Gef oss í dag vora daglegu virkjun!

Undanfarnar vikur og mánuði hefur vart verið hægt að opna svo blað eða kíkja á fjölmiðil án þess að þar sé finna nýja útgáfu af hinum háværa kröfusöng um nýjar virkjanir af öllum toga og um allt land.  

Varla rekur erlendur áhrifamaður eða ráðamaður svo inn nefið hér inn nema hann sé látinn lofa hástöfum opinberlega stórbrotna forystu Íslendinga í virkjun "endurnýjanlegrar" og hreinnar orku til þess að berjast við loftslagsvána.

Þótt hér séu til virkjanir, sem gefa endurnýjanlega og hreina orku, verður Hellisheiðarvirkjun nær alltaf fyrir valinu til að heilla útlendinginn, þótt fyrir liggi, að hún var höfð allt of stór í upphafi og felur í sér stórfellda rányrkju í því sem heitir "ágeng" orkuvinnsla. 

Virkjanirnar, sem nefndar eru, skipta orðið hundruðum með framleiðslu í formi margföldunar  núverandi orkuframleiðslu svo skiptir þúsundum megavatta. 

Slík er ákefðin, að auðveldlega væri hægt að nefna nýja og nýja virkjun á hverjum degi og skipta því bænaefni út í staðinn fyrir Faðirvorið. 

Ekki er einasta landið allt undir í þessari órofa síbylju um virkjanir og risaháspennulínur, heldur líka miðin við strendurnar nú líka komin í virkjanasæginn hvað snertir vindmyllugarða þar upp á þúsundir megavatta. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir má þó eiga það að nefna í svari sínu um hinn óseðjandi virkjanaþorsta, að framleiða eigi umframorku á venjulegum vatnsárum til að nota í vatnsleysisárum kosti það mikið fé.   

En virkjanakórinn færist þá bara í aukana í kröfum sínum um risasæstrengi til raforkuflutninga til Evrópu, og er sá söngur síst minni ein aðalsöngurinn um daglegar virkjanir.  


mbl.is Segir augljóst að framleiða þurfi meiri orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menn eiga bara um tvo kosti að velja: halda áfram að brenna kolum og olíu, eins og hingað til hefur tíðkast, eða virkja orku, jarðar, sólar, vatns og vinds í stórauknum mæli. Svo einfalt er það.

Ísland býr yfir ómældri vindorku sem nota mætti til þess að framleiða vetni. Úr borholum okkar streymir CO2. Úr þessum efnum mætti framleiða alkóhól eða annað hágæða eldsneyti. Til þess að það muni vera hægt verður að finna einhverja skika lands til þess að framleiða þessa orku. Eru þeir ekki til á Íslandi?

Fyrr eða síðar verðum við að ákveða hvort við viljum leggja fram einhvern skerf til orkuskipta í heiminum.

Nema sú ákvörðun verði tekin fyrir okkur af einhverjum öðrum.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 29.1.2022 kl. 00:05

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við leggjum þegar "okkar skerf til orkuskipta í heiminum" á þann hátt að innan við 20 prósent af orkuframleiðslu okkar fer til íslenskra fyrirtækja og heimila, en meira en 80 prósent af henni fer til erlendra stórfyrirtækja. 

Nú hefur verið gefin út sú krafa, að öllum náttúruverðmætum landsins verði fórnað í þessu skyni, og hver verður þá afraksturinn á Evrópumælikvarða? Langt innan við eitt prósent af orkuþörf Evrópu. 

Við eigum nú þegar samstarf við Bandaríkjamenn um að fórna einum af helstu náttúruverðmætum heims á hinum eldvirka hluta Íslands til þess að þeir geti varðveitt áfram Yellowstone og kallað það svæði "heilög vé", þótt það standist hvergi nærri samanburð við hin íslensku vé.  

Ómar Ragnarsson, 29.1.2022 kl. 05:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband