1.6.2007 | 13:57
KJÚKLINGALEGGIR OG STJÓRNTÆKUR FLOKKUR
Þegar leið á stjórnarsamstarf 1991-95 minnkaði ánægja Davíðs Oddssonar með samstarfið við Jón Baldvin og krata, og er svonefnt kjúklingaleggjamál dæmi um það að honum þótti kratarnir ekki vera nógu áreiðanlegir í samstarfi. Nú er spurningin hvort samstarf SS-flokkanna verði betra. Þegar Össur Skarphéðinsson var búinn að vera sjö ár utan stjórnar og kosningarnar 2003 blöstu við tók hann ásamt flestum í þingflokki Samfylkingarinnar U-beygju í Kárahnjúkamálinu.
Talað var um að þetta væri gert til að sýna fram á að Samfylkingin yrði stjórntæk í næstu kosningum. Ingibjörg Sólrún hnykkti á þessu á frægum fundi borgarstjórnar í ársbyrjun 2003 þar sem hún hafði að engu fjölmennustu mótmæli fram til þess tíma.
Kosningasigur Framsóknar eyðilagði hins vegar tækifærið fyrir Samfylkinguna að komast í stjórn og við tóku fjögur mögur ár í viðbót. Það hefði munað miklu fyrir sögu Íslands ef flokkurinn hefði þá staðið fast við upprunalega stefnu sína í virkjanamálum.
Nú er spurningin hvort Samfylkingin verður eins heil við samstarfsflokk sinn og Framsókn var. Fyrstu tveir dagarnir lofa ekki góðu því engin samstaða virðist hjá stjórnarflokkunum um Norðlingaölduveitu.
Og ekki er heldur samhljómur milli sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra í hvalamálinu. Um þessi mál og nokkur fleiri á það við sem sagt var stundum um Moggann að það væri fréttnæmara hvað stæði ekki í blaðinu en það sem stæði i blaðinu.
Í Reykjavíkurbréfi Moggans var ýjað að því að Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin kynnu að stökkva út undan sér á síðari hluta kjörtímabilsins.
Samfylkingarmenn reiddust margir þessum ummælum en í ljósi ágreiningsefna sem þegar blasa við og gamla kjúklingaleggjamálsins er það ekki út í hött að pæla í því hve stjórntæk Samfylkingin verður út allt kjörtímabilið.
Kannski nægir það sem aðhald fyrir Samfylkinguna að vita af því að Geir tekur bara næstsætustu stelpuna heim með sér af ballinu ef hún gerir sama gagn og sú sætasta.
Þetta gerði Davíð 1995 og Geir aftur núna 2007.
En verður þetta nóg aðhald og lærdómur fyrir Samfylkinguna til að vera stjórntæk allt til næstu kosninga?
Það er ekki víst. Í Silfri Egils sagði Össur á dögunum að Jón Baldvin hefði gert þau mistök eftir kosningarnar 1995 að sitja rólegur í stað þess að segja strax af sér og taka frumkvæði um stjórnarmyndun.
Í ljósi þeirra ummæla er kannski ekki hægt að treysta því að Samfylkingin sitji sallaróleg á hverju sem gengur. Í september 1979 sleit Alþýðuflokkurinn stjórnarsamstarfi fyrirvaralaust. Það var sennilega stærsta og óvæntasta sprengja sem hent hefur verið inn í íslensk stjórnmál ef frá er talið þingrofið 1931. Meira að segja Benedikt Gröndal formaður flokksins vissi ekki hvað stóð til.
Hjá krötum er sem sé til fordæmi sem menn skyldu ekki afskrifa.
Athugasemdir
Þú ert snillingur, þarf ekkert fleiri orð um það. Vertu bara ekki bitur, stjórnmál eru klíkuskapur í dag.
En mér þætti gaman að fá álit þitt á sjávarfallavirkjun Hvammsfjarðar, þetta er svolítið hæpin hugmynd, en allt er framkvæmanlegt. Væri þetta skárri kostur heldur en jökulár landsins? Það virðist allavega vera annaðhvort sem verður af, því að stórkarlar með mikil fjárráð virðast hafa pantað raforku hérlendis, og það virðist ekki vera hægt að stoppa það af. Bölvað. Hér er tengill með úttekt á Hvammsfjarðarvirkjunarmöguleikum. Kveðja Reynir Freyr
Reynir Freyr (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 17:16
http://soloweb.samorka.is/Apps/WebObjects/Samorka.woa/1/swdocument/1000797/Geir+Gu%C3%B0mundsson.pdf?wosid=false Sjávarfallavirkjun? Betra af tvennu illu?
Reynir Freyr (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 17:19
Vinstri Grænir og Hellisheiðarvirkjun
Fá komment takk
Brynjar Svansson, 1.6.2007 kl. 21:29
Langar að svara Brynjari því sem ég veit úr innanbúðum míns flokks um Hellisheiðarvirkjun því ég hef sjálf spurt um það mál. Þannig var að það var búið að samþykkja stækkun álvers á Grundartanga og átti eftir að útvega orkuna og þeim var í raun bara gefið valið að velja á milli virkjunar í Þjórsá eða Hellisheiði. Þau töldu Hellisheiðina vera illskárri kostinn og töldu sig þá vera að hlífa Þjórsá... en svo virðist sem Þjórsá sé aldrei útúr myndinni hjá XD!!!
Andrea J. Ólafsdóttir, 3.6.2007 kl. 18:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.