3.1.2022 | 10:06
Stórstyrjaldir dragast oft á langinn.
Á svipaðan hátt og heimsstyrjaldirnar tvær breiddust út og kostuðu hátt í hundrað milljónir manna lífið samanlagt er heimsfaraldurinn nú fyrsta stórstyrjöldin á sýkla- og veirusviðinu, sem nær samanbærri útbreiðslu.
Stórstyrjaldir fortíðar áttu upphaflega að standa stutt.
Ungir hermenn fóru marsérandi til slátrunar í Fyrri heimsstyrjöldinni í ágústbyrjun og var talin trú um að þeir yrðu komnir aftur heim fyrir jól.
En langdregnar stórorrustur eins og við Somme og Verdun á vesturvígstöðvunum leiddu af sér kynnstöðuhernað í skotgröfum í fjögur ár, sem enginn hafði séð fyrir.
Í mars 1939 sagði Chamberlain forsætisráðherra Breta eftir tíðindalítinn vetur á vesturvígstöðvunum: "Hitler has missed the bus."
Þremur mánuum síðar höfðu herir Hitlers lagt undir sig Danmörk, Noreg, Holland, Belgíu, Luxemborg og Frakkland.
Efnahagslega var útilokað fyrir Hitler annað en að halda áfram útþenslu Þriðja ríksins síðustu ár fjórða áratugarins til þess að ná yfirráðum yfir auðlindum og mannafla sem skilgreint var sem "lífsrými" í Mein Kampf.
Svipað gilti um útþenslu japanska heimsveldisins sem úrslitakostir Roosevelts gerði ómögulega án allsherjarstríðs í Austur-Asíu og á vestanverðu Kyrrahafi.
Sigrar Japana fyrri hluta árs 1942 gaf þeim tálvonir um skaplega friðarsamninga sem ein morgunstund í Perluhöfn feykti út í hafsauga.
Árásinni á Sovétríkin 1941 átti að hrinda í framkvæmd með skjótum sigri fyrir jól. Hermenn Öxulveldanna voru ekki einu sinni með vetrarklæðnað til reiðu til að fást við fyrirsjáanlegan rússneskan vetur og í stað hakakrossins á Kreml tók við þriggja óg hálfs árs hryllingur.
Eftir ósigur Frakka við Dienbien Phu 1954 tók mesta herveldi heims að sér að tryggja vestrænt lýðræði í Suður-Vietnam og þegar Johnson tók við af Kennedy 1963 sagðist hann ekki einu sinni nenna því að hugsa um jafn mikið smáræði og það væri að viðhalda árangri John Foster Dulles í Suðaustur-Asíu.
1968 var hins vegar svo komið að meira en hálf milljón bandarískra hermanna réði ekki við verkefni sitt í stríðinu við Viet Kong, en bandarísku herforingjarnar reyndu að fullvissa Johnson um að hægt væri að sigra, ef 220 þúsund hermenn í viðbót yrðu sendir í blóðbaðið í stríði, þar sem meira sprengiefni var notað en í Seinni heimsstyrjöldinni.
En þá þegar var stríðið tapað á heimavelli og bandaríska þjóðin hafði vit fyrir herforingjunum.
Það virtist ekki vefjast fyrir Bandaríkjamönnum að ráðast inn í Afganistan 2001 til skjóts sigurs yfir Talibönum.
Tuttugu árum síðar fór herinn sneypuför úr landinu sömu leið og Sovétmenn, Bretar og fleiri höfðu gert á sínum tíma.
Sigur yfir Covid kann að sýnast í augsýn, en um þann bardaga mun þó gilda það, sem var haft á orði í rallinu í den, að "rallið er ekki búið fyrr en það er búið."
Endalokin á þessu ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er gott að þú viðurkennir að þetta er "fyrsta stórstyrjöldin á sýkla- og veirusviðinu". Mörgum finnst erfitt að sætta sig við það, en þannig er þetta nú samt samkvæmt upplýsingum sem ekki er hægt að véfengja, meira að segja Joe Biden hefur gefið það út að það sé flest sem bendi til þess, og hann er þó vinstrisinnaður (eða demókrati) en þeir sökuðu Donald Trump um samsæriskenningar þegar hann hélt þessu fram fyrst. Að þessu leytinu hafði hann vissulega rétt fyrir sér, þótt væði í villu og svíma að mörgu leyti.
Þetta ætti einnig að kenna mönnum að hætta að segja að þeir allar samsæriskenningar séu rugl og þeir sem halda þeim fram ótrúverðugir.
Framfarirnar í vísindum eru bara orðnar svona að þetta er hættuminni aðferð til að berjast en með öðrum gereyðingarvopnum. En engu að síður eins og sumir aðrir bloggarar hafa nefnt, þetta er ekki síður ljótt en það sem fram fór í seinni heimsstyrjöldinni og breytir því heimsmyndinni og viðhorfum.
Já, þetta er nútíminn og þörf á að átta sig á þessu. Rétt eins og netafbrot eru farin að taka yfir.
Ingólfur Sigurðsson, 3.1.2022 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.