsins frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar; 11 þúsund króna sekt! 

Frá talsmanni sjóðsins fékkst afgerandi svar: Nýbúið að setja ný umferðarlög sem gáfu færi á að gera nýja reglugerð, sem heimilaði Bílastæðasjóði að láta fjarlægja alla bíla í borginni, sem stæðu fyrir framan bílskúra hvenær, sem starfsmönnum sjóðsins dytti slíkt í hug! 

Algert bann væri við því fyrir húsfélagið að láta þennan örbíl standa þarna á eignarlóð þess, heldur yrði hann fjarlægður með lögregluvaldi og gerður upptækur samkvæmt nýju reglugerðinni! 

Nú vaknar spurningin: Fyrir hvern er þessi stofnun?  Fyrir fólkið sem hún á að þjóna? Eða eitthvað allt annað?  Greinilega ekki fyrir lausnamiðaða skynsemi og alls ekki fyrir "litla manninn". 

Hefur þér dottið í hug Ómar að meirihlutinn í Reykjavík sé að vinna fyrir aðra en sjálfa sig og eigin egó? Að Dagur B. sé hgsjónamaður?

 

Halldór Jónsson, 16.8.2021 kl. 09:18

2 Smámynd: Halldór Jónsson

En hvað er þessi litli bíll sem er á síðunni hjá þér. Hann er aldeilis speislegur. Hvar fæst hann og hvað kostar hann?

Halldór Jónsson, 16.8.2021 kl. 09:19

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hafa verið fleiri áhugamenn um svona lausnir en ég og nú eru Volkswagen verksmiðjurnar að vinna að því að setja upp í Barcelona sérstaka miðstöð endurbættra borgarsamgangna þar sem tveggja manna rafbílar verði framleiddir til að stórbæta rýmisnýtingu gatnakerfisins. 

Meðal áhugamannana íslensku eru eigendur Álfaborgar, sem eru með mikil viðskipti við byggingavörufyrirtæki í Imola á Ítalíu, en í sömu borg er fyrirtækið Tazzari sem hefur sérþekkingu í smíði alls kyns hluta úr stáli, áli, plasti og koltrefjaefnum og eru snjallir í að setja þá saman með límingum, líkt og gert er í vaxandi mæli í flugiðnaðinum. 

Tazzari hannaði sinn eigin bíl og hóf sölu á honum 2010 og voru meðal þeirra fyrstu sem nýttu sér Líþium rafhlöður til fulls og þá léttingarmöguleika sem nettleiki og samsetningartækni geta gefið. 

Fyrir bragðið er Tazzari Zero aðeins rúm 700 kíló og meira en tvöfalt léttari en bílar í næsta stærðarflokki fyrir ofan. 

Af þessum sökum nægj aðeins 12,8 kílóvattstunda rafhlaða og 20 hestafla hreyflill til að bíllinn komist 90 kílómetra við íslenskar aðstæður og nái meira en 90 kílómetra hraða. 

Ég hef ekið honum 12 þúsund kílómetra síðan 2018 og þótt lítill tími hafi fallið úr vegna bilana, er þetta brautryðjendabíll og framleiðandinn þyrfti að gera nokkrar endurbætur. Ólíklegt sýnist mér að fleiri verði fluttir inn en þeir hjá Álfaborg eiga þakkir skildar fyrir að gerast frumkvöðlar hér á landi. 

Og nú eru að koma nokkrir nýir og smáir en knáir rafbílar og má nefna Citroen Ami rafkrílið hja Brimborg sem dæmi, en líka Invicta hjá BL. 

Verðið á Ami verður um 1,3 millur en á Invicta um 2,6.  

Hvað Bílastæðasjóð áhrærir sýnist mér þar vera í gangi nokkurs konar ríki í ríkinu hugsunarháttur, því að í eina vandamálinu, sem ég hef áður átt við að eiga gagnvart verklaginu þar á bæi var sýnd alveg einstaklega hrokafull framkoma.  

Ómar Ragnarsson, 16.8.2021 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband