25.6.2023 | 20:03
Hvað eru margir "stökkpallar" á íslenskum brúm?
Í hundruðum ferða um íslenska vegakerfið undanfarna áratugi hafa stungið í augu handrið á brúm, sem eru þannig hönnuð, að lendi bíll á enda þeirra af einhverjum ástæðum, ;liggja handriðin frá jörðu og hækka inn á brúna á þann hátt, að þau virka eins og stökkpallur á bílana, en það var einmitt orðalagið, sem lýst hefur verið í fréttum af því þegar bíll kastaðist út í Markarfljót af einu slíku handriði.
Auðvitað eiga bílar ekki að koma að slíkum brúarendum á of miklum hraða eða að bílstjórarnir hafi dottað við stýrið eða fipast og lent á riðinu.
En mistækum bílstjórum verður seint útrýmt með orðum einum eða; lögmál Murhpys lætur ekki að sér hæða.
Það, að vegurinn beggja vegna að brúnni sé þráðbeinn á löngum köflum gerir hann ekki hættuminni, heldur er þessi langi beini kafli til þess fallinn að bílstjórar dotti við aksturinn.
En það væri ekki úr vegi að rannsaka sérstaklega tíðni slysa og óhapppa á íslenskum brúarendum og gera þá hættuminni en nú er.
Bifreið kastaðist út í Markarfljót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar. Þessi útfærsla var gerð eftir að eldri útfærsla reyndist gjörn á að rekast inn í bílinn þegar ekið var á enda brúarhandriðs, Gat verið verulega óþægilegt fyrir farþega frammí.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 26.6.2023 kl. 09:38
Endi brúarhandriðs þarf ekki endilega að vera eins og spjótsoddur í laginu.
Ómar Ragnarsson, 26.6.2023 kl. 10:55
Árið 1987 varð banaslys við brúarenda Árgerðisbrúar við Dalvík. Þar þræddist vegriðið í gegnum bílinn með þessum hörmulegu afleiðingum. Ég hygg að eftir það slys hafi Vegagerðin farið að fella vegriðsendan ofan í jörð. Hvort það er er eina rétta lausnin skal ég ekki segja og líklega byrja vegriðin í einhverjum tilfellum ekki nægilega langt frá brú og árbakka. En svo skapa vegriðin líka stundum önnur vandamál, t.d. varðandi snjósöfnun og slysahættu þessvegna.
Friðrik Vilhelmsson (IP-tala skráð) 27.6.2023 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.