20.9.2022 | 13:19
Nýjar upplýsingar um umhverfisáhrif af vindmyllum kalla á rannsóknir.
Vindmyllur af þeirri stærð og umfangi, sem nú er að birtast í stórbrotnum áætlunum um risastóra vinnmyllugarða, eru nýjung í orkumálum hér á landi.
Á kynningarfundum um áform í Dalabyggð mærðu vindmyllufrömuðir mjög þessa tegund orkuöflunar og gerðu lítið úr gagnrýni á hávaða og sjónmengun.
Sögðu þeir að hávaðinn væri nær enginn og að hann væri ekki meiri en af kæliskápum!
Birtar voru myndir af vindmyllugörðum, sem áttu að sýna, að sjonmengun væri nær engin.
Meðal þeirra voru myndir teknar lóðrétt ofan frá niður á myllurnar svo að spaðarnir og möstrin féllu inn í umhverfið!
Með auknum umsvifum á þessu sviði erlendis og stækkandi myllum, eru að koma fram ný atriði varðandi umhverfisáhrif þeirra sem full ástæða er til að rannsaka rækilega áður en rokið verði í það með miklum látum að reisa risavaxna vindmyllugarða bæði á hafinu við landið og um allt land, þar sem orkuframleiðslan yrði margföld núverandi orkuframleiðsla hér á landi.
Er rétt að benda á afar athyglisverðan bloggpistil Gunnars Heiðarssonar um ný hrollvekandi atriði varðandi vindmylluæðið, sem brýn nauðsyn er að rannsaka til hlítar áður en vindbarónum, - sbr. nýyrðið sægreifar, - verði gefinn laus taumurinn hér á landi.
Kynna áform um vindorkuver | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hrollvekjandi atriði eða stormur í vatnsglasi. Eru plastagnirnar ógurlegu fleiri en þegar flíspeysa er viðruð eða strandveiðibáti siglt? Er gasið hræðilega sem notað er í rofana að sleppa í því magni að það valdi meiri hlýnun en garðsláttur á síðdegi eða viðrekstur fjölskyldu eftir rúgbrauðsát? Er geislavirknin (hvaðan sem hún á að koma þegar ekkert er í vindmillunum, ferlinu eða notkun olíunnar sem gefur frá sér geislavirk efni) meiri en af venjulegri steinsteypu eða reykskynjara?
Eigum við þá ekki einnig að spyrja fleiri spurninga um varasöm efni? Eru epli stór hættuleg vegna þess að þau innihalda efni sem breytast í blásýru við meltingu? Og kartöflur vegna innihalds eiturefnisins sólanín? Er svifryk úr grjóti, gúmmíi og tjöru vegna slits frá reiðhjólum eins heilsuspillandi og það hljómar? Plastagnir finnast í öllum fiski, hormónar í öllu kjöti og bakteríur á öllu káli. Það er nokkuð ljóst að við lifum þetta ekki af.
Magntölurnar eru þekktar, en með því að sleppa þeim má láta flest virðast stór hættulegt eða mjög skaðlegt umhverfinu.
Vagn (IP-tala skráð) 20.9.2022 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.