27.11.2022 | 22:32
Ánægjulegt að eiga leið um Keflavík í gær.
Uppákomur eins og þær að aka um Keflavík þessa dagana og aka alveg óvænt inn í hvíta birtu og vera líkt og kominn mörg þúsund kílómetra burtu til Norður-Ameríku lífga upp skammdegið í mörgum skilningi.
Ekki er aðeins, að gervisnjór auki við birtu aðventunnar og jólanna, heldur er líka ánægjulegt að þetta skuli vera hluti af vaxandi vinsældum Íslands sem vettvangur í alþjóðlegri kvikmyndagerð.
Eitt af því sem þarf að huga að við tökur kvikmynda og ljósmynda er að ef bílar sjást, séu þeir ekki af vitlausum bílum miðað við tíma og stað. Skulu nefnd tvö dæmi.
Á timabili stóð undir ljósmynd á ljósmyndasafni í Reykjavík, sem tekin var við Leifsstyttunni í Reykjavík, að hún væri tekin árið 1931.
Myndin var góð heimild um þennan stað eins og hann var fyrir stríð, en eitt stakk þó í stúf, Ford fólksbíll af árgerð 1937 !
Annað dæmi: Í einni af ágætum heimildarbókum um 20. öldina á Íslandi var ljósmynd, og stóð undir henni að hún væri af komu Bandaríkjahers til Íslands 1951.
Allt gott um það að segja, en á myndinni sást glytta í Ford fólksbíl árgerð 1959 !
Fyrir bíladellukalla lekur stemningin svolítið niður þegar svona sést.
Að minnsta kosti gerðist það í einni af myndum Wooddy Allens hér í gamla daga, þar sem eitt atriðið átti að gerast árið 1940.
Allt í góðu með það þangað sást bregða fyrir bíl af 1942 árgerð!
Keflavík verður að Alaska | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég man eftir kúrekamynd sem átti að gerast fyrir 1900 að slóð eftir þrýstilofts flugvél byggist upp á himninum frá vinstri til hægri og glitti í vélna á tímabili. Þessi upplifun er það eina sem ég man úr myndinni
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 28.11.2022 kl. 06:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.