5.1.2023 | 20:57
"Nú köttum við allt niður!" "Nú köttum við allt niður!" "Nú köttum við allt niður!"
Svona hljóðar ein af nýjustu enskuskotnu auglýsingunni í sjónvarpinu, þar sem manni skilst að verið sé með ofangreindri upphrópun að lækka verð á vörum auglýsandans, sem virðist standa í sí þeirri trú, að eina leiðin til að koma skilaboðum til hugsanlegra kaupenda sé að forðast að nota jafn lítilfjörlegt tungumál og íslenskuna.
Hann er að reyna að "fókusera á að kópa við tjallendsið" svo að notað sé orðalag, sem var notað fyrr í vetur.
Það orðalag var að vísu notað í beinni útsendingu, svo að RÚV, sem hefur þá höfuðskyldu að lðgum að vernda og hlúa að íslenskri tungu og menningu, kom engum vörnum við.
Öðru máli gegnir um auglýsingar í "auglýsingaslottinu" eins og það heitir víst nú orðið, þar sem lesinn texti fer um margar hendur á leið til útsendingar.
Að ekki sé nú talað um að upphrópunin um "köttið" er þulin dag eftir dag.
Í fréttum í kvöld var minnst á niðurskurð á fjárveitingu til vegar yfir Öxi, en næst verður kannski talað um "kött" á því "slotti" í fjárlögum, sem eyrnamerkt er þeirri vegagerð.
P.S. Nánari athugun leiðir í ljós, að notkun ensku sagnarinnar "to cut" er aðeins lítill hluti af því sem er og hefur verið í gangi á þessu sviði málsins.
Í stað þess að nefna aðeins hugsanlega notkun varðandi Öxarveg, má nefnilega benda á þá enskunotkun sem þegar er búið að festa í orðfæri kaupahéðna og gæti hljóðað svo í auglýsingu:
Við köttum allt niður í taxfrée í outlettinu. Fullnaðarsigur enskunnar virðist í nánd.
Athugasemdir
Hva, hefurðu aldrei kattað neitt?
Ásgrímur Hartmannsson, 5.1.2023 kl. 21:53
Sammála Ómari, það fór líka hrollur um mig þegar ég sá þessa auglýsingu frá Húsasmiðjunni fyrst nú í haust, ekkert flott né sniðugt við að taka svona stórfurðulega til máls í íslenskri auglýsingu, nema síður sé.
Alfreð K, 6.1.2023 kl. 02:10
Auglýsingin virðist hafa skilað tilætluðum árangri. Allavega tóku einhverjir eftir henni. En tilgangur auglýsinga er að ná athygli en ekki kenna Íslensku.
Vagn (IP-tala skráð) 6.1.2023 kl. 08:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.