Enn lifir fólk, sem man þá tíð þegar íbúar Reykjavíkur voru 40 þúsund.

Íbúar Reykjavíkur fóru yfir 40 þúsund í kringum stríðsbyrjun 1940. Þetta var nokkrum árum áður en fyrstu umferðarljósin voru sett upp, Lækjargatan breikkuð og verið að byggja upp hverfi á Rauðarárholti. 

Aðal strætisvagnaleiðin bar heitið Njálsgata-Gunnarsbraut. Í vesturbænum var heitið "Sólvellir". Á þessum leiðum var svo hæg og stutt yfirferð innan leyfilegs hámarkshraða, 25 km/klst, að þegar ný leið kom áratug síðar fékk hún heitið "Austurbær-Vesturbær hraðferð."

Hún lá alla leið vestur í Skjól og austur á Nóatún og þótti vel í lagt með hraði og yfirferð.  

Í Kringlumýri var samfellt mýra- og móasvæði notað undir kartöflugarða bæjarbúa. Tvö af bíóhúsum bæjarins voru í hermannabröggum, stærsta íþróttahúsið í hermannabragga og á Hótel Borg var stærsti veitingastaður og skemmtistaður Reykjavíkur. 

Hvorki Austurbæjarbíó né Stjörnubíó voru til, og enn áttu eftir að líða nær tveir áratugir þar til að Laugardalsvöllurinn yrði byggður. 

Iðnó var eina leikhúsið. Í einu húsanna við Austurstræti var eina lyfta bæjarins og þótti ungviðinu það mikið tækniundur. 

 

Nær allir íþróttaviðburðir utan húss fóru fram á Melavellinum við Suðurgötu, sem var ófullkominn malarvöllur umgirtur bárujárnsgirðingu. 

Enn var "flaggað fyrir kónginum" og "Den forenede dampskibs selskap" hélt uppi reglubundnum ferðum á farþegaskipinu "Dronning Alexandrine" milli Danmerkur, Færeyja og Íslands.

Bæjarbragurinn bar keim stærðinni; það þekktu allir alla.  

Enn eru á lífi þúsundir fólks, sem muna þessa tíma. Það er ekki lengra síðan. 


mbl.is Kópavogsbúar orðnir 40 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Mjög skemmtileg og fróðleg samantekt í þessum pistli. Ég held að unglingar nú til dags geri sér ekki grein fyrir því hvaða ánægju það veitti að alast upp í litlum plássum án tækni nútímans, og börn að leik úti sumar, vor, vetur og haust en ekki inni í tölvum. 

Einnig er undarlegt að um 1940 var þéttasta byggðin í gamla vesturbænum nálægt tjörninni og strjálbýlt annarsstaðar, en í dag hefur borgin stækkað á alla kanta. Það er ekki lengra síðan. Ég man þann Kópavog sem var lítil og skemmtilegur um 1980, en heyrði sögurnar sem amma sagði, þegar þau leigðu í Reykjavík á stríðsárunum. Amma saknaði mjög Reykjavíkur þegar þau fluttu til Kópavogs um 1950, þá var hann eins og sveit, skorti kalt vatn til dæmis, en rafmagn var komið.

Þá áttu krakkar auðvelt með að kynnast öðrum krökkum, og leikið var úti í snjónum og ekki kvartað undan kulda. 

Eina leiðin fyrir börn til að kynnast því hvernig þetta var er að fara útí sveit þar sem nútímatæknin er ekki búin að ryðja burt þannig lífsháttum.

Hraði nútímans er orðinn of mikill.

Ingólfur Sigurðsson, 24.3.2023 kl. 18:57

2 identicon

Nú ert þú einhvrjum árum eldri en ég sen mér leikur forvitni á að vita hvort Suðurlandsbraut hafi á sínum tíma verið stofnæð úr borginni áður en Miklabraut varð til.  Ei hverjar úr þínum viskubrunni þaðan að hafa?  Suðurlandsbraut hlýtur að hafa fengið nafn sitt af einhverri ástæðu.

Bjarni (IP-tala skráð) 25.3.2023 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband