16.1.2022 | 15:13
15 klst ferð Reykjavík-Akureyri-Reykjavík: Allar tegundir vetrarveðurs.
Í upphafi búsetu hvers þess, sem býr á Íslandi, þarf að negla strax niður einfalda veðurfræðilega staðreynd: Að meðaltali í janúarmánuði er lægsti loftþrýstingur á jörðinni fólginn í lægð skammt suðvestur af landinu, en skammt norðvestur af landinu er önnur af tveimur hæstu hæðunum, Grænlandshæðin.
Afleiðing: Gríðarlegur þéttleiki þrýstilína á veðurkortum, mestu vindar og umhleypingar jarðar.
Í gær ókum við Friðþjófur Helgason frá Reykjavík til Akureyrar og til baka aftur í tilefni af opnun heilmikillar myndasýningar þar, sem Ólafur Sveinsson stendur fyrir, og Friðþjófur á drjúgan hlut í.
Vegna covid er sýningin þrískipt á milli Glerártorgs, Hofs og Amtbókasafnsins.
Þetta býður upp á þægilegan sunnudagstúr til að njóta sérstæðrar og eftirminnilegrar blöndu af ljósmyndasýnningu og kvikmyndasýningu á því ári, þegar liðin verða rétt tuttugu ár síðan gerðir voru samningar um stærsta mannvirki Íslandssögunnar, sem jafnframt hafði í för með sér mestu mögulegu óafturkræf og neikvæð umhverfisáhrif.
Á leiðinni norður og til baka bauð veðurfræðidild íslenskrar náttúru upp á stórbrotið sýnishorn af íslensku vetrarverð.
Kvöldið fyrir brottför var raðað í bílinn og gert klárt.
Það tók tæpa klukkustund, og var sjö stiga hiti og úrhellisrigning þegar verkið hófst en komið niður undir frostmark í slydduhríð í lokin klukkustund síðar!
Afsakið upphrópunarmerkið, því þetta er fullkomlega eðlilegt íslenskt janúarveður.
Á leiðinni norður byrjaði ferðin á flughálku, en þegar komið var norður fyrir heiðar tók við frost og heiðríkja með dásemdar fegurð, hvert sem litið var.
Myndin var tekin út um bílglugga á löngu færi vestast í Línakradal.
Síðar á leiðinni var ekið í skafrenningi um Öxnadalsheiði.
Á Akureyri var flughálka en það tók að hvessa á bakaleiðinni með fjúki og léttum lausasnjó.
Allt í einu bar svo við, að komið var inn á alveg úrkomulaust svæði með marauðri jörð og logni og blíðu.
Á leiðinni frá Staðarskála suður yfir Holtavörðuheiði var "hvíta kafald" eins hún Manga gamla hefði lýst því hér um árið og sáust oft ekki handaskil og ökuhraðinn hvað eftir annað á núlli, einkum þegar mætt var stórum flutningabílum.
Rauð tala var komin á vindmælinum undir Hafnarfjalli og hríðin hafði breyst í slyddu og rigningu í lokin með hálku, sem hefur sent meira en fimmtíu manns á bráðamóttöku í Reykjavík.
Hálka víða um land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.