Hergögn og hergagnaverksmiðjur hafa löngum verið áhrifarík skotmörk í styrjöldum. Í blábyrjun innrásar Þjóðverja í Sovétríkin 22. júní 1941 réðust þeir á 66 flugvelli og eyðilögðu alls 1800 flugvélar eða fjórðung alls flugflota Sovétmanna.
Þetta færði Þjóðverjum yfirráð í lofti frá fyrsta degi, en það var forsenda fyrir hina miklu sókn á landi, stærstu innrás allra tíma.
Þjóðverjar höfðu alger yfirráð í lofti í innrásinni í Danmörk og Noreg 9. apríl 1940 og hefðu þurft að hafa slík yfirráð yfir Íslandi til þess að framkvæma aðgerðina Ikarus sem gerð hafði verið um þýskt hernám Íslands.
Þá varð það til bjargar, að Ísland var alveg flugvallalaust land þótt Agnar Koefoed Hansen hefði flogið á þýskri flugvél með Bergi Gíslasyni sumarið 1938 og Bergur skráð niður 38 skoðaða staði, þar sem mögulega væri hægt að gera flugvelli, misstóra eftir aðstæðum.
Þessi minnisbók er enn varðveitt.
Agnar var flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar og réði Hermanni Jónassyni eindregið frá því vorið 1939 að samþykkja bón Hitlers um aðstöðu handa Þjóðverjum við gerð lendingarstaða fyrir Lufthansa vegna flugs yfir Atlantshafið.
Þrátt fyrir ungan aldur var Agnar með allra fróðustu og reyndustu flugmönnum og sérfræðingum um flugmál í Evrópu og sagði við Hermann, að ef Íslendingar sæktust eftir því að lenda sem allra fyrst inni í hringiðu styrjaldarinnar skyldu þeir samþykkja kröfur Hitlers.
Agnar byggði þessa skoðun sína á því að stórstigustu framfarir í sögu flugsins ættu sér nú stað, sem myndi kalla fram tvöfalt til þrefalt öflugri, stærri, hraðskreiðari og langfleygari flugvélar á örfáum misserum. Reyndist hann sannspár í því efni.
Þjóðverjar höfðu flogið Focke-Wulf Fw 200 í einum áfanga fram og til baka frá Berlín til New York 1938, 6300 kílómetra hvora leið. Veturinn 1940 til 1941 kallaði Winston Churchill vélar af þessari gerð "ógnvald Atlantshafsis". Þá sökktu þær fleiri skipum en allir kafbátar Þjóðverja til samans.
Neitun Íslendinga á þeim tíma þegar enginn þorði að styggja Hitler vakti heimsathygli.
Segjast hafa sprengt upp vopnabúr frá Bandaríkjunum í Odessa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Oft er það gott sem gamlir kveða"
Árið 2003 varar Otto von Habsburg, sonarsonur Frans Jósefs Austurríkiskeisara, eindregið við Pútín og líkir honum við Hitler. Hann var þá 91 árs gamall: Otto von Habsburg warned us against Putin's aggressive character in 2003
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 24.4.2022 kl. 14:49
Blessunarlega höfum við verið úr alfaraleið þegar vopnaframleiðendur hafa sent sínar háskasendingar vídd og breitt um meginlandið. Einkennilegt er að maðurinn geti aldrei verðið án þess að hafa stríð einhverstaðar í gangi. Ekki bætandi á að hafa vopnaframleiðendur á hlutabréfamarkaði. Það er of mikill þögn um sölu þungavopna til einræðisríkja. Þau eru alltaf efst á blaði þegar þið talið um stríð, einvaldar þeirra eins og hetjur hjá mörgum á blogginu.
Alþjóðasamtök eru lítils megandi ef þau geta ekki haft hemill á þjóðum sem beita eldflaugum með drægi fleiri tugi þúsund kílómertra og nákvæmni sem skeikar aðeins nokkrum metrum. Rússar hafa því miður valið fátæk lönd til að reyna sín vopn, annars hefðu þeir mætt meiri mótspyrnu og andúð.
Sigurður Antonsson, 24.4.2022 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.