20.4.2022 | 22:59
Sjókvíarnar að hopa en loftlínurnar ekki.
Undanfarna tvo áratugi hafa tvö fyrirbæri notið eins konar tilbeiðslu hér á landi, sjókvíar í fiskeldi og loftlínur í rafstrengjum.
Haldið hefur verið fram, að landkvíar og jarðstrengir séu alltof dýr fyrirbæri til þess að þau eigi rétt á sér.
Þeir, sem hafa andæft þeim hafi gjarnan verið úthrópaðir sem "öfgafólk / á móti atvinnu / á móti uppbyggingu / á móti framförum / á móti landsbyggðinni."
Samt var það margítrekað hjá t.d. samtökum veiðifélaga og öðru náttúruverndarfólki, að það væri meðmælt landeldi.
En nú bregður svo við landeldi er í sókn, meðal annars af ástæðum, sem greint er frá í viðtengdri frétt á mbl.is.
Hér á síðunni hefur verið fjallað um hatramma tregðu Landsnets við það að leggja rafstrengi í jörð, sem hefur verið stunduð á sama tíma og tregðan við að nota landkvíar í fiskeldi hefur verið í gangi.
Því miður virðist lítið lát vera á því.
Ný undirstöðugrein að taka á sig mynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Landeldið er hægt að hafa á suðvesturhorninu. En landeldið er ekki bara hægt að hafa á suðvesturhorninu, það er hagkvæmast að hafa það á suðvesturhorninu af öllum stöðum á landinu. Nálægt flutningsleiðum, stórum hitaveitum og úrvali starfsmanna og þjónustufyrirtækja. Önnur landsvæði tapa auðveldlega í þeirri samkeppni. Það eina sem landsbyggðin hefur að bjóða, skiptir sköpum og gefur þeim vinninginn er sjókvíareldið. Ekkert sjókvíareldi, ekki nein ástæða til að vera með eldið á landsbyggðinni.
Loftlínur eru, þegar mikið þarf að flytja, hagkvæmastar og munurinn gríðarlegur. Jarðstrengir fyrir þorp og litla bæi geta verið hagkvæmir, eða ekki mikið dýrari en loftlínur. En kostnaðarmunurinn margfaldast við hvert stækkunarskref. Skiljanlega sjá þeir sem þurfa að borga og réttlæta kostnaðinn ekki neina skynsemi í því borga margfalt það verð sem önnur lausn kostar. Af sömu ástæðu leggjum við vegi ofanjarðar frekar en að setja alla vegi í jarðgöng svo ekki verði sjónmengun, jafnvel þó Hvalfjarðargöngin hafi borgað sig.
Stundum er ekki val um tvo kosti. Stundum stendur valið um einn kost eða ekkert.
Vagn (IP-tala skráð) 21.4.2022 kl. 02:45
Hinga til hefur þrjóskan varðandi það loftlínur séu það eina birst í því, að þær eina komi til greina hvar sem er, ofan nefinu á Akureyringum og í gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.
Ómar Ragnarsson, 21.4.2022 kl. 15:55
Hvort raflagnir séu ofanjarðar á vatnsverndarsvæðum eða neðan skiptir varla miklu máli fyrir vatnsverndina. Og fæli loftlínur fólk og umferð frá þá er það bara betri vatnsvernd.
Væri það svo slæmt fyrir Akureyringa ef háspennulínur tækju athyglina frá reykjarmökkunum frá skemmtiferðarskipunum, glansandi hitaveitulögninni og ýmsu öðru sem þeir sætta sig við? Landsnet ætti bara að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar og segjast vera Akureyskt fyrirtæki og þá mundu gagnrýnisraddirnar sennilega þagna.
Akureyri og Reykjavík er ekki litlir bæir þar sem ódýr ljósahundur nægir. Þar þarf alvöru lögn með mikla flutningsgetu. Það verður því ætíð einhver tregða þegar kallað er eftir dýrustu lausn og engan sérstakan ávinning við þá lausn er að sjá.
Næsta hverfi verður ekki byggt neðanjarðar bara vegna þess að ég vill ekki sjá fleiri hús.
Vagn (IP-tala skráð) 21.4.2022 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.