Er flug með loftbelg toppurinn?

Alllöngu fyrir flug Wrightbræðra í loftfari, sem var þyngra en loft 1903 höfðu menn flogið í loftbelgjum, sem gátu lyft sér frá jörðu í krafti þess að þeir voru léttari en loftið, sem þeir flugu í. 

Þegar komið var fram á 20. öldina þróuðu Þjóðverjar nógu stóra loftbelgi til þess að þeir gætu borið sprengiefni og gert loftárásir. 

Lofttegundir á borð við helíum, sem eru léttari en andrúmsloftið, gátu lyft risastórum loftbelgjum, sem voru svo stórir, að hægt var að varpa sprengjum úr þeim, og í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru gerðar fyrstu nútíma loftárásirnar bæði úr Zeppelin belgjum og Gotha sprengjuflugvélum, sem vörpuðu sprengjum yfir suðausturhluta Englands. 

Á milli heimsstyrjaldanna þróuðust bæði flugvélar og loftbelgir hratt, og 1937 var svo komið að hægt var að fljúga reglubundið yfir Atlantshafið á Zeppelin, og flaug eitt slíkt risa loftfar yfir Reykjavík á leið yfir hafið.  

En öld loftskipanna lauk sviplega 1937 þegar loftskipið Hindenburg fórst í eldi við Lakehurst í Bandaríkjunumm.   

Síðan þá hefur þróun loftbelgja greinst í tvennt; annars vegar belgir sem haldast á lofti fyrir lyftikraft léttra lofttegunda inni í þeim, en hins vegar belgir, sem eru opnir að neðan og með hangandi farþegakörfu.  

Belgurinn fær lyftikraftinn frá gasknúnum hitara, sem blæs léttu, heitu lofti upp í belginn í gegnum opið neðan á honum, en í stað lárétts skrúfukrafts, sem knýr belgi á borð við Zeppelin, er belgurinn látinn berast með vindinum. 

Og þar erum við komin að aðalmuninum á svona loftfari og öðrum svipuðum, getunni til að svífa gersamlega hljóðlaust ef slökkt er á gasknúnu loftdælunni. 

Síðuhafi hefur prófað flesta tegundir flugs, en tvær flugferðir bera af hvað snertir þá einstæðu upplifun að geta staðið eða setið í farþegakörfunni og líða algerlega hljóðlaust í flugferð, því að vegna þess að belgurinn berst með vindinum, er alltaf logn í körfunni. 

Í svifflugu í afllausu svifi heyrist alltaf gnauð vegna hraða flugunnar gegnum loftið, og enda þótt hljóðlítið sé þegar hangið er í opinni fallhlíf, er kyrrðin ekki eins alger og þegar staðið er í körfu loftbelgs sem helst á lofti fyrir krafti innilokaðs heits lofts. 

1986 var svifið afllaust á þennan hátt meðfram Bústaðavegi alla leið austur í Blesugróf og hægt að spjalla við fólk, sem var í sólbaði á svölum húsanna. Heit hafgola inn Fossvogsdalinn sá um að bera lofbelginn svona langa leið og hjálpa til að halda honum á lofti.  


mbl.is Eiga fátt sameiginlegt með kínverska loftbelgnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband