Tengslin við gengnar kynslóðir.

Lögmál tímans felst í því, sem reynt er að lýsa í eftirfarandi línum í ljóðinu og laginu "Lífið er núna" á þennan veg: 

 

"...Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver. 

Hvort nýir góðir dagar koma´er óvíst enn. 

En boðskap flytur fortíðin, 

sem færir okkur vísdóminn: 

Svo lærir, sem lifir, segja menn."... 

 

Munurinn á fortíðinni og framtíðinni er sá, að hið fyrra er fólgið í sagnfræðilegum staðreyndum, sem hægt er að kanna og nota við upplifun á tengslum kynslóðanna, en hið síðara er algerlega háð ágiskunum, og tíminn einn getur leitt í ljós hvort og hverjar þeirra verða að sagnfræðilegum staðreyndum.  

Eftir Heimsstyrjöldina kepptust Evrópuþjóðir við að fjarlægja sem mest af rústum og öðru "gömlu drasli", en uppgötvuðu margar um seinan að oft hafði verið gengið of langt. 

Víða höfðu vinalegir borgarhlutar fortíðar þar sem hægt hafði verið að rölta um og setja sig í spor formæðra og forfeðra, vikið fyrir kuldalegum og líflausum steypu- og glerbáknum.

Hér á landi fékkst ákveðin viðspyrna með stofnun og starfsemi Torfusamtakanna sem tókst að bjarga og varðveita hús, sem nefnd höfðu verið "ónýtt kofadrasl" og stefnt að því að reisa þar í staðinn steinbákn fyrir stjórnarráðið. 

Saga yfirlætislitla hússins neðst við Frakkastíg liggur fyrir. Þar var fyrst franskur spítali reistur fyrir hina mörgu frönsku sjómenn, sem settu svip á Reykjavík. 

Síðar var þar gagnfræðiskólinnn Lindargötuskólinn þar sem þúsundir reykvískra unglinga fengu uppfræðslu á ógleymanlegum þroskaárum.  

Nú bregður fyrir löngun til þess að fullklára það verk að rífa hið gamla, sem eftir er á þessum slóðum og klára þá framtíðarsýn að þarna verði enn ein háhýsin.  

"Hvort eð er" hugsunin felst í því að hvort eð sé búið að rífa merk og söguleg gömul hús eins og hús timburverslunarinnar Völundar og stóra Kveldúlfsskálann, sem síðar var notað sem pakkhúsið Skúlaskáli. 

Það tókst að bjarga timburhúsunum tveimur sunnan megin við vesturenda Laugavegar, og fyrir bragðið er þar enn mögulegt að njóta sólskins við húsin beint á móti. 

Háhýsaþorstinn er á skjön við þá staðreynd, að Reykjavík er sú höfuðborg sjálfstæðs lands, sem býr við lægsta sólargang allra höfuðborga heimsins. 

 

 

 


mbl.is Fjögur eldri hús fari á Frakkastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband