5.12.2021 | 22:52
Óvænt tímamót fyrir réttum 80 árum í stríðinu við Hitler.
Fyrir réttum 80 árum, dagana 4.-6, desember 1941 stóð ein af mikilvægustu orrustum Heimsstyrjaldarinnar síðari, orrustan um Moskvu sem hæst og svo virtist af fréttum, að sigur Þjóðverja væri vís.
Hersveitir Hitlers komust 2. desember að Khimki brautarstöðinni, sem var og er aðeins 19 kílómetra fyrir norðan Kreml og þýski herinn var í óðaönn að ljúka því ætlunarverki að umkringja það hjarta í hinu miðstýrða alræðisríki, sem Moskva var.
Leningrad var í herkví og Kiev í Úkraínu fallin.
Orrustan um Moskvu var þegar orðin að einni af helstu orrustum stríðsins, á pari orrusturnar um Bretland, um Atlantshafið, Stalingrad, El Alamain og Normandy.
Fram til orrustunnar um Bretland hafði sigurganga Hitlers verið stanslaus allt frá tök Rínarlanda 1936.
En það sem ekki var vitað, að bandamenn Þjóðverja, Japanir, sem áttu að baki stóra landvinninga í innrás í Kína sem hafði staðið síðan 1937, voru að setja í gang enn stærri sigurgöngu, sem fyrirhuguð var gegn Bandríkjunum og evrópsku nýlenduveldunum í Asíu.
Það sem aðeins Japanska herstjórnin vissi fyrstu daga desember var að sex flugmóðurskip með meira en 350 árásarflugvélar stefndu með leynd í áttina að flotahöfn Bandaríkjamanna, Pearl Harbor á Hawai og var komin í eins dags siglingarfjarlægð frá þessari höfuðmiðstöð Bandaríkjahers á Kyrrahafi með það ætlunarverk að gereyða degi aíðar þeim meginhluta Bandaríkjaflota sem þar var að jafnaði.
Japanir áttu lang stærsta flota flugmóðurskipa í heimi á þessum tíma, 11 stykki, en Bandaríkjamenn aðeins 6. Ef hægt yrði að eyða bandarísku flugmóðurskipunum og ððrum orrustuskipum í Perluhöfn, gætu Japanir náð yfirburðastöðu á öllu Kyrrahafi, vestur til Indlands og yfirráðum yfir Ástralíu.
Þegar þetta tvennt, árásin á Moskvu og árásin á Pearl Harbor, var lagt saman, sýndist blasa við í byrjun desember fyrir 80 árum, að Japanir og Þjóðverjar væru á þröskuldi þess að vinna sigur í stríðinu.
En á aðeins tveimur dögum varð tvennt til þess að breyta þessari mynd og marka tímamót.
Rússar hófu óvænta skyndisókn 6. desember með fjórum herjum og þúsundum splunkunýrra T-34 skriðdreka.
Hluti hersins voru hermenn sem komu frá austurlandamærunum alla leiðina frá Síberíu, vel búnir og þjálfaðir eftir að njósnarinn Richard Sorge hafði komist að því að Japanir ætluðu ekki í stríð gegn Rússum, þrátt fyrir hernaðarbandalag þeirra við Þjóðverja.
Í samningnum um þríveldahernaðarbandalagið 1940 var aðeins skuldbinding um að aðilar þess skuldbindu sig til að koma hvorir öðrum til hjálpar, ef þeir hefðu orðið fyrir utanaðkomandi árás.
Japanir voru hins vegar tæknilegir árásaraðilar í stríðinu við Bandaríkjamenn, og veitti ekki af því að beita öllum sínum her í því skyni.
Í kjölfar hinnar óvæntu gagnsóknar Rússa unnu Rússar frækinn sigur í orrustunni um Moskvu og hröktu Þjóðverja til baka á langri víglínu um veturinn.
Það voru óvænt tímamót í stríðinu þegar mikilvirkustu skriðdrekar Sovétmanna, T-34, birtust skyndilega þúsundum saman, fljótandi auðveldlega á breiðum beltum sínum á snjóþekjunni á sama tíma sem þýsku skriðdrekarnir sukku í ýmist snjó eða aurbleytu.
Moskvu var aldrei ógnað eftir þetta í stríðinu og Hitler ákvað að sækja næsta sumar þess í stað til suðausturs og ná hinum mikilvægu olíulindum í Kákasus á sitt vald.
Heimurinn nær upphafi faraldursins en endalokum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var haft eftir Alfred Jodl skömmu áður en hann var hengdur, haustið 1946, að Þjóðverjar hefðu tapað stríðinu í orustunni um Moskva í árslok 1941.
Þó áttu þeir eftir að heyja vonlaust stríð í þrjú og hálft ár með öllum þeim hörmungum sem því fylgdi.
Hvers vegna í ósköpunum gat einn brjálæðingur haldið þessari menningarþjóð í slíkum heljargreipum?
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 6.12.2021 kl. 16:12
Einn af kafbátsmönnum á bátnum, sem sökkti Goðafossi, sagði háaldraður í viðtali við Jón Ársæl Þórðarson, að sú niðurlæging, sem þjóð hans sætti eftir Fyrri heimsstyrjöldina og birtist meðal annars í svo miklum missi lands, að austasti hluti þess var skorinn frá þannig að fara varð á milli vestur-og austurhluta þess um land,sem fært var Pólverjum.
Hitler gætti þess að næg atvinna og griðarleg uppbygging tryggði að landið risi úr öskustó á sama tíma sem atvinnuleysi og erfið kjör plöguðu bæði unga og aldna.
Ómar Ragnarsson, 6.12.2021 kl. 18:45
Spurningunni um úthald Þjóðverja í heimsstyrjöldunum verður víst seint svarað til fulls.
Eitt sinn heyrði ég þýskan fræðimann halda því fram að e.t.v. blundaði rómantíska stefnan enn þá í þýskri þjóðarsál með allri sinni fórnarlund og dauðahvöt.
Þýskir herforingjar sóru Hitler persónulegum trúnaðareiði, dauðasök var að rjúfa þann eið. Þetta mátti Rommel reyna, hann fékk þó náðarsamlegast að taka sig af lífi sjálfur. Það sama gerði skipherra vasaorustuskipsins, Graf von Spee, á La Plata flóa haustið 1939. Hann sökkti skipinu eftir tapaða orustu og fór sjálfur með því.
Mótþróa gegn stríðinu var ekki tekið með neinum silkihönskum í Þriðja ríkinu. Systkinin Sophie og Hans Scholl, stúdentar við háskólann í München, dreifðu flugritum gegn stríðinu. Það komst upp um þau og voru þau umsvifalaust hálshöggvin.
Ekki þarf að minna á 20.júlí 1944.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 6.12.2021 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.