Þegar landfarartæki breyttust úr hestvögnum í bíla í byrjun síðustu aldar, eimdi furðu lengi eftir af hestvögnunum. "Hreyfill" flestra bíla hélt áfram að vera á sama stað og hesturinn hafði verið og fjaðrirnar héldu áfram að vera blaðfjaðrir og hjólin á heilum þveröxlum.
Drifhjólin fluttust að vísu á afturhjól vagnsins en það mál var leyst með því að leggja drifskaft eftir endilöngum bílnum frá vélinni aftur í afturhjólin.
Hesturinn tók mikið rými sem hluti af farartækinu og bílvélin gerði það líka, þegar hún tók við hlutverki hestsins. Tæknilega var ekki hægt að hafa hestinn þversum og sú hugsun fluttist því miður yfir á bílvélina.
Hestvagnarnir höfðu verið háir og ferkantaðir og það vottaði ekki fyrir því að hugsað væri umu að minnka loftmótstöðuna.
Sumar útlitsbreytingarnar, sem voru smávægilegar, reyndust hins vegar boða nýja tíma í þeim efnum, en hin fyrsta þeirra fólst í því 1933 að byrja að láta framgluggana halla aðeins aftur og sömuleiðis svokölluð grill fyrir framan vatnskassana.
Hallinn á þessum grillum breyttu þó engu um loftmótstöðuna, voru aðeins útlitslegar.
1936 kom Ford Lincoln Zephyr með grill báðu megin við miðjuna.
Þetta var tímamótabreyting í þá átt að láta útlit framendans leggja áherslu á láréttar línur og breidd frekar en lóðréttar línur og hæð.
Bandarískir hönnuðir réðu mestu um meginstraum þróunar á lagi bíla. 1941 kom Nash 600 með sjálfberandi byggingu og færslu farþegarýmis fram að hjólskálunum að framan.
Fram að því hafði verið "dautt" rými aftan við hjólskálarnar og annað "dautt" rými fremst á bílnum.
Í hönd fóru síðustu áratugirnir með farþegarýmið á óhentugan hátt of aftarlega á bílnum miðað við rými og þyngdarhlutföll.
Meira að segja algengustu smábilarnir liðu fyrir þetta.
Á árunum 1946 til 1950 gekk loks sú breyting yfir, sem búið hefur verið við að mestu síðan.
1959 kom Mini og ruddi braut fyrir hugsun, sem tók nokkra áratugi að fá almennt í gegn; vélin þversum en ekki langsum frammi í eins og hesturinn hafði verið, drifið að fram eins og verið hafði á tíma hestsins.
Þegar hugsað er til baka er það fyndið að enda þótt ekki væri hægt að koma hestinum fyrir þversum, skyldi taka svona langan tíma, lungann úr heilli öld að koma bílvélinni fyrir þversum.
Á´árunum 1967 til 1974 ríkti hálfgert kapphlaup milli helstu bílaframleiðenda heims við að setja á markað framdrifsbíla með vélina þversum.
Á árunum 1955 til 1965 hafði ríkt kapphlaup um framleiðslu bíla með vélina aftur í, en þeir viku á undraskömmum tíma fyrir Mini-eftirlíkingunum.
Undanfarin ár hefur hafist svipað kapphlaup og ríkti í bílahönnun fyrir hálfri öld; í þetta sinn við að umbylta allri hönnun rafbíla til samræmis við alveg orkuskipti og þar með ný þyngdar- og rýmishlutföll.
Á rafbílum eru orkugeymarnir um það bil fimm sinnum þyngri og þrisvar rýmisfrekari en eldsneytisgeymar. Möguleiki er á að koma rafmótorunum fyrir í sjálfum hjólunum.
Tesla náði upphafsforystu varðandi það að hanna bíl, þar sem ekki var gert ráð fyrir neinum öðrum orkugjafa en rafafli.
Volkswagen stökk af stað fyrir tveimur árum með því að bjóða rafbíla með algerlega nýrri gerð undirvagns með sömu hugsun og hefur síðan dælt út hverri nýrri gerðinni af annarri byggðum á einum megin undirvagni.
Nú sópast aðrir bílaframleiðendur inn á svipuðum nótum.
Hestarnir halda áfram að hlaupa aðeins beint áfram, en svo eru til hundar sem hlaupa skakkt áfram og munu gera það áfram.
Nýr rafbíll frá Kia áberandi á IAA-sýningunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.