Sagan frá 1941 og 1812 situr enn í Rússum.

Á ferð norrænna bílablaðamanna á nýjum Volvobílum frá Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk 1978 var fróðlegt að bera saman kjör og sýn Rússa á svipaðri breiddargráðu og Ísland saman við íslenska sýn og veruleika. 

Götumyndin í Murmansk 1978 minnti á götumyndina í Reykjavík 1948. Ófullgerðar malargötur, gamlir vörubílar með verkakarla standandi á pöllunum, biðraðir vegna vöruskorts í verslunum og illa frágengin hús. 

Murmansk á svipuðu stigi og Reykjavík 30 árum fyrr og sovéskt alræði með ritskoðun allsráðandi í landi, sem lokaði þegna sína svo mjög inni, að þrjú þúsund manns voru á biðlistum eftir skipsrúmi í hverjum verksmiðjutogara til þess að komast út á sjó, jafnvel án þess  að sjá til lands vikum saman. 

Mikil þrá ríkti til að finna fyrir viðurkenningu norrænu gestanna á því sem þeim var sýnt, og minnti það óneitanlega svolítið á svolítið á fyrirbærið "how do you like Iceland?" heima á Íslandi. 

Rússarnir urðu daprir og hissa þegar við vorum ekki hrifnir, en þó var þar undantekning á, hvað varðaði söfnin í þessari norðlægu hafnarborg. 

Þau fengu Íslendinginn til þess að fyllast minnimáttarkennd í samanburðinum við söfnin og safnaleysið heima. 

Sýn Rússanna á sögu sambúðar þeirra við erlend stórveldi var og er enn sláandi sterk og umhugsunarverð þegar kom að útlistun þeirra á styrjöldum fyrri alda, sem fengu mjög flotta meðhöndlun í þessum söfnum í Murmansk. 

Hugtakið Seinni heimsstyrjöldin sást hvergi nefnt og því síður ártöl hennar, 1939-1945, heldur hét hún "Föðurlandsstyrjöldin mikla 1941-1945."

Afar vel var útfært hvernig Vesturveldin notuðu árin 1939 til 1941 til þess að gera þjóðir Austur-Evrópu að hernaðarlegum bandalagsþjóðum með tilheyrandi þýsku herliði plöntuðu niður í hverju landi. 

Og 22.júní 1941 rufu Þjóðverjar griðasamning sinn við Sovétríkin í stærstu hernaðarinnrás mannkynssögunnar þar sem megin markmiðið var að ná yfirráðum yfir Úkraínu og olíulindum, kornforðabúi og öðrum auðlindum þar og í Kákasuslýðveldunum við Kaspíahaf. 

1978 var auðvelt að hamra á þessari sögu í Rússlandi og er það gert enn ótæpilega, enda enn um yfirráð yfir sömu slóðum og 1941 til 1945 að tefla. 

Fyrir réttum 80 árum, sumarið 1942, stóð yfir stórsókn Öxulveldanna um Ukraínu austur til Bakú. 

Og enn eru slóðir innrásar Napóleons 1812 sýndar skilmerkilega ásamt því að fjalla um helstu orrustur þeirrar innrásar.  

 


mbl.is Vesturlönd ætli að ráðast á Rússland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er rangt farið með ýmsar sögulegar staðreyndir í þessum pistli.  Svovíet réðist inn í bæði Pólland og Finnland fyrir innrás þjóðverja.  Þeir lögðu undir sig eystrasaltsríkini í kjölfar styrjaldarinnar.  Það voru ekki vesturveldin sem mynduðu bandalag með austur evrópuríkjum heldur Þýskaland og Ítalíu og urðu þau þar með andstæðingar vesturlanda

Sovíetið lagði undir sig alla austur Evrópu eftir stríð og þröngvuðu kommúnisma upp á þær þjóði.  Þær þjóðir sem reyndu að komast undan áþjanini voru brotnar á bak aftur með innrásarher, Ungverjaland 1956, Tékkóslóvakía 1968.

Árásargirni rússa er hvergi nærri lokið, Georgía, Chesni og nú Úkraína.  Á meðan hefur NATO ekki staðið fyrir hernaði í Evröpu frá 1945 ef frá er talin loftárásir á fjöldamorrðinga í Serbíu

Svo hver er það sem er að verja sig?

Bjarni (IP-tala skráð) 12.7.2022 kl. 18:06

2 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það er ekki rétt Ómar, sem þú heldur fram, að það hafi verið stórsókn Öxulveldanna sem stóð yfir um Úkraínu sumarið 1942.  

Öxulveldin samanstóðu af Þýzkalandi, Ítaliu og Japan.  Hvorki Ítalía né Japan tóku þátt í þessari herför, né Barbarossa innrás Þjóðverja yfir höfuð.      

Daníel Sigurðsson, 12.7.2022 kl. 19:18

3 Smámynd: Hörður Þormar

Burt séð frá staðreyndum þá hefur Rússum alltaf, kynslóðum saman, verið innprentað að þeir séu fórnarlömb vestrænna innrása og ásælni.

Mótmælin í Belarús síðastl. sumar bentu til að unga kynslóðin þar væri orðin upplýstari og sjálfstæðari í hugsun heldur en sú eldri. Þessi mótmæli voru barin niður með aðstoð Pútíns enda mun hann hafa óttast að þau breiddust til Rússlands. Kannski áttu þau einhvern þátt í ákvörðun hans um að ráðast inn í Úkraínu. 

Hörður Þormar, 12.7.2022 kl. 22:21

4 Smámynd: Hörður Þormar

Daníel Sigurðsson.

Þýskaland og Ítalía voru oft nefnd Öxulveldin eða Möndulveldin í síðari heimsstyrjöldinni af því að þau voru "öxull aða möndull" Evrópu. Það segir sig sjálft að Japan var þar ekki meðtalið.

Ítalir tóku lítinn þátt í Rússlandsstríðinu, þó munu þeir hafa sent einhverjar hersveitir þangað sem unnu ekki mikil afrek.

Hörður Þormar, 12.7.2022 kl. 22:53

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt í pistlinum sé greint frá því hvaða augum Rússar líta á sögu sína, er þar með ekki sagt að samsinnt sé sjónarhorni þeirra og áliti í einu og öll. 

Einungis er verið að lýsa því hvernig þeir hafa í áttatíu ár matreitt söguna ofan í sig sjálfa. 

Þess vegna sleppa þeir alveg að geta áranna 1939 til 1942, eins og stakk svo mjög í augun í söfnunum þeirra 1978. 

Það var margþjóða her, sem réðst inn í Sovétríkin í júní 1941, með til dæmis bæði ítali, Rúmena og norska nasista innanborðs.  

Lélegar rúmenskar hersveitir áttu stóran þátt í ósigrinum við Stalíngrad. 

Ómar Ragnarsson, 13.7.2022 kl. 00:18

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í augum Hitlers og Mussolini var það "ðxullinn Berlín-Róm" sem myndaði ðxulveldin áður en Japan gerði nokkra samninga við hina evrópsku leiðtoga. Aldrei var talað um Tokyo sem hluta af öxlinum, einungis Berlín og Róm. 

Japan gerðist aðili að svonefndu þríveldabandalagi, "triparti" í október 1940, og í því var einungis ákvæði um að þessi þríveldi skuldbyndu sig aðeins til að koma hvert öðru til liðs, ef á þau væru ráðist. 

Í Barbarossa 1941 réðust Þjóðverjar á Sovétríkin, en ekki Sovétríkin á Þjóðverja, svo að Japanir voru ekkert skuldbundnir til þáttöku í því stríði, heldur gerðu griðasamning við Sovétríkin, sem var haldinn alveg fram í ágúst 1945.  

Ómar Ragnarsson, 13.7.2022 kl. 00:30

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðeins nákvæmara: Tripartite Pact bandalagið var stofnað 27. september 2940. 

Ómar Ragnarsson, 13.7.2022 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband