4.5.2022 | 23:30
Beinar hótanir Rússa um nýtt og grjóthart kalt stríð.
Það er að sjálfsögðu alger andstæða við friðsamlega sambúð þjóða ef foreskjulegt stórveldi ætlar að breyta innhafi eins og Eystrasalti í vettvang sífelldra ógnana með notkun herflugvéla, herskipa og kafbáta.
En það er ekki hægt að líta öðru vísi á það ef Rússar fara inn á þessa braut en beina hernaðarlega hótun og þvingun að baki eignar kjarnorkuvopna, sem eru í raun lang stærsta ógn mannkynsins.
Verið er að stilla upp vali Svía og Finna um tvo kosti:
Ný Finnlandisering, haldinn friður hlutlausra þjóða með því að Rússar andi ofan í hálfsmálið
eða -
nýtt grjóhart Kalt stríð, sem gamla Kalda stríðið falli í skuggann fyrir í samanburði.
Rússar rufu lofthelgi Finna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sá vægir sem vitið hefur meira, virðist eiga vel við hér. Þeir sem hræðast Pútín mest segja að hann verði einsog Hitler eða þeir alverstu, ráðist á fleiri lönd. Það er alls óvíst. Erfiðleikarnir við þetta stríð hljóta að segja honum að það verði ekki auðsótt.
Langlíklegast er, ef hann stoppar ekki við Úkraínu, er að það verði nýfrjálsu löndin úr Sovétblokkinni sem hann ráðist næst á, og kannski ekki fyrr en eftir einhver ár. Ekki hefur hann bitið úr nálinni með þetta stríð.
Svo verður Pútín ekki eilífur. Hverskonar upplausn myndast við fráfall hans? Friðsamari leiðtogi, sama hernaðarhyggjan, eða hvað?
Friðarstefnan er það sem flestir sækjast eftir. Ekki ólíklegt að eftirmaður Pútíns verði friðsamari.
Að kæla þetta er málið. Þessar efnahagsþvinganir ættu að duga, þær gera vopnaframleiðsluna erfiðari.
Það er aldrei hægt að stöðva alla einræðisherra. Að líkja árásinni á Úkraínu við nauðgun á konu er ekki sambærilegt, eða hvort Úkraína hafi verið í "flegnum kjól" eins og sumir orða þetta sem líkja stríðinu við nauðgun.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur margt til síns máls þegar hann segir að Vesturlönd hafi egnt Pútín til stríðs.
Sjálfstæði er draumsýn ef hættulegur og yfirgangssamur ruddi er í nágrenninu sem er voldugri.
Það er vitað að Pútín hefur verið að ásælast Úkraínu lengi. Það þýðir að þetta er ekki sambærilegt við innrás í hvaða sjálfstætt ríki sem er, Úkraínumenn hafa búist við þessu stríði frá 2014.
Með því að leyfa Rússum að fá Maríupol og fleiri mikilvægar borgir, hafnir til að hafa meiri stjórn á útflutningi og slíku hefði gríðarlegum mörgum mannslífum verið bjargað.
Vesturlönd eins og forseti Úkraínu máttu vita að fullur sigur yrði aldrei mögulegur eftir innrás Rússa.
Fyrir Pútín vakir að búa til voldugt mótvægi við Vesturlönd úr Rússlandi.
Að tala um einræði gagnvart lýðræði er einföldun. Pútín leyfði internetið að mestu óritskoðað fram að þessu stríði sem hefur kostað stigmögnun tortryggni og andúðar.
Vesturlönd eru ekki saklaus í þessu máli.
Sá vægir sem vitið hefur meira. Ég tel líklegast að Pútín láti staðar numið við Úkraínu í bili, ef hann nær henni.
Ingólfur Sigurðsson, 5.5.2022 kl. 13:36
Erfiðleikarnir við þetta stríð hljóta að segja honum [Pútín] að það verði ekki auðsótt [að ráðast á fleiri lönd].
Með því að leyfa Rússum að fá Maríupol og fleiri mikilvægar borgir, hafnir til að hafa meiri stjórn á útflutningi og slíku hefði gríðarlegum mörgum mannslífum verið bjargað.
Þessar tvær fullyrðingar eru í mótsögn hvor við aðra. Ef Pútín hefði fengið Mariupol og fleiri mikilvægar borgir, baráttulaust, hefði ekki verið um erfiðleika í þessu stríði að ræða. Þá hefðu líkurnar á innrás í önnur lönd orðið enn meiri. Það er einmitt vegna staðfestu Úkraínu og Vesturlanda að fleiri innrásir eru ekki eins vænlegur kostur fyrir Pútín.
Það var ég sem líkti árás Pútíns (eða skýringum / réttlætingum á henni) við að kona í flegnum kjól sé skýringin ef henni verður nauðgað. Man ekki eftir að aðrir hafi nefnt hana. Gott að sú samlíking mín náði einhverjum eyrum, þó þú virðist ekki telja að hún eigi við í þessu samhengi.
Fyrir Pútín vakir að búa til voldugt mótvægi við Vesturlönd úr Rússlandi.
Mótvægi gegn hverju og til hvers? Það er ekki sérstaklega gáfulegt að búa til bandalög bara í kringum það að vera á móti einhverju(m). Mér hefur t.d. oft dottið í hug að stofna klúbb sem er á móti Manchester United, en heldur ekki með neinu liði í ensku úrvalsdeildinni.
Þetta síðasta var nú grín, mér er eiginlega sama um Manchester United, hvort þeir vinni eða tapi. Ef eitthvað er vorkenni þeim í vandræðum þeirra. Tók þá sem dæmi bara til að sýna að samtök geta aldrei snúist um að vera á móti einhverju, nema með því að benda á hvað skuli koma í staðinn.
Reyndar tel ég að Pútín sé á móti frelsi og sjálfstæði annarra þjóða en Rússlands, en það er ekki sérlega göfugur málstaður er það? Það er kannski ágætt að einræðisherrar myndi sinn eigin klúbb um að efla einræði og kúgun, þá veit maður hvar maður hefur þá. Ég tel að það sé í raun þróunin, að einræðisríkin séu að rotta sig saman, en það er efni í aðra umræðu.
Theódór Norðkvist, 6.5.2022 kl. 00:00
Gott að vita hver kom með þessa líkingu, Theódór. Hér er svo mikið í húfi að þótt líkingin sé smellin er málið nokkuð flóknara með þetta stríð og meira í húfi fyrir heimsfriðinn.
Hér erum við komnir í "hvað ef" söguskýringar, og í því sambandi geta þessar tvær fullyrðingar verið í mótsögn hvor við aðra.
Hvað átti ég við með "mótvægi við Vesturlönd?"
Samskipti Bandaríkjanna og Rússa hafa verið stirð lengi. Aðallega í stjórnartíð Trumps liðkuðust þau. Mér finnst Bandaríkin viðhafa heimsvaldastefnu, eins og með íhlutun í málefni annarra landa, t.d. Íraksstríðið. Þetta lítur Pútín á með sínum augum og ýkir jafnvel.
Að mörgu leyti er því Pútín að herma eftir Bandaríkjunum á yfirborðinu með Úkraínustríðinu, hann notar orðræðu sem þekkist, að hann sé að frelsa Úkraínumenn undan nazistum. Víetnamstríðin voru réttlætt til að verjast kommúnismanum. Réttlætingarnar eru ekki alltaf nákvæmlega sannleikanum samkvæmt, heldur ýkjur og afsakanir.
Með þeirri orðræðu að Pútín sé fasisti hefur ekki tekizt að skapa traust hans nema mjög lítið. Mér virðist þó sem stjórn hans hefði frekar átt að lýsa sem "menntuðu einræði", með einkenni lýðræðis á köflum.
Aleksander Dugin, rússneski heimspekingurinn og aktívistinn, hefur haft mikil áhrif á Pútín. Hann hefur viðrað hugmyndir um Evrópu-Asíu heimsveldi gegn Vestrinu, og þær notar Pútín til að réttlæta að vilja gera Rússland aftur að því sem það var fyrir hrun Sovétríkjanna.
Það sem margir hér á Íslandi fatta ekki er að djúp og gömul hugmyndafræði er grundvöllurinn að þessum stríðsrekstri, og þetta nær aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar, að minnsta kosti, líkingarnar og myndmálið, réttlætingarnar og hugmyndafræðin. Þannig varð nazisminn einnig til, gjá á milli hugmyndafræðikenninga og hefða.
En eins og þú skrifar um, einræðisríkin sem rotta sig saman er efni í aðra umræðu.
Ingólfur Sigurðsson, 6.5.2022 kl. 15:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.