18.5.2023 | 13:39
Herfileg reynsla af stríðsskaðabótum.
Reynslan af stríðsskaðabótum eftir stórstríð hefur hingað til verið þeim mun verri sem tjónið hefur verið meira.
Fyrri heimsstyrjöldin átti að verða "stríðið til að binda enda á ðll stríð", en snerist upp í andhverfu sína og mannskæðustu styrjöld allra tíma.
Rökin fyrir þessum skaðabótum voru aðallega tvenn: Sigurvegararnir dæmdu og útmáluðu Þjóðverja og sakfelldu fyrir það að hafa einir borið ábyrgð á styrjöldinni, og ekki síður sú staðreynd, að stríðið var eingöngu háð á landi Frakka og Belga á vesturvígstððvunum og beint tjón því eingöngu þar, en ekki í Þýskalandi.
Stíðsskaðabæturnar ollu í fyrstu hruni efnahagslífsins í Þýskalandi og síðar efni fyrir gróðrastíu öfgaflokka á borð við nasista og grundvöllur fyrir valdatöku og hefndarstríði Hitlers.
Eftir Seinni heimsstyrjöldina hernámu Sovétmenn Austur-Evrópu og margsugu þjóðir þar, meðal annars með flytja stórverðmæti á borð við heilu bílaverksmiðjurnar austur til Rússlands.
Austur-Þýskaland var svelt af hráefnum og því ætlað að verða vanþróað landbúnaðarríki.
Vesturveldin fóru þveröfugt að og höfnuðu hefndar- og stíðsskaðabótaleiðinni alfarið, en fóru í staðinn út í mestu efnahagssaðstoð allra tíma með Marshallaðstoðinni.
Evrópuráðið 1949 var eitt af mörgum dæmum þess að í stað hefndaraðgerða yrði skaplegra að koma á friðsamlegri sambúð í álfunni á lýðræðislegum mannréttindagrundvelli.
Krafa Úkraínumanna um tröllauknar stríðsskaðabætur eru skiljanlegar, rétt eins og krafa Frakka var í Versalasamningunum 1919. Í báðum tilfellum varð tjónið að mestu hjá þessum tveimur þjóðum.
En hefndarleið Frakka reyndist herfilega og í ljósi þess að nú ráða Rússar yfir gereyðingar kjarnorkuvopnum virðist ansi mikil bjartsýni fólgin í því að reyna öðru sinni stríðskaðabótaleiðina á fullu.
Þótt Finnar hafi greitt háar stríðsskaðabætur til fulls eftir 1945 var sérstaða þeirra sú, að þeir höfðu veðjað á rangan hest í stríðinu og ef þeir ætluðu að halda sjálfstæði, var ekki annað í boði en að beygja sig í þessu máli.
Óraunhæfar tjónakröfur á Rússa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Varðandi Finna ber að geta þess að rússar réðust að fyrra bragði á Finnland og lögðu undir sig finnsk land, sömuleiðis lagði rússaruslið undir sig Balkanlöndin, Bessadrabíu og störan hluta Pólands. Ssinna stríð Finna við sovíetið miðaði eingöng að því að endurheimta stolið land.
Bjarni (IP-tala skráð) 18.5.2023 kl. 14:13
Hagfræði Hitlers var einföld
framleiðum brauð og byssur
Gleymist oft að þýzka þjóðin svalt heilu hungri
Margir vildu frekar styðja Hitler en kommúnistana
og töldu sig vel geta "stýrt" litla kallinum ef hann færi að ybba sig
Grímur Kjartansson, 18.5.2023 kl. 20:45
Stríðsskaðabæturnar ollu ekki hruni efnahagslífsins í Þýskalandi og urðu síðar efni fyrir gróðrarstíu öfgaflokka á borð við nasista og grundvöllur fyrir valdatöku og hefndarstríði Hitlers. Það var aðallega gríðarlega mikil lántaka Þýska ríkisins fyrir stríð hjá erlendum og innlendum lánveitendum. Lántaka sem var margföld upphæð skaðabótanna og ein sér hefði orsakað hrun þó Þjóðverjar hefðu sloppið við greiðslu skaðabóta. Og efnahagskreppa, sem kölluð hefur verið kreppan mikla og tengdist ekkert stríðsskaðabótunum, varð ekki til að bæta ástandið.
Reynslan varð til þess að Vesturveldin höfnuðu ekki hefndar- og stríðsskaðabótaleiðinni eftir seinna stríð. Þó farið væri út í mestu efnahagsaðstoð allra tíma með Marshallaðstoðinni þá var Þjóðverjum samt gert að greiða miklar stríðsskaðabætur. Við fengum greiðslur frá Þjóðverjum. Og enn eru ríki að krefja Þjóðverja um bætur, Pólverjar og Grikkir til dæmis.
Reynslan af stríðsskaðabótum eftir stórstríð hefur hingað til ekki verið verri en tjónið sem þeim var ætlað að bæta að einhverju leyti fyrir. Nema menn teigi sig mjög langt í því að skrifa ótengd áföll, atburði, efnahagsklúður og kreppur á stríðsskaðabæturnar.
Vagn (IP-tala skráð) 18.5.2023 kl. 21:48
Grímur Kjartansson, yfirleitt er talað um að sovézka þjóðin hafi soltið undir stjórn Stalíns, ekki það sama gerðist undir stjórn Hitlers. Í Wikipediu má lesa um líf og störf Adolfs Hitler. Þar kemur fram að eftir að Hitler komst til valda stóð hann fyrir gífurlegri uppbyggingu. Atvinnuleysi minnkaði mjög. Þýzka þjóðin svalt ekki undir stjórn Hitlers. Það var ekki fyrren stríðið byrjaði sem vopnaframleiðsla varð mikilvægari en nauðsynjar fyrir fólki.
Ég á bók sem var skrifuð um 1935 af Íslendingi sem ferðaðist víða um lönd. Þar er því lýst hvernig Þjóðverjar höfðu það miklu betra en flestar þjóðir og hámenning blómstraði, allt var glæsilegt. Höfundurinn tekur þó fram að hann hafi áhyggjur af stjórnarfari og minnihlutahópum, þannig að ekki hefur hann verið aðdáandi nazistanna, heldur víðförull Íslendingur sem ekki vissi að stríð myndi þarna byrja.
Lífskjör voru almennt slök á þessum tíma í mörgum löndum. Það er almennt viðurkennt að Hitler kom hjólum efnahagslífsins í gang í Þýzkalandi þegar hann komst til valda.
Þegar menn hafa logið að sér og öðrum um áraraðir, aldaraðir, kemur sannleikurinn loksins í ljós og fólk kýs bjargvættinn.
Ingólfur Sigurðsson, 18.5.2023 kl. 23:59
Vagn, um stríðsskaðabæturnar. Ég lærði það í menntaskóla að þær hafi verið eitt af mörgu sem var undanfari seinni heimsstyrjaldarinnar.
Það er margt til í því sem þú skrifar að ástæðurnar voru margar og ekki rétt að einfalda hlutina. En að neita því að stríðsskaðabæturnar hafi haft þessi áhrif er vafasamt.
Jafnvel ef það er rétt sem þú heldur fram stendur eitt eftir: Hitler notaði þær sem afsökun til að fá fylgi, því alveg eins og áróðurinn um allt allt væri gyðingum að kenna virkuðu þessi öskur á fjöldafundunum hans einsog vítamínsprauta á fólk, og það kaus hann útaf þessu meðal annars í stórum stíl
Fólk vill einfaldar útskýringar. Þetta var einföld útskýring sem jók fylgi hans.
Á sama hátt öskra stjórnmálamenn í dag að allt sé miðaldra og gömlum körlum að kenna, þjóðernissinnum og feitu fólki.
Minnihlutahóparnir eru aðrir. Þetta eru hataðir minnihlutahópar núna.
Ingólfur Sigurðsson, 19.5.2023 kl. 00:05
Vígbúnaðarkapphlaup og kröfur um lönd og hernaðaraðstöðu á geapólitískum forsendum hafa verið ær og kýr þjóða um aldir og ævinlega réttlættar með svonefndum öryggishagsmunum og lýst með orðunum "fyrirbyggjandi aðgerðir."
Bandaríkin kröfðust þess 1962 að Sovétmenn settu ekki upp eldflaugaskotpalla á Kúbu vegna þess hve stutt var þaðan til skotmarka í Bandríkjunum.
Stalín krafðist tilfærslu landamæranna við Finnland 1939 með þeim rökum að þau væru alltof nálægt Leningrad, og þeir vildu líka láta færa landamærin til vestur af Murmansk af svipaðri ástæðu.
Ómar Ragnarsson, 19.5.2023 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.