31.12.2022 | 10:53
Tvöfalt fleiri banaslys á vélknúnum hjólum en bílum. Meginástæða:ekki edrú.
Fyrir næstum sjö árum hófst skipuleg könnun á þessari bloggsíðu á notkun mismunandi farartækja, ekki aðeins hvað snertir hagkvæmni og orkuskipti, heldur einnig slysatíðni.
Hagkvæmnin og orkuskiptin skiluðu beinum árangri og niðrustöðu, en varðandi slysahættu var einfaldlega leitað upplýsinga á netinu um tölur erlendis.
Eitt stakk fyrst í augu: Miðað við sambærilega notkun voru banaslys og alvarleg slys á vélhjólum tvöfalt tíðari en á bílum.
En það sagði ekki alla sögu. Fyrir hreina tilviljun hafði einkanúmerið EDRÚ verið á Honda PCX léttbifhjólinu sem mest hefur verið ekið af þremur vélhjólum, rafreiðhjóli, rafknúnu léttbifhjóli (rafvespu) og Hondunni og þegar gúglað var um áhættu, kom í ljós, að megnið af lífshættumismuninum stafaði af því að rúmlega helmingur allra banaslysa var vegna ölvunar/fíkniefna, en aðeins um 15 prósent bílslysa.
Ef síðan var bætt við næstu slysavörnum, skoraði skortur á notkun hlífðarhjálms hátt, en næst á eftir því komu skortur á aukalegri aðgæslu, ökklavörn, hnjávörn og handavörn.
Ef ofangreind atriði voru ævinlega með í för, virtist notkun bíla og vélhjóla skora svipað hvað snerti tíðni lífshættulegra slysa.
Rafhlaupahjólin hafa ekki komið við sögu í þessari ítarlegu könnun bloggsíðunnar, einfaldlega vegna þess, að síðuhafi hefur aldrei farið svo mikið sem einn metra á hlaupahjólum og fer ekki að byrja á því úr þessu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.