15.6.2022 | 11:07
Hvað gerði stjórnlagadómstóll Þýskalands?
ÚRSKURÐUR Hæstaréttar Íslands vegna stjórnlagaþingkosninganna 2010 var einsdæmi í Evrópu. Þeir sem studdu þennan dóm sögðu þetta vera merki um það, hve alvarlegir hnökrar hefðu verið á framkvæmd kosninganna.
Miklu sennilegra er þó, að sagan og frekari rannsóknir muni álykta á hinn veginn, að þetta endemi sýni alvarlegan galla á dómnum. Enda var í engu sýnt fram á það í úrskurðinum, að hnökrarnir í framkvæmdinni hefðu breytt úrslitum kosninganna.
Þegar dómurinn var kveðinn upp benti Þorkell Helgason á, að stjórnlagadómstóll Þýskalands hefði brugðist mildar við stærri ágöllum við kosningar þar í landi, og ekki ógilt niðurstöður þeirra, heldur mælt fyrir um að agallarnir í framkvæmdinni skyldu lagfærðir í framtíðinni.
Niðurstaðan vegna hnökranna í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum 2021 var á endanum sú að endurtaka kosningarnar ekki, alveg hliðstætt því, sem úrskurðað var í Þýskalandi.
Þegar Alþingi tók af skarið með þetta nú var skondið að sjá, að margir þeirra sem stóðu að þessari lausn höfðu samt verið svo innilega sammála ógildingarúrskurðinum um stjórnlagaþingkosningarnar 2010!
![]() |
Mál á hendur Inga fellt niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fávís spyr: Hver var munurinn á stjórnlagaþingi og stjórnlagaráði? Hverju breytti hann um endalok stjórnarskrármálsins?
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 15.6.2022 kl. 12:22
Röng niðurstaða, hafi svo verið, í NV kjördæmi gerir réttan úrskurð Hæstaréttar ekki rangan.
Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 15.6.2022 kl. 14:43
Eins og segir í pistlinum, véfengdi Hæstiréttur ekki úrslit stjórnlagaþingkosningar, heldur úrskurðaði um hnökra á framkvæmdinni.
Meiri hluti Alþingis ákvað því að skipa stjórnlagaráð á sama hátt og gert hafði verið formlega margsinnis síðan 1946, þ. e. að stjórnarskrarnefnd yrði skipuð en notuð röð þeirra sem voru í efstu 25 sætunum í kosnningunum til að skipa ráðið.
Það var mikils virði, því að hvert okkar, sem skipuð voru, töldu umboð sitt komið frá þeim sem kusu okkur í stjórnlagaþingkosningunum, en ekki frá einhverjum þingflokki eins og verið hefur í stjórnarskrárnefndum með þeim afleiðingum að engri þeirra hefur tekist að ná árangri.
Ómar Ragnarsson, 15.6.2022 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.