4.7.2023 | 22:37
"Í Gjástykki aðskiljast álfurnar tvær..."
Á árunum eftir 2009 var ritdeila háð hér á bloggsíðunni og í Morgunblaðinu um kröfur landeigenda til þess að reisa gufuaflsvirkjun í Gjástykki, sem í mesta lagi yrði um 30 megavött en ylli hámarks óafturkræfum umhverfisspjöllum.
Þetta var og er gersamlega galið. vers vegna? Vegna þess að hvergi á jörðinni er að finna stað, þar sem teknar hafa verið myndir af því hvernig meginlandsflekarnir aðskiljast og upp kemur nýtt hraun og menn hafa séð sköpunina með eigin augum.
Á Reykjanesi hefur verið gerð svonefnd "Brú milli heimsálfanna" þar sem fólk getur gengið um brúna á milli flekanna og er það mjög verðmætur ferðamannastaður.
Samt eru engar myndir til að því þegar þetta gerðist og hafi hraun komið upp, er það löngu sandi orpið.
Það er líka misskilningur að slíkt sé hægt á Þingvöllum, því að ameríkuflekinn endar að vísu á vesturbrún Almannagjár, en mðrk Evrópuflekans eru hins vegar austur undir Heklu, en á milli er hlutlaus fleki, Hreppaflekinn svonefndi.
Gjástykki á sér engan jafnoka á jörðinni. Þegar hugmyndirnar um virkjun þar gengu hæst fyrir rúmum áratug voru uppi hugmyndir um stórfelldar álversframkvæmdir á Bakka, og myndi virkjun í Gjástykki útaf fyrir sig skapa um tuttugu störf þar.
Nú má sjá stórfelldar stóriðjuhugmyndir gengnar aftur á samfélagsmiðlum með kröfum um mörg hundruð megavatta gufuaflsvirkjanir á þessu svæði.
Í Ameríku segja menn einum rómi að í Yellowstone séu heilðg vé. Aldrei muni svo mikið sem einn af þúsundum hvera þess þjóðgarðs verða raskað. Svæði á stærð við Ísland umhverfis þjóðgarðinn, "Greater Yellowstone", er friðað fyrir ðllum borunum.
En hér á landi verða virkjanahugmyndirnar æ stórkarlalegri með hverju árinu um þessar mundir.
Gagnrýna framgöngu ráðherra vegna Gjástykkis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.