Ógleymanlegur og óviðjafnanlegur töframaður með boltann. "Skóreimamarkið"!

Vel má vera að Ólafur Stefánsson sé besti handboltamaður, sem Íslendingar hafa eignast. 

Engum gleymist þegar leikur liðs hans í Evrópukeppni snerist allur um hann sem leikstjórnanda í krafti alhliða yfirburða á öllum sviðum leiksins í úrslitaleik. 

En allir atvinnumenn Íslands í handbolta hafa hins vegar átt þann fyrsta, Geir Hallsteinsson, sem heillaði alla upp úr skónum, líkt og fyrsti íslensnki atvinnumaðurinn í fótbolta, Albert Guðmundsson, hafði gert um miðja síðustu öld. 

Í erlendum fjölmiðlum var talað um Albert sem "hvítu perluna"; galdrameistarann, sem gæti látið boltann gera hvað sem var, nema kannski ekki talað. 

Svipaður galdrameistari með handboltann var Geir Hallsteinsson og hefur jafnoki hans hvað snertir ævintýralega leikni með boltann ekki sést hér á landi og þótt víðar væri leitað. 

Hjá honum blandaðist skottækni og sendingatækni í eina heild, þannig að hann gat til dæmis byrjað á skoti en breytt hreyfingu handleggs og handar úr skothreyfingu í sendingarhreyfingu, sem gat sent boltann jafnvel í hvaða átt sem var!

Hreyfingartæknin gat jafnvel orðið enn flóknari, og er hið einstæða "skóreimamark" lærisveins hans, Gunnars Einarssonar, gott dæmi um það. 

Eftir að hafa æft þetta bragð vel, beittu þeir félagar því einu sinni á eftirfarandi hátt:

Geir losaði um aðra skóreimina svo lítið bar á, og þegar hann skömmu síðar fékk boltann vinstra megin á vellinum , stansaði hann snöggt, beygði sig niður á annað hnéð, kominn í skotfæri, og byrjaði eldsnöggt á því að reima skóinn með vinstri hendi, en hóf um leið skot á markið með hægri hendi. 

En í stað þess að boltinn þyti í markið, breyttist skothreyfingin á þann veg að boltinn þaut aftur fyrir hann í átt til Gunnars Einarssonar, sem kom hlaupandi á fullri ferð aftan að Geir, greip boltann en hljóp um leið með hann að Geir, stökk upp á bak hans og í beinu framhaldi enn hærra upp og lét þaðan skot vaða á markið úr þeirri stððu, að engin hávörn gat varist því. 

Markvörðurinn var kominn í vitlaust horn eftir að hafa reynt að verja skot Geirs, sem aldrei kom, og niðurstaðan var eina "skóreimamark" veraldar, fyrr og siðar! 

Allt ætlaði um koll að keyra í salnum við þetta óvænta snilldarmark, sem rifist var um lengi á eftir. 

Síðuhafa minnir að það hafi verið dæmt gilt á þeim forsendum að dómarinn gat ekki fundið neina grein í handboltalögunum, sem bannaði þetta. 

Það kom svo sem ekki að sök, því að ekki er vitað að þetta snilldarbragð hafi nokkurn tíma verið leikið aftur. 

Hvað myndu menn segja í dag, ef einhverjum tækist að leika þetta eftir?

Leika þetta eftir?  Nei, varla. Enn hefur handboltamaður með snilld af þessu tagi fundist. 

Geir naut sín vel í samvinnu við leikmenn af öllu tagi og rómuð var til dæmis samvinna hans við kröftugar og öflugar skyttur á borð við Jón Hjaltalín Magnússon og Axel Axelsson. 

Dýrleg var samvinna Geirs og Jóns í landsleikjum og þar var sem dæmi iðkað stytt afbrigði af skóreimamarkinu, sem fólst í því, að Geir gerði atrennu að vörninni og byrjaði á skoti, sem fór í þveröfuga átt, aftur fyrir hann, og rataði þar í hendur Jóns Hjaltalíns, sem lyfti sér upp og skoraði með mestu þrumuskotum þess tíma, en Jón hafði þá hlaupið á eftir Geir til að fá þessa óvæntu sendingu. 

  


mbl.is Geir heiðraður af FH í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband