18.5.2022 | 23:49
Á Söguöld ríkti góðæri og gullöld.
Smám saman finnast fleiri og fleiri minjar upp þá miklu gullöld sem ríkti hér á landi alveg fram á 12. öld.
Hellarnir stóru á Rangárvöllum bætast nú við minjar og leifar af stórfelldum landamerkjagörðum sem voru uppgötvaðir á þingeyskum heiðum fyrir um tuttugu árum og lágu tugi kílómetra eftir heiðunum nyrðra.
Á þessu tímabili ríkti hlýskeið hér á landi, og á meðan þrælahaldi stóð var hefur líklega verið gnótt vinnuefls á landinu.
Það var sannmæli þegar Jónas orti "fornaldar frægð" um þetta þjóðveldisskeið.
Þegar komið var fram á tólftu og þrettándu öld fór loftslag kólnandi, en valdamestu og ríkustu höfðingjarnir bárust mikið á og rannsóknir benda til þess að strax þá hafi þessi gullaldarþjóð verið langt komin með að eyða mestöllu skóglendi landsins og koma af stað uppblæstri og gróðureyðingu þegar jarðvegsbinding kjarr- og skóglendis þvarr.
Í einu illviðrinu missti Snorri Sturluson um hundrað nautgripi við Svignaskarð og segir það sína sögu.
Eins og oft gerist í kreppu, efldi þetta ófrið milli harðsæknustu valdamanna, sem náði hámarki á Sturlungaöld, svo að í lokin urðu Íslendingar að leita á náðir Noregskonungs, bæði til þess að koma á friði en einnig til þess að tryggja lífsnauðsynlegar siglingar til og frá landinu.
Hellarnir mögulega eldri en gert var ráð fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ánægjulegt að lesa þetta. Dr. Helgi Pjeturss, sem ég held mikið uppá, skrifaði um það í bókum sínum að heiðna menningin sem landnámsmennirnir komu með hafi verið hámenning og stórmerkileg tilraun hér gerð í þróun lýðræðis, þegar þingið var sett á Þingvöllum, elsta starfandi þingi í heimi og upprunalegast.
Á fyrri hluta 20. aldarinnar voru menn þó ekki eins meðvitaðir um gróðureyðinguna.
En um þrælahaldið á fyrstu öldum Íslandsbyggðar má þó segja að við vitum ekki fullkomlega hvernig það var. Til eru margar tegundir af þrælahaldi, stundum er það næstum mannúðlegt, þar sem það minnir á tímann þegar vinnukonur og vinnumenn voru nokkurskonar þrælar, og svo er til það þrælahald sem þekkt er úr bíómyndunum, versta tegundin.
Fátækt er ein tegund af þrælahaldi segja sumir, margt til í því.
En Íslandssagan er glæsileg að mörgu leyti, að hingað komu frelsiselskandi menn og konur og byggðu landið, og hér voru skrifaðar bókmenntir á heimsmælikvarða.
Nútímakynslóðir mega ekki vanmeta frelsisstarf Jónasar Hallgrímssonar og allra sem stuðluðu að sjálfstæðisbaráttunni. Nú finnst mörgum þetta vera svo sjálfsagt, að ekkert sé að því að gefa búta úr sjálfstæðinu í smáum skömmtum til ESB og annarra ríkjasambanda.
Hætt er við að kynslóðir sem þekkja ekki baráttu fyrri Íslendinga verði ótengdar við það sem máli skiptir.
Sögurnar um agaleysið í skólunum segja margt. Íslandssagan kennir hvað hægt er að missa niður þegar gengizt er sterku valdi á hönd sem lofar velmegun, gulli og grænum skógum.
Maður vonar bara að sögukennslan verði bæði góð inni á heimilum og skólum.
Ingólfur Sigurðsson, 19.5.2022 kl. 01:18
Þrælahald var alls ekki meira en tíðkast nú. Enda rétt sem Ingólfur segir, að margskonar er þrælahald. Skuldabaggar sliga þrælana. Þeir sem hafa mestan hag af okrinu eru hinir raunverulegu þrælahaldarar. Og er þeim sérstaklega hampað af stjórnsýslunnar lénsherrum.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.5.2022 kl. 06:41
Eftir landnám mun búfénaður hafa gengið til beitar allt árið, nema mjólkandi kúm hefur verið haldið heimavið. Búskapur hefur þurft færri vinnandi til heyanna og ummönnun skepna, en þegar litla ísöld reið yfir.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 19.5.2022 kl. 09:02
Þá var hiti líka 1,5°C hærri en hann er í dag!
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 19.5.2022 kl. 13:41
Ekki sel ég það dýrara en ég keypti. En mér skilst að þar sem Snorri var nýtinn maður þá notaði hann skinnin til þess að skrifa Heimskringlu.
Hörð ur Þormar (IP-tala skráð) 21.5.2022 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.