5.5.2022 | 14:18
"Strákurinn frá Búastöðum er enginn lopi." "Rallið er ekki búið fyrr en það er búið."
Morg dæmi eru um það í keppni, að jafnvel þótt horfur virðist ekki góðar, geta jákvæð hugsun og baráttuvilji oft komið sér vel.
Dæmi.
Á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brussel fóru úrslitakeppnin í stangarstökki og langstökki fram á sama tíma. Torfi Bryngeirsson hafði komist upp úr undankeppninni í báðum greinunum, en varð að velja á milli þeirra í úrslitakeppninni.
Fyrir keppnina var Torfi í 2. sæti á Evrópulistanum í stangarstökki en ekki einu sinni í tíu efstu sætunum í langstökkinu og því skildi enginn að hann skyldi velja langstökkið fram yfir stangarstökkið.
"Nú er ég búinn að skoða hina í undankeppninni", sagði Torfi, "og Ragnar Lundberg er í stuði í stönginni, en þeir, sem komust áfram í langstökkinu eru bara kettlingar"
Í langstökkskeppninni voru aðstæður slæmar vegna misvindis og "kettlingarnir" hrundu niður vegna taugaóstyrks og voru langt frá sínu besta.
Torfi, sem var frá Vestmannaeeyjum, hafði enga reynslu af stórmótum á meginlandi Evrópu, var hins vegar alveg óttalaus, barði sér á brjóst og hrópaði á íslensku "strákurinn frá Búastöðum er sko enginn lopi!"
Hann náði besta árangrinum á ferli sínum og varð Evrópumeistari.
Blaðamenn undruðust taugastyrk hins óreynda keppanda og árangurs hans og spurðu hann, hverju þetta sætti.
"Það er af því að ég er aldrei nervös", svaraði Torfi.
"Og hvernig stendur á því?" spurðu blaðamennirnir.
"Af því að það er verra," svaraði Torfi.
Kjörorð Jóns R. Ragnarssonar á ferli hans í rallakstri voru "rallið er ekki búið fyrr en það er búið."
Þetta sagði hann meira að segja eitt sinn, þegar bíllinn hafði oltið og stórskemmst, hann var sjálfur moldugur og hart leikinn, og engum flaug í hug að samt yrði haldið áfram.
En það var gert og þessi mikli baráttuvilji skilaði honum oft langt.
Segir Ísland vera svarta hestinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fróðlegt að vanda Ómar
Halldór Jónsson, 5.5.2022 kl. 16:35
Takk.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2022 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.