1.2.2023 | 13:42
Útsýnið í Hjalladal við Kárahnjúka var metið á 0 krónur.
Í deilunum vegna Kárahnjúkavirkjunar fóru andmælendur virkjunarinnar fram á að beitt yrði svonefndu "skilyrtu verðmætamati" contingent evaluation) við mat á umhverfisáhrifum. Því var hafnað og sagt að slíkt væri ekki hægt.
Sú fullyrðing þáverandi valdamanna var röng, því að þróun skilyrts verðmætamats hefur verið framkvæmd víða um heim.
Þótt farið væri til Noregs til að ræða við Staale Navrud við háskólann í Ási, einn helsta sérfræðing heims á þessu sviði og þar að auki skoðaður Sauðafjörður á suðvesturströnd Noregs sem dæmi um svæði, þar sem svona mati var beitt, var talað fyrir daufum eyrum hér á landi.
Skilyrt verðmætamat var notað í Sauðafirði (Sauda) þegar teknar voru ákvarðanir um virkjanir þar, og meðal atriða sem skiptu máli var útsýni, sem metið var til fjár.
En skilningsleysi íslenskra ráðamanna var algert varðandi náttúruundrin og útsýnið í Hjalladal, þar sem miðlunarlon Kárahnjúkavirkjunar átti að koma.
Á sama tíma var hins vegar útsýnið úr háhýsunum, sem verið var að reisa við Skúlagötu, metið til allt að tuga milljóna króna í hverri íbúð fyrir sig, og samanlagt útsýni í blokkunum til milljarða króna.
Útsýnið í Hjalladal, sem fórnað var, er gersamlega óafturkræft, þar á meðal stór hluti Kringilsárrana, sem friðun var létt af.
Nú fyllist þessi dalur hratt upp af aurseti, sem um síðir mun gera virkjunina að mestu afllausa.
Keyptu þakíbúð á 416 milljónir króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.