Aðflugsskilyrðin eru helsti ókostur Akureyrarflugvallar sem varavallar.

Frá Íslandi eru um 1300 kílómetrar til næstu landa með nothæfa millilandaflugvelli. 

Vogar í Færeyjum eru út úr þeirri mynd. 

Á meginlandi Evrópu eru í mesta lagi örfá hundruð kílómetra á milli gnægðar af fullkomnum og stórum völlum. 

Af þessu leiðir, að varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll hér á landi hafa afgerandi þýðingu. 

Reykjavíkurflugvöllur er bráðnauðsynlegur ef vél missir út hreyfil í flugtaki á <Keflavíkurflugvelli í lélegum skilyrðum þar, sem eru oft í þykkri súld og þoku stundum nothæf fyrir flugtak, en ófær fyrir lendingu.

Vegna skjóls frá Reykjanesfjallgarðinum eru veðurskilyrði á Reykjavíkurflugvelli oft betri og stutt að fara til varaflugvallarlendingar, en slíkt sparar líka nauðsynlegt eldsneyti miðað við að fara til Akureyrar eða Egilsstaða. 

Styttra er að fara til Akureyrar, en á móti kemur, að erfitt getur verið að komast þar inn á afli eins hreyfils, vegna hárra fjalla og þrengsla og hindrana af þeirra völdum. 

Á hinn bóginn eru flestir innviðir í þessu öðru stærsta borgarsamfélagi landsins öflugir, þótt dregist hafi úr hömlu að bæta og auka aðstöðuna á flugvellinum sjálfum.  

Egilsstaðavöllur er hins vegar 50 prósent lengra í burtu, svo að valið milli þriggja varaflugvalla hér á landi, Reykjavíkur, Akureyrar og Egilsstaða, má ekki vera minna. 

Og engan þeirra má vanmeta hjá þjóð, sem á allar sínar samgöngur við uumheiminn í aðeins tveimur gerðum þeirra, flugi og siglingum, en er án hinnar þriðju gerðar, landsamgöngunum. 

Enn hallar mikið á Egilsstaðaflugvöll að flestu leyti, brautarlengd, stærð flughlaðs og fleira, sem alltof lengi hefur verið vanrækt.  

 


mbl.is Sneru við vegna slæms skyggnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Viskum ekki gleyma Króknum. Hann hefur þann meginkost að aðeins tæki þrjá og hálfan tíma að aka farþegum suður og aðflugsskilyrði þar eru einhver þau bestu á landinu.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.6.2022 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband