Einstakir hlutar hernaðar beggja aðila í Úkraínustríðinu eiga sér samsvörun í styrjöldum fyrri tíma. Fyrirsögnin hér að ofan er höfð eftir einum þekktasta hershöfðingja Bandaríkjahers, sem tók þátt í heimsstyrjöldunum báðum og hafa ummæli hans svo sannarlega orðið sannmæli fyrstu tvær og hálfa viku stríðsins.
Komið hefur í ljós misvægi milli einstaka þátta herfarar Rússa og má lesa út úr ýmsum gögnum á netinu fróðleik um þetta. Rússar eru reynslunni ríkari varðandi samgöngur í langstærsta ríki heims og eru með þriðja stærsta járnbrautanet heims. En fleira þarf til.
Þessi hugsun er hliðstæð því þegar Hitler lét gera hraðbrautir þvers og kruss yfir Þýskaland til þess að auðvelda stórflutninga herja á milli austur-og vesturvígstöðvanna og forðast raunar að lenda í stríði á tveimur vígstöðvum í einu.
Rússar ganga þannig frá járbrautunum að vor og haustleysingar hafi ekki sömu áhrif á þær og á vegi. Hið tröllaukna net járnbrautanna er langódýrasta leiðin til afkasta á landi, miðað við kostnað og öryggi. Í pistli hér á undan var greint frá því að 2006 hefði þjóðvegurinn milli tveggja stærstu borga Rússlands verið með eina akrein í hvora átt á löngum köflum. Fullkomlega eðlilegt.
Eitt lítið dæmi af ótal dæmum úr stríðinu núna: Löng röð af skriðdrekum á leiðinni í átt að Kænugarði fyrstu dagana og enga fyrirstöðu að sjá.
Nokkrum tugum kílómetra fyrir aftan skriðdrekana er röð af flutningabílum.
Skyndilega stöðvast skriðdrekalestin. Hvað er að gerast?
Jú, afar einfalt mál. Úkraínumenn hafa gert árás í flutningalestina og olíulaus kemst hinn glæsilegi skriðdrekafloti ekki fet.
Svipað dæmi og hjá Þjóðverjum við Kursk 1943 þegar hinn mikli ofur skriðdregi Tiger átti að vinna mestu skriðdrekaorrusu sögunnar. Sagt var að einn Tiger gæti haldið 10 T-34 í skefjum.
Reynslan varð önnur. Mesti ofurdreki heims var alltof flókinn, dýr og frekur á eldsneyti og viðhald.
Eldsneytislaus Tiger: Búinn að vera. Bilaður Tiger: Búinn að vera.
Ofurdrekinn í Operation Citadel, sem ætlað var að snúa stríðinu við, var ekki framleiddur nema í nokkur þúsund eintökum á meðan meir 80 þúsund T-34 runnu af færiböndum Þjóðverja handan Úralfjalla.
Núna hafa Rússar líka komist að því að eins og hernaðurinn þróast eiga þeir alltof fáa flutningabíla.
Trukkarnir líta ágætlega út, svo framarlega sem þeir eru ökufærir.
Rússar eru líka með samskiptatæki sem að stórum hluta eru orðin úr sér gengin.
Nýjustu rannsóknir á því hernaðarlega undri, sem herför Þjóðverja vestur að norðvesturströnd Frakklands 1940 sýna, að því hefur ranglega verið haldið fram að Þjóðverjar hafi haft yfirburði í fjölda skriðdreka, flugvéla, þungvopna og hermanna.
Ekkert af þessu var rétt, heldur atriði sem sýnist vera léttvægt en réði öllu þá, samskiptanet og skipulag og samþætting allra þátta.
Luftwaffe var skipulagður flugher, sem nær eingöngu byggðist á því að styðja við landherinn.
Skipulag upplýsingadreifinga og ákvarðanatöku var snilldarverk í Blitzkrieg.
Ef einhver hluti landhersins eða jafnvel bara litlir herflokkar lentu í vanda, var strax hægt að koma um það skilaboðum til yfirstjórnarinnar, og innan við hálftíma seinna voru Stukaflugvélar komnar á staðinn og stráðu sprengjuregni, ringulreið og skelfingu meðal óvinanna.
Enginn annar her veraldar hafði yfir slíku skipulagi að ráða.
Svipað er að gerast núna á mörgum sviðum Úkraínustríðsins.
En spurningin um það, hvort Rússar nái vopnum sínum þegar tíminn líður og geti hægt og bítandi unnið sigur leiðir hugann aftur til Vetrarstríðs Rússa við Finna 1939-40 þar sem stórveldið réðist á sinn margfalt smærri nágranna.
Það stóð aðeins í rúma þrjá mánuði og Rússar urðu fyrstu tvo mánuðina að athlægi fyrir endemis ófarir á skjön við yfirburði í tölum talið á stærð hers og vígtólum.
Getan til vel skipulagðra flutninga á vistum og búnaði, hergögnum og vel þjálfuðum hermönnum á hugsanlega eftir að vega þungt, samanber: "Flutningagetan vinnur stríð - hersveitir vinna orrustur."
Vesturveldin hófu stríð á tveimur vígstöðvum í upphafi þátttöku Bandaríkjamanna í Heimsstyrjöldinni til þess að reyna að létta á þunganum sem Sovétmenn báru og sendu hundrað þúsund manna lið í Operation Torch í Norður-Afríku í nóvember.
Vorið eftir munaði minnstu að þetta kostaði tap í orrustunni um Atlantshafið og innrásin í Normandy frestaðist um heilt ár.
Ástæðan var einföld. Flutningagetan á herliði, hergögnum, vistum og búnaði yfir Atlantshafið varð að skila ákveðnum afköstum, og af því þessi oft vanmetni hluti hernaðar hefur oft komið jafnvel glæstustu herjum í koll, samanber ósigur Þjóðverja í orrustunni um Moskvu haustið 1941, þýddi ekkert fyrir Stalín að fórna höndum yfir seinagangi Vesturveldanna; komandi orrusta um Frakkland varð að vinnast og til þess þurfti flutningagetu af áður óþekktri stærðargráðu.
Hafa ekki nægan styrk til að sigra okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rússland er ekki með nóg af hermönnum til að senda til Úkraínu. Land með 40 milljón íbúa, rússneskir hermenn um 150 þúsund sem fara inn í Úkraínu. Ítalir eru efnahagslega stærri og Rússland númer ellefu.
Lélegur mórall, sama tilgangsleysið og í stríðinu við Finna. Mikill spilling innan hersins og auðvelt að verða)! olíulaus á langri leið með þungavopn.
Aðeins með samstöðu Vesturlanda við ofríki vinnst stríðið á styttri tíma. Taka verður á móti fleirum flóttamönnum og styrkja betur innviði Úkraínu. Það mun um leið styðja við samstöðu um baráttu við verðbólgu sem er fylgifiskur stríðs.
6
Sigurður Antonsson, 13.3.2022 kl. 20:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.