Árni Johnsen var kveðinn í kútinn með það, sem nú er samþykkt einróma.

Þegar sú hugmynd kom fram fyrir um þrjátíu árum að grafa göng undir Hvalfjörð óaði mðrgum við því að taka þá áhættu, sem því fylgdi. Hugmyndin um brú innar í firðinu hafði áður verið nefnd, og í ljósi hins mikla vatnsleka í Vestfjarðargöngunum virtist mörgum það óráð hið mesta að fara með göng niður fyrir sjávarmál. 

Það reyndist heillaframkvæmd, en úrtöluraddir urðu enn ákafari, þegar Árni Johnsen viðraði þá hugmynd sína að gera göng frá landi út í Eyjar.  

Var sú hugmynd blásin umsvifalaust út af borðinu og í staðinn lagt upp með að útfæra hugmynd um Landeyjahöfn. 

Þótt sú höfn og tilsvarandi bættur skipakostur hafi kostað miklu minna en göng, hefur þessi úrlausn orðið miklu dýrari og erfiðari en rætt var um í upphafi. 

Á þessum tveimur áratugum hafa hins vegar orðið framfarir erlendis í greftri ganga og notkun risabora ítalska fyrirtækisins Impregilo við gröft 70 kílómetra ganga Kárahnjúkavirkjunar  sýndi hverju er hægt að áorka með slíku tröllatæki.

Í nágrannalöndum okkar, Noregi og Færeyjum hafa menn bæði komist langt í gerð ganga undir sjó og ekki síður í löngum göngum, sem geta orðið hátt á þriðja tug kílómetra að lengd. 

Við gerð Hvalfjarðarganga kom í ljós, að það sem réði mestu um hve gersamlega vatnsheld þau voru þrátt fyrir að liggja 170 metrum lægra en yfirborð sjávar, var sú heppni að hitta á leið í gegnum stóran, þéttan og heilsteyptan risaklump sem enginn leki var í. 

Ekki er vísta að svo mikil heppni yrði með jarðgangaleið út í Eyjar, en auðvitað verður ekki hægt að fullyrða neitt um  það nema að undangengnum dýrum og vönduðum rannsóknum. 

Í þessu máli verður hinsvegar að horfa lengra til framtíðar en fram á tær sér.

Samgöngurnar til og frá Eyjum eru enn of stopular yfir stóran hluta ársins til að þær séu boðlegar, hvorki á okkar tímum né í framtíðinni. 

 

 

 

 

 


mbl.is Skoða möguleika á göngum til Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ógleymanlegt atriði í áramótaskaupi þar sem Gísli Rúnar í hlutverki Árna
hamast við að moka holu í sandinn til að koma þessum göngum af stað
"Hálfnað verk þá hafið er"

Grímur Kjartansson, 10.6.2022 kl. 07:17

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sem verkfræðingi finnst mér hugmyndin alveg stórkostlega spennandi. Þetta eru "bara" 13 km, smáræði í samanburði við margt annað, en markaðurinn líka agnarsmár (jafnvel þótt traffík til Eyja tífaldaðist með tilkomu ganga).

Færeyingar hentu nýlega í 11 km neðansjávargöng fyrir um milljarð danskra króna.

https://en.wikipedia.org/wiki/Eysturoyartunnilin 

Geir Ágústsson, 10.6.2022 kl. 10:30

3 identicon

Heimaey er VIRKT eldfjall. Ekkert slíkt er í Noregi eða Færeyjum. Jarðfræðingar hafa sagt það fásinnu að grafa göng út í eyjuna. 

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 10.6.2022 kl. 11:23

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Árni Johnsen var af sumum talinn ræða vafasöm mál, eins og Ásmundur Friðriksson nú. Sannleikurinn er sá að einmitt þeir þingmenn sem er brosað að, eins og Sigmundur Davíð, sem var brosað að núna í eldhúsdagsumræðunum, en benti þó nákvæmlega á feilana hjá ríkisstjórninni, að þessir þingmenn eru á undan sinni samtíð.

Gott að einhver setur þetta í samhengi.

Ingólfur Sigurðsson, 10.6.2022 kl. 11:41

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Vestmannaeyjar skulu rísa" sagði Ólafur Jóhannesson þáverandi forsætisráðherra í sjónvarpsumræðum 1973, þegar öll umræðan í þættinum hafði farið í það að nefna alls konar möguleika á því að reisa nýja höfn og byggð uppi á landi. 

Þetta sagði Ólafur með þeim myndugleika að farið var út í "rándýrar" aðgerðir til þess að reisa byggð og mannvirki við á Heimaey þátt eyjan væri þá, eins og nú, VIRKT eldfjall.  

Ómar Ragnarsson, 10.6.2022 kl. 12:50

6 identicon

Hví nefnir enginn þann einfalda en um leið margfalt ódýrari kost að flytja alla atvinnustarfsemi í Eyjum til Þorlákshafnar? Þó má segja að fyrsta skrefið hafi verið tekið þegar bæjarstjóri þeirra var fluttur þangað, en þar er yfirfljótanlegt landrými, góð höfn, rafmagn, hitaveita, vatn, sjúkrahús og tukthús í næsta nágrenni. Þar mætti byggja allt sem á kann að vanta upp fyrir svosem helminginn af því sem göng kosta og reksturinn yrði brot af því sem kostar að búa í Eyjum. Ef einhver vill svo búa þar væri það að sjálfsögðu heimilt á eigin reikning og resikó.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.6.2022 kl. 21:07

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ein stefnumótandi setning forsætisráðherrans 1973 sögð með myndugleika á dramatísku augnabliki kom einmitt eftir umræður um að láta Eyjarnar róa og byggja upp nýja verstöð í staðinn á ströndinni. 

Ómar Ragnarsson, 11.6.2022 kl. 09:42

8 identicon

Síðan eru liðin fimmtíu ár. Er ekki tími til kominn að endurskoða dæmið? Ættum við að byggja aftur upp Leiruna á Suðurnesjum eða Skála á Langanesi?

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.6.2022 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband